Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 759  —  479. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að Orkusjóður úthluti fé til hitaveitna á köldum svæðum.

Flm.: Árni Steinar Jóhannsson.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að hlutast til um að Orkusjóður úthluti fé til hitaveitna á köldum svæðum landsins.

Greinargerð.


    Í fjárlögum fyrir árið 2000 er áætlað að stuðningur ríkisins við hitaveitur á köldum svæðum verði 85 millj. kr. Í reglum iðnaðarráðuneytisins er reiknað með að hitaveitur sem lagðar hafa verið á síðustu tveimur árum fái fjárframlög sem nema þeirri upphæð sem áður fór til niðurgreiðslu rafmagns til húshitunar á svæðinu.
    Samkvæmt lögum nr. 49 19.mars 1999, um Orkusjóð, er sjóðurinn eign ríkisins og ber það ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum iðnaðarráðherra.
    Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda Íslands með fjármögnun grunnrannsókna á sviði orkumála annars vegar og fjárhagslegum stuðningi við ýmsar framkvæmdir og verkefni hins vegar.
    Samkvæmt lögunum er sjóðnum heimilt:
     1.      að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins samkvæmt áætlun sem sjóðurinn gerir til fimm ára á grunni rannsóknaráætlana Orkustofnunar; áætlunina skal endurskoða árlega og skal hún hljóta samþykki ráðherra,
     2.      að styrkja gerð yfirlitsathugana á möguleikum til að auka hlutdeild innlendra orkulinda í orkubúskap þjóðarinnar,
     3.      að veita opinberum aðilum, félögum og einstaklingum lán til að leita og afla jarðvarma með jarðvísindalegum forrannsóknum, jarðborunum og vinnslurannsóknum til að meta árangur borana,
     4.      að styrkja sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talda fræðslu og upplýsingastarfsemi, svo og hagrænar athuganir á orkumálum og umhverfisathuganir í tengslum við orkurannsóknir,
     5.      að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar sem ætla má að leiði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.
    Af þessu er ljóst að Orkusjóður hefur yfirlit yfir orkuöflunarmöguleika, frá frumhugmynd til raunhæfra áætlana um framkvæmdir.
    Stjórn Orkusjóðs er í höndum orkuráðs undir yfirstjórn iðnaðarráðherra. Á síðasta ári ákvað stjórnin að ráða starfsmann til sjóðsins og hefur nú verið opnuð skrifstofa Orkusjóðs á Akureyri. Vegna stuðnings ríkisins við hitaveitur á köldum svæðum er rökrétt að iðnaðarráðherra feli Orkusjóði afgreiðslu á framlögum ríkisins.
    Orkusjóður er í stakk búinn til að gefa þinginu upplýsingar um fjárþörf til framlaga við hitaveitur á köldum svæðum til lengri tíma litið.