Ferill 565. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 867  —  565. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vetraríþróttasafn.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að skipuð verði nefnd sem undirbúi stofnun og rekstur safns vetraríþrótta.

Greinargerð.


    Vetraríþróttir eru ríkur þáttur í sögu og nútíð landsmanna en fjölbreytni þeirra og vöxtur hefur þó aldrei verið meiri en síðustu ár. Jafnframt þessu voru skíði, sleðar og önnur tæki hluti af samgöngu- og flutningatækjum áður fyrr. Eðlilegt er að komið verði upp safni sem hafi að geyma muni, myndir og frásagnir um vetraríþróttir á Íslandi. Skíði og skíðamennska er heppilegur upphafsþáttur í safni vetraríþrótta og þar yrðu einnig skautar og sleðar frá fyrstu tíð ásamt eintökum sem brygðu upp mynd af þróun þessara hluta og notkun þeirra allt fram á þennan dag. Þá ættu aðrar vetraríþróttir einnig að eiga sinn sess á safninu enda þótt þær eigi sér skemmri sögu en skíði og skautar. Til þess að efla slíkt safn mætti koma þar fyrir ýmiss konar búnaði sem tengist sögulegum viðburðum, svo sem björgunarleiðöngrum, björgunarstarfi og ferðalögum.
    Söfn vetraríþrótta eru þekkt víða um lönd þó að þau séu nokkuð misjafnrar gerðar. Nærtækast er að benda á söfnin í Noregi sem geyma sögu skíða og skíðaferða en þau draga að sér mikinn fjölda ferðamanna og eru lærdómsrík fyrir þá sem nú lifa og síðar koma. Enginn vafi er á að slíkt safn hér á landi mun efla ferðaþjónustu og auka fjölbreytni og fræðslu meðal almennings.
    Brýnt er að vinna að stofnun vetraríþróttasafns sem fyrst, a.m.k. þeim þáttum sem snúa að varðveislu muna og frásagna sem farið geta forgörðum á næstu árum ef ekki er að gætt. Enn er að finna meðal okkar fólk sem lagt getur fram mikilvægan fróðleik og frásagnir um þróun vetraríþrótta á síðustu áratugum og enn má finna muni sem hafa mikið varðveislugildi.
    Flest bendir til þess að verulegur áhugi verði á að stofna og efla safn um vetraríþróttir, enda eru margir aðilar sem lagt geta slíku safni lið, stofnanir, fyrirtæki, félög og almenningur. Leggja þarf áherslu á víðtækt samstarf allra og sem víðast á landinu.
    Nokkrir staðir koma til greina þegar hugað er að stað fyrir safn vetraríþrótta en nærtækast er að benda á Akureyri enda er þar er nú þegar miðstöð vetraríþrótta og fjöldi gesta er þar mikill bæði íþróttamenn og venjulegir ferðamenn. Safnið mun efla miðstöð vetraríþróttanna og auðga bæjarlífið á Akureyri.