Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 751  —  383. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um áhrif framræslu á fuglalíf.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða fuglategundir hafa horfið úr röðum íslenskra varpfugla við framræslu votlendis?
     2.      Hverjar eiga nú í vök að verjast af þeim sökum?
     3.      Hefur röskun á votlendi breytt útbreiðslu og stofnstærð þeirra hérlendis að öðru leyti?


    Þekking á áhrifum framræslu votlendis á fuglalíf er ekki mikil og segja má að sú vitneskja sem til er byggist meira á vísbendingum en rannsóknum. Ráðuneytið leitaði til Náttúrufræðistofnunar Íslands um upplýsingar og kemur fram í svari stofnunarinnar að á vegum hennar hafa engar rannsóknir farið fram sem miða að því að kanna sérstaklega áhrif framræslu á fuglalíf eða til að greina þau áhrif frá öðrum, svo sem áhrifum minksins. Sama er að segja um vöktun votlendisfugla, en hún hefur ekki verið þannig að greina megi áhrif framræslu á stofnana. Þó má benda á að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hóf rannsóknir á áhrifum framræslu á lífríki árið 1975 í landi Hests í Borgarfirði og hefur undanfarið verið fylgst með breytingum á lífríki svæðisins eftir endurreisn votlendis þar fyrir nokkrum árum.
    Talið er að framræsla votlendis hafi átti einhvern þátt í því að keldusvín hætti að verpa á Íslandi, en minkurinn hafði einnig veruleg áhrif á það. Ekki er vitað til þess að framræsla votlendis hafi stuðlað að því að aðrar tegundir hafi horfið úr röðum íslenskra varpfugla.
    Engin fuglategund hér á landi er talin vera í útrýmingarhættu vegna framræslu votlendis, en nokkrar eiga í vök að verjast á afmörkuðum svæðum landsins, svo sem flórgoði. Erfitt er að segja til um hver áhrif framræslunnar eru á flórgoða eða greina þau frá áhrifum minksins og öðrum áhrifum mannsins á fuglinn.
    Framræsla votlendis hefur haft áhrif á útbreiðslu margra votlendisfugla, en ekki er hægt að fullyrða með neinni vissu hversu mikil þessi áhrif hafa verið, því að erfitt er að greina þau frá áhrifum minksins og annarra athafna mannsins.
    Til upplýsingar má geta þess að stuðst var við eftirtaldar greinar um fugla og votlendi sem birtar voru nýlega. Grein eftir Guðmund A. Guðmundsson, fuglafræðing á Náttúrufræðistofnun Íslands, um mikilvægi votlendis fyrir fugla í bókinni Íslensk votlendi, verndun og nýting (bls. 167–172). Í sama riti er grein Einars Þorleifssonar fuglaskoðara um áhrif framræslu votlendis á votlendisfugla á Suðurlandi (bls. 173–183). Það var gefið út árið 1998 af Háskólaútgáfunni í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Líffræðifélagið. Kristinn H. Skarphéðinsson, fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, og Einar Þorleifsson birtu greinina „Keldusvín — útdauður varpfugl á Íslandi“ í Kvískerjabókinni (bls. 266–296), sem einnig út kom árið 1998.