Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 841  —  540. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skólaakstur.

Flm.: Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagasetningu um lágmarksöryggisbúnað í skólabifreiðum og hámark þess tíma sem skólaakstur grunnskólabarna megi taka á degi hverjum.

Greinargerð.


    Engin samræmd löggjöf er til um skólaakstur á grunnskólastigi enda skal samkvæmt grunnskólalögum, nr. 66/1995, allur rekstur almennra grunnskóla vera á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga nema sérstaklega sé kveðið á um annað.
    Eins og fram kemur í skýrslu umboðsmanns barna fyrir árið 1998 fjölgaði ábendingum til embættisins sem vörðuðu skipulag og framkvæmd skólaaksturs eftir að grunnskólinn fluttist alfarið til sveitarfélaganna árið 1996. Í álitsgerð umboðsmanns um skólaakstur frá árinu 1998 segir m.a. að í umræddum ábendingum sé því haldið fram að „eftirliti með ástandi og öryggisbúnaði skólabíla sé víða ábótavant, þeir séu margir hverjir komnir til ára sinna og séu oft bæði óþægilegir og kaldir. Í mörgum skólabílum séu börnin ekki í bílbeltum enda ekki lögskylt í eldri hópbifreiðum. Jafnvel komi fyrir að börnin séu of mörg í bílnum.“ Þetta ástand getur ekki talist viðunandi.
    Í sömu skýrslu segir að það hafi einnig verið gagnrýnt að „akstur með yngstu börnin sé oft og tíðum óhóflega langur miðað við aldur þeirra“. Þetta þarf ekki að koma á óvart því að víða háttar svo til að grunnskólabörn þurfa að fara um langan veg til að sækja skóla og verja því miklum tíma í skólabifreiðum á degi hverjum. Þessi ferðalög geta verið afar þreytandi, einkum fyrir yngstu börnin sem þurfa yfirleitt meiri hvíld en þau sem eldri eru.
    Í X. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er kveðið á um að vinnudagur barna, þ.e. einstaklinga undir 15 ára aldri, megi aldrei vera lengri en sjö klukkustundir og aldrei meira en tvær klukkustundir á skóladegi. Þótt ferðalög í skólabifreið geti ekki talist vinna er sá tími sem þau taka augljóslega viðbót við skóladaginn hjá þeim börnum sem í hlut eiga. Ljóst er af fyrrnefndum lögum að það er vilji löggjafans að takmarka vinnu og annað álag á börn við sjö stundir á dag eða tvær klukkustundir til viðbótar skóladegi. Því er full ástæða til að marka samræmda stefnu til að koma í veg fyrir að börnum sé ofboðið með löngum ferðalögum daglega. Í þeim tilfellum þar sem skólaakstur tekur lengri tíma en hollt getur talist fyrir börn verða opinberir aðilar að leita allra leiða til nauðsynlegra úrbóta.
    Með þingsályktunartillögu þessari er skorað á ríkisstjórnina að beita sér fyrir lagasetningu sem taki til lágmarksöryggisbúnaðar í skólabifreiðum og tryggi að börnum sé ekki ofboðið með löngum skólaakstri.