Ferill 551. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 853  —  551. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    3. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
    3. Göngusilung má veiða frá 1. apríl til 10. október ár hvert. Þó skulu lok veiðitíma göngusilungs í veiðivatni, þar sem megnið af veiðinni er villtur laxastofn, miðast við 30. september skv. 1. mgr. Þá er sérstaklega stendur á getur veiðimálstjóri með hliðsjón af ástandi viðkomandi fiskstofna leyft að göngusilungur sé veiddur utan þess tíma í lagnet, á stöng, á dorg og á færi.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 9. mgr. orðast svo: Innan tveggja vikna frá móttöku birtir veiðimálastjóri með opinberri auglýsingu umsókn framkvæmdaraðila um undanþágu frá ákvæðum 6. mgr. og kallar eftir umsögnum veiðifélaga á viðkomandi vatnasviði um framkvæmdina.
     b.      11. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Í stað 2. og 3. málsl. 3. mgr. 62. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Teljist frágangur fullnægjandi skal veiðimálastjóri gefa út rekstrarleyfi og öðlast starfsemin þar með réttindi skv. 66. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna:
     a.      B-liður 1. mgr. orðast svo: 2% gjald af útborguðum arði veiðifélaga sem sjóðurinn innheimtir af veiðifélögum eða sjálfstætt starfandi deildum veiðifélaga. Veiðifélög, þar sem félagsmenn stunda veiði fyrir landi sínu eða leigja hana til stangaveiði, skulu innheimta fiskræktarsjóðsgjald hjá félagsmönnum sínum og skila því til fiskræktarsjóðs.
     b.      D-liður 1. mgr. orðast svo: 3‰ af árlegum heildartekjum vatnsaflsstöðva sem selja orku til almennings. Greitt skal einu sinni á ári og miðað við heildartekjur samkvæmt ársskýrslum.
     c.      F-liður orðast svo: 3‰ af árlegum heildartekjum vatnsaflsstöðva vegna sölu á raforku samkvæmt sérsamningum til nýrra stórnotenda. Greitt skal einu sinni á ári og miðað við heildartekjur samkvæmt ársskýrslum.
     d.      Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
             4. Gjalddagi þessara gjalda skal vera 1. júní fyrir almanaksárið á undan. Séu gjöld þessi ekki greidd á eindaga, sem er 30 dögum eftir gjalddaga, má innheimta þau með fjárnámi án undangengins dóms og reiknast þá dráttarvextir frá gjalddaga.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi við birtingu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru annars vegar lagfærðir annmarkar á lögunum og samræmd ákvæði þeirra, einkum varðandi fiskræktar- og fiskeldismál. Hins vegar eru lagðar til breytingar til að uppfylla stjórnarskrárákvæði um heimildir til töku skatta og þjónustugjalda í samræmi við lögmætisregluna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Framlenging á sjóbirtingsveiði byggist á faglegu mati á ástandi og gönguhegðun sjóbirtingsstofna að hausti. Oft þarf að afgreiða undanþágur til framlengingar með stuttum fyrirvara og ekki tök á að leggja málið fyrir veiðimálanefnd, sem hittist með nokkurra mánaða millibili. Þetta ákvæði í lögunum varð til þegar umsagnarferlinu var breytt árið 1998 og veiðimálastjóri hætti að vera umsagnaraðili til ráðuneytis sem afgreiddi undanþágu varðandi framlengingu. Veiðimálanefnd fékk þá það hlutverk að gefa umsagnir sem ekki er rökrétt þar sem hún er ekki faglegur aðili. Eðlilegra er að veiðimálastjóri sem er faglegur stjórnsýsluaðili afgreiði slíkar undanþágubeiðnir.

Um 2. gr.


    Óeðlilegt verður að telja að auglýsa þurfi opinberlega allar fyrirætlanir veiðiréttareigenda varðandi fiskræktarframkvæmdir, ekki síst ef þeir hafa fengið samþykkta fiskræktaráætlun til fimm ára í samræmi við 2. mgr. 23. gr. Auglýsingaferlið skv. 23. gr. tekur að lágmarki þrjá mánuði en með kæru til ráðherra getur það tekið sex mánuði. Ákvarðanir um seiðasleppingar til fiskræktar eru oft teknar með stuttum fyrirvara og í mörgum tilfellum er stofn úr viðkomandi á ekki tiltækur, einkum þegar minni ár eiga í hlut. Núverandi ákvæði laganna eru því í raun dragbítur á allar fiskræktarframkvæmdir og ýta undir að aðilar taki ákvarðanir um að fara á svig við lögin. Þessi mikla takmörkun fiskræktarframkvæmda með villta stofna er einnig í mótsögn við ákvæði 4. mgr. 23. gr., en þar er veiðimálastjóra heimilt að leyfa notkun hafbeitarstofna í veiðivötnum í samráði við veiðiréttareigendur.
    Breytingartillagan hefur í för með sér að flutningar á hafbeitar- eða eldisfiski til veiði verða auglýstir opinberlega auk þess að fá faglega umfjöllun en fiskræktarframkvæmdir fá eingöngu faglega umfjöllun án þess að skylt sé að auglýsa.
    Breytingar á 11. mgr. 23. gr. er til samræmis öðrum lögum. Ekki er venja að framkvæmdaraðili beri kostnað af málsmeðferð hins opinbera.
    

Um 3. gr.


    Breyting á 3. mgr. 62. gr. er til að leiðrétta að samkvæmt lögunum skal veiðimálastjóri bæði mæla með staðfestingu rekstrarleyfis og gefa þa út. Fyrir breytingu laganna 1998 mælti veiðimálastjóri með staðfestingu leyfisins og landbúnaðarráðuneytið átti að gefa það út. Við breytinguna láðist að fella niður meðmælaskyldu veiðimálastjóra við veitingu rekstrarleyfis.

Um 4. gr.


         Með breytingu á b-lið 1. mgr. 92. gr. laganna er skilgreint hvað átt er við með skírum tekjum auk þess sem kveðið er á um hverjir beri gjaldskylduna og hvaða aðilar sjái um innheimtu gjaldsins. Lagt er til að í stað orðanna „skírum tekjum“ komi „útborguðum arði“. Ákvæðið er gert skýrara í samræmi við þá meginreglu að ákvæði um skattlagningu skuli vera í lögum.
    Breytingar á d- og f-lið 1. mgr. 92. gr. eru einnig til að skilgreina betur hvaða gjaldstofn átt er við. Í lögunum stendur 3‰ af óskírum tekjum. Það er ekki nægilega vel skilgreint í samræmi við þá meginreglu að ákvæði um skattlagningu skuli vera í lögum. Hér er því lagt til að í stað orðanna „af óskírum tekjum“ komi „af heildartekjum“. Einnig er nánar útskýrt hvernig gjaldstofninn er reiknaður út, þ.e. að hann er reiknaður af heildartekjum vatnsaflsstöðvanna miðað við ársskýrslur.
    F-liður 1. mgr. 92. gr. er óbreyttur í frumvarpinu að öðru leyti en því að gjaldið er skilgreint betur og hverjir eigi að greiða það. Hinn 3. júní 1998 tóku gildi breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, þá voru sett inn í lögin ákvæði sem tóku til sölu vatnsaflsstöðvanna á raforku til nýrra stórnotenda. Lagt er til að það ákvæði haldist óbreytt. Samkvæmt gildandi lögum greiða vatnsaflsstöðvarnar 3‰ af heildartekjum sínum að frádregnum tekjum af gufuaflsstöðvum vegna sölu á raforku til nýrra stórnotenda, þ.e. þeirra lögaðila sem teljast stórnotendur eftir 3. júní árið 1998. Einu breytingarnar á d- og f-lið 1. mgr. 92. gr. eru að nánar er gerð grein fyrir greiðanda og gjaldstofni í samræmi við lögmætisregluna.
    Með nýrri 4. mgr. í 92. gr. er kveðið á um þau úrræði sem fiskræktarsjóður hefur borgi aðilar ekki það gjald sem lögákveðið er. Er hér sett inn aðfararheimild til innheimtu án undangengins dóms en mjög mikilvægt er að Fiskræktarsjóður hafi skýrar heimildir til innheimtu gjaldanna séu þau ekki greidd á réttum tíma.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

     Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði,
nr. 76/1970, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að skýra betur hugtök og gera framkvæmd laganna skilvirkari. Helstu nýmæli eru að veiðifélög innheimta fiskræktarsjóðsgjald hjá félögum sínum í stað innheimtu Fiskræktarsjóðs. Samkvæmt fjárlögum ársins 2000 er gert ráð fyrir að 15 m.kr. framlag renni til Fiskræktarsjóðs. Ekki er gert ráð fyrir hækkun tekna þar sem önnur gjaldtökuákvæði breytast ekki í framkvæmd frá gildandi lögunum.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.