Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 846  —  544. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.
1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Skal þessum aflaheimildum skipt milli botnfisktegunda í hlutfalli við leyfðan heildarafla af einstökum tegundum og verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald.

2. gr.

    Í stað orðanna „samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi árs“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: í samræmi við verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. a laganna:
     a.      Lokamálsliður 1. mgr. orðast svo: Við mat á heildarverðmæti aflamarks skal annars vegar miða við verðmætahlutföll einstakra tegunda á viðkomandi fiskveiðiári eða veiðitímabili samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald og hins vegar úthlutað aflamark einstakra tegunda á tímabilinu.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Við mat á heildarverðmæti aflahlutdeildar skal annars vegar miða við verðmætahlutföll einstakra tegunda á viðkomandi fiskveiðiári eða veiðitímabili samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald og hins vegar úthlutað aflamark einstakra tegunda á tímabilinu.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Skal við mat á þessu hlutfalli miðað við verðmæti einstakra tegunda í aflamarki skips í samræmi við verðmætahlutföll þeirra samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald.
     b.      2. málsl. 7. mgr. orðast svo: Í þessu sambandi skal aflamark metið í þorskígildum á grundvelli verðmætahlutfalla einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald.

5. gr.

    18. gr. laganna fellur brott.


6. gr.

    13. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIII í lögunum, sbr. 13. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 1 14. janúar 1999, um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins,
með síðari breytingum.
7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „750 kr.“ og „285.000 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 922 kr., og: 350.000 kr.
     b.      4. mgr. fellur brott.


8. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa skal innheimta gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins af hverju úthlutuðu þorskígildistonni. Skal gjaldið greitt af eiganda skips og nema 1.230 kr. fyrir hvert þorskígildistonn miðað við verðmætahlutföll einstakra tegunda samkvæmt lögum um veiðieftirlitsgjald. Gjaldið fellur í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum hvert fiskveiðiár, 1. september, 1. janúar og 1. maí. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skipsins niður. Fiskistofa skal standa Þróunarsjóði jafnharðan skil á innheimtu gjalda.
    Fari stjórn fiskveiða krókabáta fram með öðrum hætti en úthlutun aflaheimilda á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar skal gjald miðast við landaðan afla viðkomandi báts í þeim tegundum þar sem hann er ekki bundinn aflatakmörkunum en sæta ákvörðun um heildarafla á tímabilinu 1. ágúst til 31. júlí fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs miðað við skráningu aflans í aflaupplýsingakerfi Fiskistofu. Um gjald þetta gilda að öðru leyti ákvæði þessarar greinar eftir því sem við á.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands,
með síðari breytingum.
9. gr.

    2.–9. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 11/1998, um Kvótaþing.
10. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Kvótaþing skal innheimta 700 kr. fyrir hvert tilboð sem skráð er á þinginu. Kvótaþing skal einnig innheimta viðskiptagjald vegna kaupa og sölu aflamarks á þinginu sem nemur 0,13% af verðmæti viðskipta. Sett skal fram trygging fyrir viðskiptagjaldi áður en þjónusta er veitt.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla
um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.
11. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

VI. KAFLI
Gildistaka.
12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram eftir heildarskoðun á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs. Markmið þess er fyrst og fremst að tryggja skýra gjaldtöku og því er skýrar kveðið á um grundvöll og fjárhæðir gjalda en gert er í núgildandi lögum. Í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka hækkun gjalda til að sporna við þenslu í hagkerfinu er gert ráð fyrir að vísitölubinding gjalda verði afnumin. Þá er í samræmingarskyni lagt til að þróunarsjóðsgjald miðist við hvers konar aflaheimildir innan árs en núgildandi orðalag nær ekki til aflahámarks og krókaaflamarks. Að lokum felur frumvarp þetta í sér minni háttar lagfæringar á orðalagi og tilvísunum. Ekki eru lagðar til breytingar á fjárhæð gjalda að öðru leyti en því að þau verði uppfærð miðað við breytingar á byggingarvísitölu í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið með reglugerð samkvæmt heimild í gildandi lögum.
    Eftir framangreinda heildarskoðun þykir á þessu stigi rétt að gera breytingar á gjaldtökuákvæðum laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, laga nr. 151 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum, laga nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum, og laga nr. 11 27. mars 1998, um Kvótaþing. Ekki var talið rétt á þessu stigi að endurskoða gjaldtökuákvæði laga nr. 55 10. júní 1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum, þar sem nú er starfandi nefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra sem skal endurskoða fyrirkomulag eftirlits með framleiðslu og meðferð sjávarafurða. Slík endurskoðun getur haft áhrif á með hvaða hætti gjöld verða innheimt fyrir eftirlitið og á fjárhæð gjalda.
    Frumvarpið skiptist í sex kafla. Í I. kafla eru tillögur um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Lagt er til að 18. gr. laganna þar sem kveðið er á um veiðieftirlitsgjald falli brott. Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um veiðieftirlitsgjald þar sem lagt er til að grunnfjárhæð gjaldsins og verðmætahlutföll einstakra tegunda verði lögfest. Þykir skýrara að hafa sérstök lög um veiðieftirlitsgjald og tryggir það betur samræmda gjaldtöku. Í II. kafla eru tillögur um breytingar á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Tekið er tillit til breytinga sem felast í frumvarpi til laga um veiðieftirlitsgjald. Auk þess er lagt til eins og áður segir að vísitölubinding verði afnumin og samræmi tryggt við álagningu gjalds. Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Í samræmi við það sem áður segir um frumvarp til laga um veiðieftirlitsgjald er lagt til að ákvæði 8. gr. laganna sem fjalla um slíkt gjald falli brott. Í IV. kafla frumvarpsins eru tillögur um breytingar á gjaldtökuákvæði laga nr. 11 27. mars 1998, um Kvótaþing. Í samræmi við fyrrgreint markmið frumvarpsins um skýrleika gjaldtöku er lagt til að grundvöllur gjalds fyrir þjónustu Kvótaþings verði lögfestur. Í V. kafla er lagt til að ákvæði laganna um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í fullvinnsluskipum falli brott. Í áðurgreindu frumvarpi til laga um veiðieftirlitsgjald, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, er fjallað heildstætt um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í frumvarpi til laga um veiðieftirlitsgjald sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að útreikningsaðferð verðmætahlutfalla einstakra tegunda verði lögfest. Breytingar sem lagðar eru til í þessari grein eru í samræmi við það.

Um 2.–4. gr.

    Um skýringar á þessum greinum vísast í athugasemdir við 1. gr.

Um 5. gr.

    Eins og greinir í almennum athugasemdum er lagt til að ákvæði 18. gr. laga um stjórn fiskveiða falli brott og sérstök lög kveði á um veiðieftirlitsgjald.

Um 6. gr.

    Í 2. gr. frumvarps til laga um veiðieftirlitsgjald er ákvæði sem nær almennt til stjórnunar veiða sem fer fram með öðrum hætti en á grundvelli úthlutunar aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar. Eiga því bátar sem stunda veiðar samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXIII í lögum um stjórn fiskveiða að greiða gjald skv. 2. gr. þess frumvarps. Miðað er við að þeir sem fengið hafa úthlutað krókaaflahlutdeild eigi fyrst að greiða gjald í samræmi við hlutdeildarstöðu sína þegar úthlutun krókaaflamarks fer fram.

Um 7. gr.

    Í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema sjálfvirka hækkun gjalda til að sporna við þenslu í hagkerfinu er lagt til að vísitölubinding þróunarsjóðsgjalds á skip verði afnumin. Hefur gjaldið verið uppfært með reglugerð ár hvert miðað við byggingarvísitölu samkvæmt heimild í 4. mgr. 4. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Var það síðast gert með reglugerð nr. 14 7. janúar 2000, um breytingu á reglugerð nr. 8 14. janúar 1997, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Samkvæmt því er lagt til að grunngjaldið verði 922 kr. og hámark þess 350.000 kr. Þess má geta að í fjárlögum fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að heildartekjur vegna þessa gjalds verði 90 millj. kr.

Um 8. gr.

    Í 6. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er gert ráð fyrir að þróunarsjóðsgjald á aflamark sé a.m.k. 1.000 kr. Lagt er til að grunnfjárhæðin verði lögfest. Miðað hefur verið við 1.000 kr. grunngjald sem hefur verið uppfært árlega miðað við byggingarvísitölu, sbr. 2. mgr. 6. gr. Samkvæmt reglugerð nr. 520 27. júlí 1999, um greiðslu gjalds til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, er gjaldið nú 1.225 kr. Lagt er til að miðað verði við byggingarvísitölu í janúar 2000 og gjaldið verði því 1.230 kr. Er því um óverulega breytingu að ræða. Þess má geta að í fjárlögum fyrir árið 2000 voru áætlaðar tekjur vegna gjaldsins 560 millj. kr. Orðalagi 6. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins hefur verið breytt svo að það nái skýrlega til allra aflaheimilda sem úthlutað er innan árs og allra krókabáta óháð því stjórnkerfi sem þeir stunda veiðar samkvæmt. Nær ákvæðið því t.d. nú til norsk-íslensku síldarinnar og úthlutunar á grundvelli krókaaflahlutdeildar. Í samræmi við það sem segir í athugasemdum við 7. gr. er lagt til að vísitölubinding verði afnumin. Þá er lagt til að gjaldið skuli lagt á eigendur krókabáta en orðalag 6. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er óljóst að þessu leyti.

Um 9. gr.

    Eins og greinir í almennum athugasemdum er lagt til að 2.–9. mgr. 8. gr. laga um fiskveiðar utan landhelgi Íslands sem fjalla um veiðieftirlitsgjald falli brott þar sem heppilegra þykir að kveða á um veiðieftirlitsgjald í sérstökum lögum.

Um 10. gr.

    Í 7. gr. laga um Kvótaþing er kveðið á um að gjaldskrá Kvótaþings skuli miðuð við að gjaldið standi undir kostnaði af rekstri þingsins. Með hliðsjón af reynslu viðskiptaársins 1998/1999 var ákveðið í upphafi viðskiptaárs 1999/2000 að gjaldið skyldi vera 700 kr. fyrir skráningu tilboða og 0,13% af verðmæti viðskipta. Þar sem gjaldinu er ætlað að standa undir öllum kostnaði af rekstri þingsins þykir eðlilegra að kveða á um í lögum hvert gjaldið skuli vera. Í fjárlögum fyrir árið 2000 eru tekjur Kvótaþings vegna gjaldtökunnar áætlaðar 16 millj. kr. Kvótaþing hefur aðeins starfað í tæp tvö ár og er því ekki komin mikil reynsla á rekstur þess til að byggja áætlun um gjaldtöku á og má því búast við að endurskoða þurfi gjaldið í ljósi frekari reynslu.


Um 11. gr.

    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp um veiðieftirlitsgjald þar sem fjallað er heildstætt um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum. Er því lagt til að slíkt ákvæði laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum falli brott.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á gjaldtökuákvæðum
nokkurra laga á sviði sjávarútvegs.

    Frumvarp þetta er lagt fram eftir heildarskoðun á gjaldtökuákvæðum laga á verkefnasviði sjávarútvegsráðuneytisins. Lagðar eru til breytingar á gjaldtökuákvæðum laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, laga nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, laga nr. 151 27. desember 1996, um veiðar utan lögsögu lands, laga nr. 11 27. mars 1998, um Kvótaþing, og laga nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um veiðieftirlitsgjald þar sem ákvæði um gjald fyrir veiðieftirlit í lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, lögum nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, og lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, hafa verið felld niður með þessu frumvarpi sem hér um ræðir.
    Markmið frumvarpsins er að auka skýrleika gjaldtöku. Þá er í samræmingarskyni lagt til að þróunarsjóðsgjald miðist við hvers konar aflaheimildir sem úthlutað er innan árs en núgildandi orðalag nær ekki til aflahámarks og krókaaflamarks. Þar sem breytingin leiðir til þess að unnt verður að innheimta gjald vegna úthlutunar veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum má ætla að þróunarsjóðsgjaldið skili um 30 m.kr. í auknar tekjur til Þróunarsjóðs. Þróunarsjóðsgjaldi er samkvæmt lögum ætlað að standa undir skuldbindingum og rekstrarkostnaði Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Í fjárlögum ársins 2000 eru áætlaðar tekjur af þróunarsjóðsgjaldi 650 m.kr.