Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 680  —  350. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um dvalarleyfi háð takmörkunum.

    Ráðuneytið leitaði til Útlendingaeftirlitsins um svör við fyrirspurninni.

     1.      Hve oft gaf Útlendingaeftirlitið út svokallað dvalarleyfi háð takmörkunum („Limited Residence Permit“) til útlendinga sem óskuðu dvalar hér á landi?
    Dvalarleyfi háð takmörkunum hefur verið gefið út af Útlendingaeftirlitinu þegar útlendingur sem upphaflega hugðist dveljast hér á landi í þrjá mánuði óskar eftir skammtímaframlengingu á dvöl sinni. Ekki hefur verið haldið saman upplýsingum um fjölda slíkra leyfa, en lauslega ágiskað munu nokkrir tugir veittir á hverju ári.

     2.      Á hvaða tímabili voru slík dvalarleyfi í notkun? Óskað er eftir upplýsingum um hvenær síðasta leyfið var gefið út.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingaeftirlitinu eru ekki tiltækar upplýsingar um hvenær útgáfa þessara dvalarleyfa hófst nákvæmlega en það eru a.m.k. þrjátíu ár síðan. Ákveðið var að hætta notkun þess stimpils sem hefur áletrunina „Limited Residence Permit“ í byrjun desember sl.

     3.      Á grundvelli hvaða lagaákvæðis voru leyfin gefin út? Óskað er nákvæms rökstuðnings í svari.
    Samkvæmt 4. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, veitir Útlendingaeftirlitið þau leyfi sem þarf til landgöngu og dvalar samkvæmt lögunum. Heimild þessa leyfis sem hér um ræðir byggir Útlendingaeftirlitið á 5. gr. sömu laga.

     4.      Hvaða takmarkanir tengdust þessum leyfum umfram þær sem gilda um hefðbundin dvalarleyfi fyrir útlendinga?
    Hér var um að ræða tímabundna framlengingu á dvöl ferðamanns hér á landi og því felst ekki í leyfinu heimild til búsetu hér á landi. Hagstofa Íslands hefur t.d. ekki tekið útlendinga til skráningar á einstaklingsskrá (ekki veitt lögheimili) á grundvelli þess leyfis sem hér um ræðir.

     5.      Hvernig voru þeir sem slík leyfi fengu upplýstir um takmarkanirnar sem þeim fylgdu?
    Útlendingum, sem komu á skrifstofu Útlendingaeftirlitisins og var veitt framlenging á dvöl sinni sem ferðamenn hér á landi með þessu leyfi, voru munnlega veittar þær upplýsingar að leyfið fæli í sér framlengingu á dvöl þeirra sem ferðamenn hér á landi, en í því fælist ekki heimild til búsetu hér á landi. Þeir útlendingar sem sóttu um þessi leyfi og fengu jákvæða afgreiðslu þurftu ekki að leggja fram læknisvottorð, en þeir útlendingar (utan ríkisborgara EES-ríkis) sem sækja um dvalarleyfi hér á landi þurfa að leggja fram læknisvottorð.

     6.      Hver var ástæða þess að hætt var að gefa út leyfi af þessu tagi?
    Ástæða þess að stimpill sá sem hafði áletrunina „Limited Residence Permit“ var tekinn úr notkun er að þýðingin „Limited Residence Permit“ þykir ekki heppileg til notkunar þegar um er að ræða skammtímaframlengingu á dvöl útlendings hér á landi sem upphaflega hugðist einungis dveljast hér sem ferðamaður í þrjá mánuði.
    Fyrirhugað er í Útlendingaeftirlitinu að koma skammtímaframlengingum á dvalartíma ferðamanna hér á landi í nýtt horf, en ekki hefur verið tekin um það ákvörðun hvernig það verður gert, t.d. hvort um verði að ræða sérstaka stimplun í vegabréf eða útgáfu sérstaks leyfis. Að mati Útlendingaeftirlitisins er talið eðlilegt að greinarmunur verði gerður annars vegar á veitingu dvalarleyfis hér á landi, sem felur í sér heimild til að skrá lögheimili, og hins vegar á veitingu skammtímaframlengingar á hámarksdvöl útlendings sem ferðamanns hér á landi og að málsmeðferð slíkra framlenginga verði einfaldari eins og áður.