Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 736  —  376. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um aðstöðu til að sækja framhaldsskólanám.

     1.      Í hvaða byggðarlögum háttar þannig til að fólk á aldrinum 16–20 ára á þess ekki kost að sækja framhaldsskóla daglega heiman frá sér?
    Ef kjördæmi eru skilgreind sem byggðarlög í þessu sambandi er ljóst að svona háttar til í öllum kjördæmum nema í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. En jafnvel í þessum tveimur þéttbýlu kjördæmum má finna slíkar aðstæður sem þó telst til undantekninga.

     2.      Hve margir á þessum aldri eru búsettir í þessum byggðarlögum?
    Einfaldast er að áætla fjöldann með því að miða við póstsvæði í landsbyggðarkjördæmunum sex og leggja saman fjölda íbúa á þessum aldri á svæðum þar sem hvorki er framhaldsskóli, eða framhaldsdeild, né daglegur akstur í framhaldsskóla. Þá fást eftirfarandi niðurstöður, samkvæmt Hagstofu Íslands 1. desember 1999:

Vesturland
612
Vestfirðir
177
Norðurland vestra
710
Norðurland eystra
831
Austurland
368
Suðurland
498
Alls
3.196

    Alls eru þetta um 3.200 manns. Þess ber að geta að miðað við fjölda framhaldsskólanema árið 1998 fara að meðaltali um 70% af þessum aldurshópi í framhaldsskóla á hverju ári, eða 2.250 manns.

     3.      Hver er áætlaður árlegur kostnaður fyrir nemanda við framhaldsskólanám fjarri heimabyggð, svo sem við húsnæði, fæði, ferðalög, námsgögn, skólagjöld og önnur útgjöld sem námsdvölin hefur í för með sér?
    Á 123. löggjafarþingi 1998–99 lagði ráðherra fram skýrslu um framfærslukostnað og lögheimilisflutninga íslenskra námsmanna sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar er m.a. reynt að áætla viðbótarkostnað fjölskyldu við að hafa nemanda í framhaldsskóla fjarri heimabyggð á framfæri. Sé áætlaður kostnaður framreiknaður og tekið tillit til hækkunar styrks til jöfnunar á námskostnaði er útkoman á bilinu 100–322 þús. kr., eða um 210 þús. kr. að meðaltali.