Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 764  —  484. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „286.944“ í 1. mgr. A-liðar 68. gr. laganna kemur: 319.056.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. A-liðar 68. gr. laganna skal:
     a.      persónuafsláttur við staðgreiðslu opinberra gjalda á launatímabilinu frá og með 1. apríl til 31. desember árið 2000 vera 9/ 12 hlutar af 294.120 kr.; við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2001 vegna tekna og eigna árið 2000 skal persónuafsláttur vera 292.326 kr.;
     b.      persónuafsláttur við staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2001 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2002 vegna tekna og eigna árið 2001 vera 302.940 kr.;
     c.      persónuafsláttur við staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2002 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2003 vegna tekna og eigna árið 2002 vera 312.024 kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts árið 2001 vegna tekna og eigna árið 2000 og staðgreiðslu á því ári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á skattleysismörkum og persónuafslætti manna í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, dags. 10. mars 2000, þar sem kveðið er á um að greitt verði fyrir gerð kjarasamninga með því að láta skattleysismörk fylgja almennum umsömdum launahækkunum. Hækkun á árinu 2000 verður þónokkru meiri.
    Gert er ráð fyrir að hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka komi fram í áföngum frá og með 1. apríl á þessu ári til ársins 2003. Persónuafsláttur hækkaði um 2,5% frá og með 1. janúar sl., sbr. ákvæði til bráðbirgða í lögum nr. 65/1997. Gert er ráð fyrir að hann hækki aftur um 2,5% frá 1. apríl 2000 þannig að heildarhækkun á árinu 2000 nemur um 5%. Enn fremur hækkar persónuafsláttur um 3% 1. janúar 2001, um 3% 1. janúar 2002 og um 2,25% 1. janúar 2003.
    Í 1. gr. er lagt til að fjárhæð persónuafsláttar hækki úr 286.944 kr. í 319.056 kr. Hefur þá verið tekið tillit til allra þeirra hækkana sem fram eiga að koma í áföngum árin 2000–2003, sbr. 2. gr.
    Í 2. gr. er lagt til að breytingar á persónuafslætti komi til framkvæmda í áföngum frá 1. apríl 2000 til ársins 2003. Þar sem lagt er til að breytingin komi til framkvæmda frá og með 1. apríl er gert ráð fyrir að miða staðgreiðslu opinberra gjalda frá og með þeim tíma við 9/ 12 hluta þess persónuafsláttar eftir 2,5% hækkun. Eftir fyrstu hækkun nemur persónuafslátturinn 294.120 kr. Verður persónuafslátturinn því 24.510 kr. á mánuði í stað 23.912 kr. Við álagninguna árið 2001 verður persónuafslátturinn 292.325 kr. þar sem miðað verður við fjölda mánaða að teknu tilliti til breytinga á árinu, þ.e. miðað verður við 3/ 12 hluta af 286.944 kr. og 9/ 12 hluta af 294.120 kr.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að hækkun persónuafsláttar fylgi umsömdum almennum launahækkunum á vinnumarkaði á tímabilinu frá árinu 2000 til ársins 2003. Heildarhækkunin á árinu 2000 yrði þó heldur meiri en samkvæmt nýgerðum kjarasamningum, eða alls 5% í stað 3–3,9%. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf 10. mars sl. í tengslum við gerð kjarasamninga. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo nokkru nemi verði það óbreytt að lögum. Hins vegar er talið að ríkissjóður verði af um 900 m.kr. tekjum á árinu 2000, þ.e. 1.200 m.kr. miðað við heilt ár.