Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 745  —  467. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „20 til 35 ára“ í a-lið 2. mgr. kemur: en þó má víkja frá aldurshámarkinu við sérstakar aðstæður.
     b.      Á eftir orðunum „eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri“ í c-lið 2. mgr. kemur: eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Nám í lögregluskólanum stendur í a.m.k. tólf mánuði og skiptist í þrjár annir. Fyrsta önn er ólaunuð. Þeim nemum sem standast próf á önninni skal ríkislögreglustjóri sjá fyrir launaðri starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. fjóra mánuði. Að lokinni starfsþjálfunarönn tekur við launuð þriðja önn í lögregluskólanum sem lýkur með prófum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við Lögregluskóla ríkisins, eru lagðar til breytingar á 38. gr. lögreglulaga. Markmiðið með frumvarpinu er tvíþætt, annars vegar að veita valnefnd Lögregluskólans meira svigrúm við ákvörðun um inntöku nema og hins vegar að gera náms- og þjálfunartíma lögreglunema skilvirkari og samfelldari, en það mun leiða til markvissari vinnubragða. Með þessu verður hægt að fjölga fyrr faglærðum lögreglumönnum.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. 38. gr. laganna skulu lögreglumannsefni vera 20 til 35 ára. Í a- lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að víkja megi frá aldurshámarki laganna við sérstakar aðstæður. Í framkvæmd hefur reynt á þau tilvik að þetta skilyrði sé of strangt þannig að ekki hefur verið unnt að taka inn nemendur sem hafa ákjósanlega reynslu til að starfa sem lögreglumenn og hafa sinnt afleysingarstörfum með góðum árangri um langa hríð.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að taka nema inn í Lögregluskólann á grundvelli starfsþjálfunar sem jafna má til tveggja ára almenns framhaldsnáms. Reynsla úr atvinnulífi og af öðrum vettvangi getur verið heppilegur grundvöllur undir störf í lögreglu og því er þessi heimild lögð til. Það skal þó sérstaklega ítrekað að þessi þjálfun verður að vera það mikil að henni megi öldungis jafna við tveggja ára framhaldsnám. Til að kanna starfsþjálfun lögregluefna getur verið nauðsynlegt að þreytt verði inntökupróf.
    Þá eru í c-lið 1. gr. frumvarpsins lagðar til breytingar á skipulagi grunnnáms í lögregluskólanum. Lögreglunámið skiptist í tvær annir með starfsþjálfun hjá lögreglu á milli námsannanna í skólanum. Fyrri önn í skólanum hefur verið ólaunuð og tekur 14 vikur. Í framhaldi af því tekur við launuð starfsþjálfun í allt að átta mánurði og að henni lokinni 18 vikna launuð síðari önn í skólanum. Stjórnendur skólans hafa í nokkurn tíma unnið að því að móta hugmyndir um breytingar á náminu, fyrst og fremst með það meginmarkmið í huga að námið í heild verði samfelldara og skilvirkara þannig að unnt verði að fjölga faglærðum lögreglumönnum án þess að slaka á menntunarkröfum. Í samræmi við þetta er lagt til að lögreglunámi og starfsþjálfun verði skipt í þriggja anna heildstætt nám. Fyrirhugað er að fyrsta önn í skólanum taki fjóra mánuði en síðan taki við fjögurra mánaða starfsþjálfun hjá lögregluembætti með aukinni áherslu á slíka þjálfun sem þátt í náminu. Mun Lögregluskólinn hafa meiri afskipti af nemunum en verið hefur á starfsþjálfunartímabilinu og hafa náið eftirlit með störfum þeirra, auk þess sem nemarnir verða á launaskrá hjá skólanum. Náminu lýkur síðan með önn í skólanum. Með slíku samfelldu námi og þjálfun eru tök á að auka gæði námsins, auk þess sem slíkt fyrirkomulag grunnnáms gerir skólanum kleift að efla enn frekar framhaldsmenntun lögreglumanna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum,
nr. 90 13. júní 1996, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á inntökuskilyrðum í Lögregluskóla ríkisins og hins vegar er lagt til að tíminn sem lögreglunemar þurfa til að ljúka námi verði styttur með því að stytta þjálfunartíma. Tilgangur breytinganna er einkum sá að gera kleift að útskrifa fleiri lögreglumenn úr skólanum en skortur hefur verið á fagmenntuðum lögreglumönnum. Fyrrgreinda breytingin hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Hins vegar er áætlað að stytting náms leiði til um 15 m.kr. kostnaðarauka fyrir skólann. Lögreglunemar eru nú á fyrri námsönn að vori, vinna í 8–12 mánuði og koma síðan á seinni námsönn að hausti. Með því að stytta þjálfunartíma í fjóra mánuði og breyta fyrirkomulagi hans verður hægt að mennta lögreglumenn á einu ári. Með þessari breytingu yrðu útskrifaðir 64 lögreglumenn á árinu 2000 en 32 á ári eftir það. Kostnaðaraukinn við breytta tilhögun helgast að mestu af því að skólinn tæki að sér að greiða lögreglunemum grunnlaun á þjálfunartíma þeirra á sumarönninni í stað þess að ráða þá sem almenna afleysingamenn að löggæsluembættunum. Við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2000 var samþykkt breytingartillaga um 15 m.kr. hækkun á fjárveitingu skólans vegna þessara fyrirætlana og hefur kostnaðaraukanum því þegar verið mætt í gildandi fjárlögum.