Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 827  —  526. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Á eftir skilgreiningu á félagasamstæðu í 7. gr. laganna kemur ný orðskýring, svohljóðandi:
          hlutdeildarfélag, félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhlut í og hafa veruleg áhrif á, en félag er talið hafa veruleg áhrif ef það og dótturfélög þess fara með 20% eða meira af atkvæðum í hlutdeildarfélaginu.

2. gr.

    Við 29. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Aðlagað gjaldþol vátryggingafélags sem á annað vátryggingafélag að dótturfélagi eða hlutdeildarfélagi er gjaldþol þess skv. 1. mgr. að frádregnum fjárhæðum sem verða til við að sömu eignir séu taldar beint eða óbeint hjá fleiri en einum aðila, svo og öllum eignum sem verða til við gagnkvæma fjármögnun. Tekið skal tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins, félaga sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga. Fjármálaeftirlitið getur í sérstökum tilvikum krafist eða heimilað að önnur aðferð sé notuð við útreikning aðlagaðs gjaldþols.
    Sé vátryggingafélag dótturfélag annars vátryggingafélags eða félags þar sem meginstarfsemin er eignarhald á vátryggingafélagi skal reikna aðlagað gjaldþol móðurfélagsins samkvæmt ákvæðum þessarar greinar auk útreiknings á gjaldþoli vátryggingafélagsins. Við útreikninginn skal taka tillit til allra hlutdeildarfélaga móðurfélagsins.
    Nánar skal kveða á um útreikning á aðlöguðu gjaldþoli í reglugerð. Þar má einnig tilgreina undanþágur frá skyldu til að reikna aðlagað gjaldþol. Taki útreikningurinn til fyrirtækja í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.

3. gr.

    Við 32. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé aðlagað gjaldþol vátryggingafélags eða móðurfélags þess minna en lágmarksgjaldþol skv. 30., 31. og 33. gr. að viðbættri hlutdeild í lágmarksgjaldþoli allra hlutdeildar- og dótturfélaga sem eru vátryggingafélög skal vátryggingafélagið þegar í stað gera áætlun um hvenær og hvernig markinu verði náð og skal áætlunin lögð fyrir Fjármálaeftirlitið sem ákveður hvort hún telst fullnægjandi. Lágmarksgjaldþol hlutdeildar- og dótturfélaga skal reiknað samkvæmt nefndum ákvæðum, jafnvel þótt aðrar reglur gildi í heimaríki þeirra.

4. gr.

    Við 1. mgr. 43. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stjórnin ber ásamt framkvæmdastjóra ábyrgð á því að skipulag félagsins og innra eftirlit sé fullnægjandi og á því að félagið geti lagt fram upplýsingar sem þörf er á til eftirlits með því. Fjármálaeftirlitið getur sett almennar reglur um fyrirkomulag innra eftirlits í vátryggingafélögum.


5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Fjármálaeftirlitið skal a.m.k. árlega kanna gjaldþol og greiðsluþol vátryggingafélaga á grundvelli ársreiknings fyrir næstliðið reikningsár og annarra nauðsynlegra gagna og upplýsinga um starfsemina. Einnig skal kanna aðlagað gjaldþol vátryggingafélaga og móðurfélaga þeirra ef við á. Fjármálaeftirlitið getur snúið sér til dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélags, félaga sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu, svo og til dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga, til að afla nauðsynlegra gagna hafi vátryggingafélagið sjálft ekki staðið Fjármálaeftirlitinu skil á þeim. Viðkomandi fyrirtæki skal þegar verða við beiðni um slík gögn. Einu gildir hvort eignaraðild er bein eða óbein. Gögnin má sannreyna með athugun á staðnum, hjá vátryggingafélaginu sjálfu eða öðrum félögum í sömu félagasamstæðu. Fjármálaeftirlitið metur síðan hvort skilyrði 29.–33. gr., eftir því sem við á, séu uppfyllt. Hafi Fjármálaeftirlitið athugasemdir fram að færa skal það tilkynnt félaginu. Sé nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þessa eiga ákvæði XI. kafla við.
     b.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitið fylgist með viðskiptum vátryggingafélags við dóttur- og hlutdeildarfélög þess, félög sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og við önnur dóttur- og hlutdeildarfélög þeirra félaga. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með viðskiptum vátryggingafélags við einstaklinga sem eiga 20% hlut eða stærri í framangreindum félögum. Sérstaklega skal fylgjast með lánum, ábyrgðum og liðum utan efnahagsreiknings, efnahagsliðum sem myndað geta hluta af gjaldþoli, fjárfestingum, endurtryggingaviðskiptum og samningum um kostnaðarskiptingu.
                  Árlega skulu vátryggingafélög skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um slík viðskipti eftir nánari ákvörðun þess. Séu viðskiptin við fyrirtæki eða einstaklinga í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Greinar frumvarpsins sem varða aðlagað gjaldþol koma þó fyrst til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vegna reikningsársins 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til lögfestingar á tilskipun 1998/78/ESB um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í fyrirtækjahópi á vátryggingasviði. Tilskipunin verður felld inn í viðauka IX við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 95 frá 16. júlí 1999. Hana þarf að lögfesta í öllum aðildarríkjum EES fyrir 5. júní árið 2000. Til lögfestingar á tilskipuninni þarf að breyta lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum, og setja ákvæði í reglugerð.
    Samkvæmt efnisatriðum frumvarpsins eru eftirtaldir aðilar í fyrirtækjahópi með vátryggingafélagi:
          dóttur- og hlutdeildarfélög vátryggingafélagsins,
          félög sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og
          önnur dóttur- og hlutdeildarfélög þeirra félaga sem eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu.
    Tilskipunin kveður á um tvíþætt viðbótareftirlit. Annars vegar skal, auk venjulegra útreikninga á gjaldþoli, reikna aðlagað gjaldþol fyrir fyrirtækjahópa sem einkum starfa að vátryggingum og taka tillit til skuldbindinga við tengda aðila og gjaldþols sem af þeim er krafist, sbr. 2., 3. og 5. gr. frumvarpsins. Hins vegar skal hafa eftirlit með viðskiptum vátryggingafélags við tengda aðila, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
    Til fyllingar ákvæðum tilskipunarinnar eru í 4. gr. frumvarpsins ákvæði um innra eftirlit í vátryggingafélögum, en slík ákvæði hafa verið rýr í íslenskri löggjöf.
    Ákvæði frumvarpsins um eftirlit með viðskiptum vátryggingafélags innan fyrirtækjahóps gilda um alla hópa, en ákvæði um viðbótareftirlit með gjaldþoli vátryggingafélaga í fyrirtækjahópum á vátryggingasviði einskorðast við fyrirtækjahópa sem uppfylla annað af tvennu:
          vátryggingafélag á annað vátryggingafélag að dóttur- eða hlutdeildarfélagi eða
          vátryggingafélag er dótturfélag annars félags sem hefur vátryggingastarfsemi að meginstarfsemi, annaðhvort sjálft eða dótturfélög þess.
    Þessi takmörkun á því hvaða fyrirtækjahópar skuli sæta viðbótareftirliti með gjaldþoli er fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum. Örðugt hefur reynst að ákveða hvernig viðbótareftirliti skuli háttað í fyrirtækjahópum sem stunda alhliða fjármálastarfsemi, t.d. ef vátryggingafélag og banki tengjast, en töluverður munur er á ákvæðum um gjaldþol vátryggingafélaga og um eigið fé lánastofnana.
    Viðbótareftirlit með gjaldþoli felst í athugun á aðlöguðu gjaldþoli vátryggingafélags. Það er í grófum dráttum athugun á styrk fyrirtækis sem yrði til ef eignarhlutir í hlutdeildarfélögum yrðu sameinaðir vátryggingafélaginu.
    Nýting sama eigin fjár hjá tengdum vátryggingafélögum hefur verið óveruleg hérlendis. Ekkert bendir til þess að lögfesting ákvæða um aðlagað gjaldþol verði til þess að íslenskt vátryggingafélag þurfi að styrkja fjárhag sinn af þeirri ástæðu einni.
    Eðlilegt er að festa í lög ákvæði um báða þætti viðbótareftirlits sem tilskipunin kveður á um. Eftirlit með gjaldþoli er grundvallarþáttur í eftirliti með vátryggingastarfsemi og eru helstu reglur um það að finna í 29.–33. gr. laganna. Kröfurnar um aðlagað gjaldþol sem lagt er til að lögfestar verði þrengja verulega möguleika fyrirtækjahópa til að nýta sama eigið fé oftar en einu sinni.
    Lagt er til að ákvæði tilskipunarinnar sem hér um ræðir verði lögfest sem breytingar á gildandi lögum um vátryggingastarfsemi en ekki sem sjálfstæð lög. Tilskipunin sjálf er hins vegar þannig að ákvæði hennar standa sjálfstæð án þess að breyta eldri tilskipunum um vátryggingastarfsemi. Ein ástæða þess kann að vera að tilskipunin gildir um öll vátryggingafélög eins og íslensk lög um vátryggingastarfsemi hafa ávallt gert. Eldri tilskipanir um vátryggingastarfsemi varða hins vegar ýmist skaðatryggingar, líftryggingar eða endurtryggingar. Því er ekki bein samsvörun með íslenskum vátryggingarétti og Evrópuréttinum í uppbyggingu, sem aftur veldur því að efnisskipan í frumvarpinu, svo sem skipting í greinar, er önnur en í tilskipuninni.
    Frumvarpið er samið í Fjármálaeftirlitinu, en drög þess voru kynnt íslenskum vátryggingafélögum. Í samræmi við ákvæði EES-samningsins tók forveri Fjármálaeftirlitsins, Vátryggingaeftirlitið, þátt í sérfræðingavinnu á vegum framkvæmdastjórnar ESB við lokagerð frumvarpsdraga sem síðar urðu að þeirri tilskipun sem hér er lagt til að tekin verði inn í íslenska löggjöf. Sú vinna fór fram á árunum 1994 og 1995, en mikil undirbúningsvinna hafði verið unnin innan ESB áður en EES-samningurinn gekk í gildi. Þessi ákvæði hafa því verið alllengi í mótun og tengjast stærra viðfangsefni um gjaldþol eða eiginfjárkröfur til fyrirtækjasamstæðna í fjármálaþjónustu. Reglur þar um eru flóknari og verða ekki fullmótaðar strax. Í Evrópu var því gripið til þess ráðs að setja sérstakar reglur um fyrirtækjahópa sem einkum stunda vátryggingastarfsemi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hugtakið hlutdeildarfélag er ekki skilgreint í lögum um vátryggingastarfsemi, en lagt er til að skilgreining á því verði tekin inn í 7. gr. laganna þar sem er að finna helstu skilgreiningar. Það einfaldar framsetningu þeirra ákvæða sem nú er bætt við, en í mörgum ákvæðum tilskipunarinnar sem verið er lögfesta er miðað við hlutdeildarfélög þegar ákveðið er hvort beita skuli viðbótareftirliti. Skilgreiningin er úr lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, sem lögfesti fjórðu tilskipun EES um félagarétt (1978/660/ESB). Vísað er til eignarinnar, hún er hlutdeildarfélag eigandans. Samsvarandi orð um eigandann er ekki til í íslensku. Nokkurt matsatriði er hvenær telja skuli félag hlutdeildarfélag, en það getur m.a. haft áhrif á hvaða aðferð er notuð við að meta eignarhlutinn við reikningsskil. Þá er áhersla lögð á veruleg áhrif, en mörkin um 20% eignarhlut eru höfð til viðmiðunar. Nemi eignarhlutur 20% eða meiru skal skilyrðislaust telja félagið hlutdeildarfélag nema í sérstökum undantekningartilvikum. Dæmi eru úr reikningsskilum vátryggingafélaga um að mörk eignarhlutar séu lægri, t.d. 15%, og að litlum félögum með starfsemi á öðru sviði sé sleppt þótt eignarhlutur fari yfir 20%. Gera má ráð fyrir að mat á því hvort annað fyrirtæki sé hlutdeildarfélag vátryggingafélags verði yfirleitt hið sama, hvort sem um er að ræða reikningsskil eða eftirlit samkvæmt greinum þessa frumvarps.

Um 2. gr.

    Lagt er til að ákvæðum sem skilgreina aðlagað gjaldþol verði bætt við þá grein í lögunum sem skilgreinir gjaldþol, en vísað í reglugerð um flestöll útfærsluatriði. Það er í samræmi við uppbyggingu tilskipunarinnar þar sem útfærslan er í viðaukum. Í viðauka við tilskipunina má velja um þrjár aðferðir við að reikna aðlagað gjaldþol. Hér er lagt til að ein þeirra verði lögfest sem meginregla en frávik heimiluð. Aðferðin sem hér er lagt til að verði meginregla var fengin úr danskri löggjöf inn í tilskipunina og virðist einföldust. Hinar tvær aðferðirnar eru einnig notaðar í EES-ríkjum sem þegar hafa sett löggjöf um þetta efni.
    Skyldan til að reikna aðlagað gjaldþol skapast þegar vátryggingafélag með starfsleyfi gefið út á Íslandi hefur yfirráð yfir eða á hlutdeild í öðru vátryggingafélagi, af hvaða tagi sem það vátryggingafélag kann að vera, sbr. 1. mgr. geinarinnar. Einnig skal reikna aðlagað gjaldþol móðurfélags vátryggingafélags ef móðurfélagið hefur beint eða óbeint vátryggingastarfsemi að meginstarfsemi, sbr. 2. mgr. greinarinnar.
    Ef annað hvort þessara skilyrða eða bæði eru uppfyllt þarf að reikna aðlagað gjaldþol fyrirtækjahópsins. Við útreikninginn þarf að draga frá það fé sem verður til með gagnkvæmum fjárfestingum og viðskiptum innan fyrirtækjahópsins. Þar undir fellur m.a. gagnkvæmur eignarhlutur, en einnig koma aðrir efnahagsliðir til greina. Við þennan frádrátt er tekið tillit til allra fyrirtækja í fyrirtækjahópnum, hvort sem þau eru vátryggingafélög eða ekki. Venjulegt gjaldþol vátryggingafélags er í meginatriðum eigið fé félagsins og verður að vera meira en tiltekið lágmark, sem til einföldunar má segja að sé 18% af iðgjöldum. Aðlagað gjaldþol er eigið fé vátryggingafélags að frádregnu fé sem er tví- eða margtalið innan fyrirtækjahópsins og því fé sem verður beinlínis til innan hans.
    Ákvæði um lágmark aðlagaðs gjaldþols eru í 3. gr. frumvarpsins. Tilskipunin gerir ráð fyrir að reiknað lágmark sé dregið frá aðlöguðu gjaldþoli og að útkoman verði að vera jákvæð. Lagt er til að vikið verði frá reiknireglu tilskipunarinnar en önnur jafngild reikniregla notuð í staðinn. Með þessu fráviki verða nýju ákvæðin hliðstæð ákvæðum um gjaldþol sem þegar eru í lögum.
    Eins og áður segir er lagt til að bundin verði í lög meginregla um hverja af þremur mögulegum aðferðum skuli nota við að reikna aðlagað gjaldþol, en að sett verði nánari ákvæði í reglugerð um útreikninginn. Frávik frá meginreglunni eru eðlileg í ýmsum tilvikum og skulu tvö nefnd. Sé vátryggingafélag hluti samstæðu þar sem samstæðureikningur er gerður getur verið einfaldara og eðlilegra að byggja mat á aðlöguðu gjaldþoli á samstæðureikningnum. Einnig getur verið handhægara að nota þær aðferðir sem notaðar eru í samstarfsríki í samstarfi við eftirlitsstjórnvöld annarra ríkja um mat á aðlöguðu gjaldþoli í fjölþjóðlegum hópi fyrirtækja.
    Ítarleg ákvæði eru í tilskipuninni um samskipti eftirlitsstjórnvalda einstakra aðildarríkja þegar tengsl fyrirtækja ná yfir landamæri. Meginsjónarmiðið er að reglan um eftirlit heimaríkis sé virt. Í frumvarpinu er vísað til alþjóðasamninga um þetta efni.

Um 3. gr.

    Til þess að ákvarða lágmark aðlagaðs gjaldþols þarf að reikna lágmarksgjaldþol sérhvers vátryggingafélags í viðkomandi fyrirtækjahópi. Ekki er víst að það liggi fyrir þar eð frumtryggingafélög í ýmsum löndum þurfa ekki að uppfylla sömu gjaldþolskröfur og gerðar eru til vátryggingafélaga á EES-svæðinu og einnig eru endurtryggingafélög undanþegin eftirliti í sumum löndum. Gjaldþol og lágmarksgjaldþol slíkra félaga skal reikna eins og gert væri ef íslensk félög ættu í hlut. Samanlagt lágmarksgjaldþol, að teknu tilliti til eignarhluta, er það lágmark sem aðlagað gjaldþol verður að ná. Að öðrum kosti ber að grípa til sömu aðgerða og þegar gjaldþol er ófullnægjandi, en þegar er mælt fyrir um þær í lögunum.
    Tilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til er að koma í veg fyrir að sama fé sé nýtt tvisvar eða jafnvel oftar til þess að uppfylla gjaldþolskröfur. Til skýringar má rekja ímyndað dæmi um vátryggingafélag sem ekki uppfyllir kröfur um fjárhagslegan styrk. Það gæti tekið upp á því að stofna dótturfélag og flytja helminginn af vátryggingastofninum þangað. Gjaldþolskrafan til hvors félags um sig yrði helmingur þess sem var til upprunalegs félags. Eigið fé þess væri allt lagt sem hlutafé í dótturfélagið og nægði til að uppfylla gjaldþolskröfur þess. Eigið fé móðurfélagsins nægði einnig fyrir gjaldþolskröfum sem gerðar væru til þess félags eins. Það fé væri allt bundið í hlutafé í dótturfélaginu, sem væri búið að nota það einu sinni til að mæta gjaldþolskröfum. Þannig gæti sama eigið fé staðið undir tvöfaldri gjaldþolskröfu með því að starfseminni væri skipt upp á viðeigandi hátt. Aðlagað gjaldþol móðurfélagsins yrði hins vegar hliðstætt því sem gjaldþol í óskiptu félagi var og þar með ófullnægjandi. Félagið yrði að grípa til ráðstafana til að treysta fjárhagslegan styrk sinn, svo sem að auka hlutafé eða minnka umsvifin þannig að heildargjaldþolskrafa lækkaði. Einföld skipulagsbreyting dygði ekki til að komast fram hjá gjaldþolskröfum þegar félagið þarf líka að uppfylla kröfur um aðlagað gjaldþol.
    Til skýringar á aðlöguðu gjaldþoli skal hér tekið dæmi um einfaldaðan útreikning byggt á ársskýrslu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 1998. Þessu dæmi er frekar ætlað að skýra hugtakið aðlagað gjaldþol en að sýna raunverulegt dæmi. Ýmsar upplýsingar, einkum um eignir sem verða til innan fyrirtækjahóps, eru ekki aðgengilegar í ársreikningum eins og þeir hafa verið settir upp til þessa. Að auki voru aðstæður Tryggingamiðstöðvarinnar hf. mjög sérstakar á þessum tíma vegna þess að samruni félagsins og Tryggingar hf. stóð fyrir dyrum. Það olli því að gjaldþolið var, að mati félagsins sjálfs, allt annað en hér kemur fram.
    Í skýringu með nefndum ársreikningi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. eru talin upp þrjú vátryggingafélög meðal dóttur- og hlutdeildarfélaga, auk eins fyrirtækis sem starfar á öðru sviði. Getið er um fimmta félagið sem ekki er vátryggingafélag og ekki er gert upp samkvæmt hlutdeildaraðferð þar sem áhrif þess á rekstur Tryggingamiðstöðvarinnar hf. eru óveruleg. Ítrekað skal að hér er eingöngu einfaldað skýringardæmi og í það vantar ýmsa þætti sem hefðu afgerandi áhrif ef um raunverulega könnun væri að ræða.
    Gjaldþol Tryggingamiðstöðvarinnar hf. (TM) er 2.943 millj. kr. skv. 29. gr. laga um vátryggingastarfsemi og reglugerð sem sett er á grundvelli hennar. Í þessu tilviki er gjaldþolið eigið fé félagsins að frádreginni væntanlegri arðgreiðslu.

Aðlagað gjaldþol Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Gjaldþolsliðir skv. 29. gr., jafnir eigið fé
2.987.803.679
Arðgreiðslur til hluthafa til frádráttar skv. reglugerð
-44.828.336
Gjaldþol án tillits til fyrirtækjahópsins
2.942.975.343
Skuld við Tryggingu hf.
-54.659.663
Samtals eignir sem myndaðar eru innan fyrirtækjahópsins
-54.659.663
Aðlagað gjaldþol Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
2.888.315.680
Lágmark aðlagaðs gjaldþols Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Lágmarksgjaldþol
428.048.059
82,30% af lágmarksgjaldþoli Tryggingar hf.
114.201.393 82,30% af 138.762.324
26,92% af lágmarksgjaldþoli
Íslenskrar endurtryggingar hf.

22.756.581

26,92% af

84.534.105
82,3% af 8,9% af lágmarksgjaldþoli
Íslenskrar endurtryggingar hf.

6.191.870

82,30% af 8,90% af

84.534.105
15,00% af lágmarksgjaldþoli
Sameinaða líftryggingarfélagsins hf.

29.151.175

15,00% af

194.341.167
Lágmark aðlagaðs gjaldþols
600.349.077
Gjaldþol sem hlutfall af lágmarksgjaldþoli
6,88
Aðlagað gjaldþol sem hlutfall af lágmarki
4,81

    Einnig skal draga frá eignir sem myndaðar eru innan fyrirtækjahópsins. Í dæminu sem hér er tekið er það eingöngu skuld móðurfélags við dótturfélag, en hún er eini slíki liðurinn sem fram kemur í ársreikningnum og er reiknuð með í dæmaskyni án þess að fullkannað sé hvort bæri að draga skuldina frá í raunverulegum útreikningum. Ekki er heldur tekið tillit til annarra frádráttarliða sem kunna að vera til staðar án þess að koma fram í ársreikningi. Gildandi löggjöf gerir ekki beina kröfu um frádrátt vegna hlutdeildarfélaga. Tryggingamiðstöðin hf. tók þó tillit til þessa í umræddum ársreikningi, en með öðrum hætti en frumvarpið gerir ráð fyrir. Það helgaðist m.a. af fyrirhuguðum samruna við Tryggingu hf.
    Lágmarksgjaldþol félagsins sjálfs er reiknað skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi og reyndist 428 millj. kr. Lágmarksgjaldþol Tryggingar hf. og Íslenskrar endurtryggingar hf. er reiknað samkvæmt sömu grein og þarf TM einnig að eiga fyrir viðeigandi hlutfalli þess. Auk 26,92% eignarhlutar TM í Íslenskri endurtryggingu hf. þarf að taka tillit til 82,30% hlutar félagsins í eignarhlut Tryggingar hf. sem er 8,90%. Beinn og óbeinn eignarhlutur TM í Íslenskri endurtryggingu hf. er því 34,24%. Lágmarksgjaldþol Sameinaða líftryggingafélagsins hf. er reiknað skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Samanlagt lágmarksgjaldþol TM og hlutdeildarfélaga er rúmar 600 millj. kr. og verður aðlagað gjaldþol að nema þeirri fjárhæð hið minnsta. Dæmið sýnir að útreikningar á aðlögðuðu gjaldþoli geta orðið flóknir vegna óbeinna eignarhluta, en einnig geta gagnkvæmar kröfur flækt útreikninginn. Gera verður ráð fyrir að vátryggingafélög þurfi að skila sérstakri skýrslu til Fjármálaeftirlitsins um aðlagað gjaldþol.
    Í dæminu er gjaldþol Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sjálfrar tæplega sjöfalt lágmarksgjaldþol, en aðlagað gjaldþol sem hlutfall af nauðsynlegu lágmarki er lægra hlutfall, eða tæplega fimmfalt. Ákveðnir liðir eru dregnir frá gjaldþoli til þess að reikna aðlagað gjaldþol auk þess sem hlutdeild í lágmarksgjaldþoli hlutdeildarfélaga er lögð við kröfu um lágmarksgjaldþol þannig að hlutfall aðlagaðs gjaldþols af lágmarki verður ævinlega lægra en venjulegt gjaldþolshlutfall viðkomandi félags.

Um 4. gr.

    Í 43. gr. laganna er fjallað um stjórn vátryggingafélags. Hér er lagt til að við hana verði bætt ákvæði um að stjórn vátryggingafélags beri ásamt framkvæmdastjóra ábyrgð á að skipulag og innra eftirlit félags sé fullnægjandi. Slík ákvæði eru í lögum um ýmsa aðra fjármálaþjónustu en vátryggingastarfsemi, og jafnvel kveðið á um fyrirkomulag, t.d. í lögum nr. 129/ 1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og í lögum nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Tilskipunin sem verið er að lögfesta kveður á um að aðildarríki skuli krefjast þess að vátryggingafélög hafi fullnægjandi innra eftirlit til að geta lagt fram þau gögn sem krafist er vegna eftirlits samkvæmt tilskipuninni. Í frumvarpinu er þetta ákvæði almennara og ekki einskorðað við þau gögn sem frumvarpið fjallar um að öðru leyti.
    Í gildandi lögum um vátryggingastarfsemi er aðeins á einum stað minnst á innra eftirlit. 2. málsl. 3. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo: „Einnig skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með rekstrarfyrirkomulagi, bókhaldi og innra eftirliti vátryggingafélaga.“ Engin bein ákvæði eru um að innra eftirlit skuli vera til staðar í vátryggingafélögum og heldur ekki um viðfangsefni þess eða skipulag. Eðlilegt þykir að bæta slíku ákvæði í lögin.
    Í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, er heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til þess að setja „leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs“.
    Álitamál er hvort gera skuli ráð fyrir reglugerð settri af viðskiptaráðherra eða reglum sem Fjármálaeftirlitið setur. Hér er lagt til að síðari leiðin verði farin.

Um 5. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 54. gr. laganna verði breytt svo að þar verði kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli árlega kanna aðlagað gjaldþol vátryggingafélaga og móðurfélaga þeirra ef við á. Nú eru í málsgreininni ákvæði um að kanna skuli gjaldþol og greiðsluþol. Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilað að afla nauðsynlegra gagna sem vátryggingafélag hefur ekki staðið skil á til eftirlitsins hjá tilteknum öðrum aðilum.
    Þá er lagt til að bætt verði inn í lögin ákvæði um að hafa skuli eftirlit með viðskiptum vátryggingafélags og þeirra sem eru í sama fyrirtækjahópi, svo og viðskiptum félagsins við einstaklinga sem eiga hlutdeild í fyrirtæki í hópnum. Tilskipunin gerir eingöngu kröfu um að eftirlitið beinist að því hvort gjaldþoli félaganna sé stefnt í hættu. Verkefni Fjármálaeftirlitsins eru slík að gera verður ráð fyrir að upplýsingarnar verði einnig notaðar til að fylgjast með starfsháttum vátryggingafélaganna. Búast má við að þetta eftirlit beinist einkum að viðskiptum sem ekki eru á markaðsverði og viðskiptum þar sem tekin er meiri áhætta en gert væri í viðskiptum óskyldra aðila. Í dæmaskyni má hugsa sér vátryggingafélag sem rekið er með tapi þannig að fyrirsjáanlegt er að gjaldþolið nægir ekki þeim umsvifum sem stefnt er að. Ef félagið er dótturfélag öflugra vátryggingafélags gæti móðurfélagið lagt því til verulega endurtryggingavernd og greitt hana niður án þess að það stefndi gjaldþoli móðurfélagsins í hættu. Eðlilegra væri að styrkja dótturfélagið með því að leggja til aukið hlutafé. Styrkir í formi viðskipta á vildarkjörum kunna að brjóta gegn þeirri grundvallarreglu reikningsskila að ársreikningar eigi að gefa glögga mynd af rekstrarafkomu á reikningsárinu og efnahag í lok þess, auk þess sem þeir raska samkeppnisstöðu og útheimta sérstaka meðferð við skattskil.
    Lagt er til, í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, að eftirlit með viðskiptum við aðra í fyrirtækjahópi takmarkist ekki við fyrirtækjahópa á vátryggingasviði. Eftirlit með viðskiptum við tengda aðila getur varðað fyrirtæki og einstaklinga sem ekki eru undir opinberu eftirliti og er því eðlilegt að afmarka með skýrum hætti í lögum hver samskipti eftirlitsstjórnvalda við þessa aðila skuli vera. Tilskipunin gerir ráð fyrir þeirri meginreglu að vátryggingafélag skili sjálft skýrslu um viðskipti sín við þá sem það er í tengslum við, en eftirlitsstjórnvöld hafi ekki bein samskipti við þá í þessu skyni nema þess þurfi.
    Sú afmörkun á fyrirtækjahópi sem stuðst er við í frumvarpinu er frábrugðin hugtakinu „náin tengsl“, sem skilgreint er í 7. gr. laganna. Hér er fortakslaust gert ráð fyrir að einnig verði tekið tillit til annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra aðila sem eiga hlutdeild í viðkomandi vátryggingafélagi.

Um 6. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist strax gildi svo að ákvæði um innra eftirlit og eftirlit með innbyrðis viðskiptum tengdra félaga taki þegar gildi. Gildistökuákvæði um aðlagað gjaldþol er hins vegar í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar sem verið er að lögfesta.
    Frestur til að taka umrædda tilskipun upp í rétt aðildarríkja EES-samningsins er til 5. júní 2000, en þá þurfa nauðsynlegar lagabreytingar og reglugerðir að hafa tekið gildi. Tilskipunin gerir ráð fyrir að ákvæðum hennar verði beitt í fyrsta sinn við eftirlit vegna ársreikninga næsta reikningsárs eftir að hún er lögfest, þ.e. árið 2001, en reikningsár íslenskra vátryggingafélaga er í lögum bundið við almanaksárið.
    Lagt er til að aðlögunartíminn sem tilskipunin gerir ráð fyrir verði veittur íslenskum vátryggingafélögum hvað varðar útreikning á aðlöguðu gjaldþoli. Ákvæði frumvarpsins um innra eftirlit og eftirlit með innbyrðis viðskiptum tengdra félaga eru mikilvæg ákvæði, óháð tilskipuninni. Lagt er til að gildistöku þeirra ákvæða verði ekki frestað, en sambærileg ákvæði hafa verið í gildi fyrir daga tilskipunarinnar, t.d. í Danmörku.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1994,
um vátryggingastarfsemi, með síðari breytingum.

    Frumvarpið kveður á um tvíþætt viðbótareftirlit. Annars vegar skal auk venjulegra útreikninga á gjaldþoli reikna aðlagað gjaldþol fyrir fyrirtækjahópa sem einkum starfa að vátryggingum og taka þá tillit til skuldbindinga við tengda aðila og til gjaldþolskrafna sem gerðar eru til þeirra. Hins vegar skal hafa eftirlit með viðskiptum vátryggingafélags við tengda aðila. Þá eru til fyllingar ákvæðum tilskipunarinnar ákvæði í frumvarpinu um innra eftirlit í vátryggingafélögum.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.