Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 819  —  277. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um forkaupsrétt sveitarfélaga að fiskiskipum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða sveitarfélög hafa neytt forkaupsréttar, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, og í hvaða tilfellum var það gert?

    Ráðuneytið sendi öllum viðkomandi sveitarfélögum á landinu, 41 að tölu, svohljóðandi bréf 3. febrúar 2000:
    „Til sjávarútvegsráðherra hefur á Alþingi verið beint eftirfarandi fyrirspurn: Hvaða sveitarfélög hafa neytt forkaupsréttar, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og í hvaða tilvikum hefur það verið gert?
    Í 3.–5. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 eru ákvæði sem lúta að forkaupsrétti sveitarfélaga sem hljóða svo:
    „Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.
    Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það.
    Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði. Ákvæði þessarar greinar um forkaupsrétt gilda ekki við sölu opinna báta.“
    Þar sem sveitarfélög þurfa hvorki að tilkynna ráðuneytinu né Fiskistofu þegar þau neyta forkaupsréttar liggja ekki fyrir neinar upplýsingar í ráðuneytinu um það í hvaða tilvikum slíkt hefur verið gert. Ráðuneytið snýr sér til sveitarfélaga og fer þess á leit við þau að þau veiti ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar. Hafi sveitarfélög sameinast eftir 1. janúar 1991, er lögin um stjórn fiskveiða tóku gildi, er þess óskað að upplýst verði hvort sveitarfélögin, fyrir sameiningu, hafi nýtt sér forkaupsréttarheimild laganna. Jafnframt vill ráðuneytið fara fram á það að sveitarfélögin lýsi þeirri reynslu sem fengist hefur af þessu lagaákvæði.
    Vegna frests sem sjávarútvegsráðherra hefur til þess að svara fyrirspurnum á Alþingi fer ráðuneytið þess á leit að erindi þessu verði svarað eigi síðar en 21. febrúar nk.“
    Alls bárust svör frá 35 sveitarfélögum. Aðeins sjö sveitarfélög kváðust hafa nýtt sér forkaupsréttarákvæði laganna: Fjarðabyggð, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Snæfellsbær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Vestmannaeyjabær og Vesturbyggð.
     Fjarðabyggð. Samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð hefur sveitarfélagið ekki nýtt sér forkaupsréttarákvæði laganna eftir sameiningu Reyðarfjarðarhrepps, Eskifjarðarkaupstaðar og Neskaupstaðar. Hins vegar nýtti Neskaupstaður sér heimildina þegar Hlífar Pétur NK var seldur. Þannig hafi aflaheimildirnar haldist í byggðarlaginu og reynslan í því tilviki verið góð.
     Grindavíkurbær. Samkvæmt upplýsingum Grindavíkurbæjar hefur sveitarfélagið í einu tilviki neytt forkaupsréttarákvæðis laganna er bæjarstjórn samþykkti 12. október 1994 að festa kaup á bátnum Höfrungi II.
     Reykjanesbær. Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir, sem nú mynda Reykjanesbæ, hafa einu sinni nýtt forkaupsrétt að skipi samkvæmt lögunum. Í svari sveitarfélagsins kemur hvorki fram um hvaða skip var að ræða né hvenær kaupin fóru fram.
     Snæfellsbær. Eftir sameiningu sveitarfélaga á utanverðu Snæfellsnesi hefur sveitarfélagið ekki neytt forkaupsréttar samkvæmt lögunum. Fram kemur í svari sveitarfélagsins að fyrir sameiningu hafi Ólafsvíkurkaupstaður neytt forkaupsréttar en hvorki kemur fram um hvaða skip var að ræða né heldur hvenær kaupin fóru fram.
     Sveitarfélagið Hornafjörður. Samkvæmt upplýsingum Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur bæjarstjórn bæjarfélagsins á Höfn einu sinni samþykkt að nýta sér forkaupsréttarákvæði laganna. Það var í ársbyrjun 1994 þegar vélbáturinn Hrísey SF 48 var seldur. Eftir sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Skaftafellssýslu sem hófst sumarið 1994 hefur hið sameinaða sveitarfélag ekki nýtt sér þetta ákvæði laganna.
     Vestmannaeyjabær. Vestmannaeyjabær hefur fimm sinnum neytt forkaupsréttar í samræmi við lög nr. 38/1990. Eftirtalin skip voru keypt og seld aftur innan bæjar: Sigurvík, Sjöstjarnan, Sindri, Helga Jóh. og Suðurey. Ekki kemur fram í svarinu hvenær kaupin fóru fram.
     Vesturbyggð. Vesturbyggð hefur í tveimur tilvikum neytt forkaupsréttar á fiskiskipum. Í fyrra tilvikinu neytti Patrekshreppur forkaupsréttar á mb. Vigdísi BA 77 (972) fyrir sameiningu sveitarfélaga í Vesturbyggð, en ekki kemur fram í svari sveitarfélagsins hvenær kaupin fóru fram. Í síðara tilvikinu neytti Vesturbyggð forkaupsréttar á mb. Fjólu BA 150 (1192) vorið 1998.
    Í fjórum tilfellum þar sem sveitarfélög hafa neytt forkaupsréttar síns hefur það verið fyrir sameiningu (Fjarðabyggð, Snæfellsbær, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vesturbyggð), þar sem einstök bæjarfélög neyttu forkaupskréttar síns (Neskaupstaður, Ólafsvík, Höfn og Patrekshreppur).
    Alls svöruðu 28 sveitarfélög erindi ráðuneytisins á þann veg að þau hefðu ekki nýtt sér forkaupsréttarákvæði laga nr. 38/1990.
    Níu sveitarfélög lýstu reynslu sinni af lagaákvæðinu. Eitt sveitarfélag taldi reynsluna góða og mikilsvert að geta gefið útgerðaraðilum kost á að kaupa skip þegar til stæði að selja það frá sveitarfélaginu, auk þess sem með þessu móti gæfist tækifæri til að fylgjast með sölum skipa úr byggðarlaginu.
    Í svari sjö sveitarfélaga kom fram óánægja með að útgerðaraðilar ættu auðvelt með að komast fram hjá forkaupsréttarákvæði laganna með því að stofna hlutafélög um útgerðir einstakra skipa en selja síðan hlutafélagið og flytja lögheimili þess. Þannig yrði forkaupsréttur sveitarfélaga að engu. Auk þess lýstu fjögur sveitarfélög óánægju sinni með að forkaupsréttarákvæðið skyldi ekki ná til aflaheimilda heldur aðeins til skipa og töldu ákvæðið því hafa takmarkað gildi fyrir sveitarfélög til þess að halda aflaheimildum í byggðarlaginu.