Ferill 571. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 873  —  571. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000–2004.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



    Alþingi ályktar að á árunum 2000–2004 skuli varið 4.650 millj. kr. til að grafa jarðgöng sem hluta af vegakerfi landsins. Fyrstu verkefnin sem framkvæma skal eru jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar annars vegar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hins vegar. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að næstu verkefnum. Sérstaklega verði rannsökuð göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum og á Austfjörðum ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og göng milli Héraðs og Vopnafjarðar.
    Fjárveitingar skiptast á verkefni og ár sem hér segir (millj. kr.):

2000 2001 2002 2003 2004
Siglufjörður–Ólafsfjörður og Reyðarfjörður–Fáskrúðsfjörður 100 200 1.400 1.400 1.400
Rannsóknir til undirbúnings jarðganga á Vestfjörðum og Austfjörðum 50 50 50
Samtals 100 200 1.450 1.450 1.450

    Kostnaður við jarðgangagerðina greiðist úr ríkissjóði. Verði fjár aflað sérstaklega í þessu skyni, m.a. með sölu ríkiseigna.
    Jarðgangaáætlun skal felld að vegáætlun og endurskoðuð jafnhliða henni, á tveggja ára fresti. Við endurskoðun bætast við tvö ár hverju sinni.

Greinargerð.


    Hinn 11. mars 1999 var samþykkt á Alþingi eftirfarandi þingsályktun:
    „Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.“
    Samgönguráðuneytið fól Vegagerðinni málið til afgreiðslu, með bréfi dags. 30. mars 1999.
    Í janúar sl. lagði Vegagerðin fram umbeðna jarðgangaáætlun. Í fylgiskjali er að finna tillögur um fyrstu verkefni samkvæmt áætluninni, sem og skrá yfir verkefni til síðari skoðunar. Þar kemur fram rökstuðningur fyrir vali verkefna. Er vísað til þess hér og til áætlunarinnar sjálfrar, en þar er að finna margs konar upplýsingar tengdar jarðgangagerð almennt, svo og þeim verkefnum sérstaklega sem þar er fjallað um.
    Í þingsályktunartillögu þessari er gert ráð fyrir að lokið verði rannsóknum og öðrum undirbúningi fyrir göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, svo og milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, á þessu og næsta ári. Ákvörðun um útboð þessara verkefna og í hvort þeirra verður ráðist fyrst eða þau unnin samhliða verði tekin þegar rannsóknir eru komnar á góðan rekspöl.
    Með þeim fjárveitingum sem gerð er tillaga um gætu framkvæmdir hafist af krafti árið 2002. Kostnaður við umrædd verkefni er metinn þannig:
              Reyðarfjörður–Fáskrúðsfjörður          3,0 milljarðar kr.
              Siglufjörður–Ólafsfjörður          5,3 milljarðar kr.
    Í báðum tilvikum er reiknað með tvíbreiðum göngum. Sé gert ráð fyrir sömu fjárveitingum áfram, 1.400 millj. kr. á ári, gæti báðum verkefnunum verið lokið árið 2007.
    Samkvæmt tillögunni er fé einnig veitt til undirbúningsrannsókna jarðgangaverkefna á Vestfjörðum og Austfjörðum. Eru þar talin þrjú verkefni sem rannsökuð verða.



Fylgiskjal.


Tillögur í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar.


(Janúar 2000.)



    Vegagerðin leggur til að þeim jarðgöngum sem verið hafa til skoðunar verði skipt í tvo flokka:
     1.      Fyrstu verkefni.
     2.      Verkefni til síðari skoðunar.
    Þær tillögur sem hér eru lagðar fram byggjast að nokkru leyti á nýjum áherslum. Áður hefur við forgangsröðun jarðgangaframkvæmda verið litið á vetrareinangrun sem veigamesta atriðið. Hér má segja að meiri áhersla sé lögð á göng sem geta stækkað og styrkt byggðakjarna, ekki síst með styttingu vegalengda. Meginástæður þessarar viðhorfsbreytingar eru tvær. Einn mikilvægra þátta til að sporna við stöðugri fólksfækkun á landsbyggðinni hlýtur að vera efling byggðakjarna sem eru nógu stórir til að geta haldið uppi fjölbreyttu atvinnu-, mennta- og menningarlífi. Þá hefur komið í ljós, eins og fram kemur m.a. í könnunum sem kynntar eru í þessari skýrslu, að nýlegir, vel uppbyggðir fjallvegir geta í mörgum tilfellum tryggt góðar heilsárssamgöngur og þótt vetrarþjónusta sé þar sívaxandi er kostnaður viðráðanlegur. Tillögur um jarðgangaframkvæmdir sem hér eru kynntar miða við að áfram verði haldið á þeirri braut að byggja upp heilsársfjallvegi þar sem þess er kostur og fresta um sinn gerð jarðganga á þeim stöðum meðan enn er verið að byggja upp hið almenna vegakerfi landsins. Þannig er til dæmis lagt til að vegur milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði lagður í jarðgöngum þar sem mjög erfitt er talið að byggja upp veg og tryggja vetrarþjónustu á Hrafnseyrarheiði, en hins vegar er það talið gerlegt á Dynjandisheiði. Meginröksemd fyrir tillögu um jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar er sú að með því tengist Siglufjörður byggðum við Eyjafjörð þannig að Eyjafjarðarsvæðið í heild verður öflugra mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar þétta byggðina á Mið- Austurlandi og koma í stað hættulegs vegarkafla um Vattarnes sem að öðrum kosti þarf að byggja upp á næstu árum.

Fyrstu verkefni.
    Það er mat Vegagerðarinnar að sem fyrstu verkefni í jarðgangaáætlun skuli telja þrjár vegtengingar (í landfræðilegri röð):
         Arnarfjörður–Dýrafjörður
         Siglufjörður–Ólafsfjörður
         Reyðarfjörður–Fáskrúðsfjörður
    Þessum verkefnum er nánar lýst síðar í skýrslunni. Meginröksemdir fyrir þessu vali eru:
     *      Seinni tvö verkefnin stækka atvinnu- og þjónustusvæði mikilvægra byggðakjarna á landsbyggðinni, þ.e. Mið-Austurlands og Eyjafjarðarsvæðis.
     *      Þessi sömu verkefni komast næst því að sýna arðsemi með hefðbundnum reikniaðferðum þar sem um töluverða styttingu vegalengda er að ræða.
     *      Öll verkefnin stytta vegalengdir milli þéttbýlisstaða verulega.
     *      Í öllum tilfellum þarf innan fárra ára að fjárfesta í vegabótum sem nýtast lítið ef jarðgöng koma síðar.
     *      Jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar eru skilyrði fyrir heilsárssamgöngum innan landshlutans.
    Lagt er til að næsta skref verði að ljúka rannsóknum og öðrum undirbúningi fyrir göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar annars vegar og Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hins vegar. Áætlað er að sá þáttur taki um tvö ár og kosti samtals 300 millj. kr. Vegna samgönguleysis er óvissa um hvernig best er að standa að rannsóknum með jarðborum og öðrum tækjum í Héðinsfirði og gæti það haft áhrif á tíma- og kostnaðaráætlanir. Mat á umhverfisáhrifum hefur þar einnig áhrif. Ákvörðun um útboð þessara verkefna (röð þeirra eða hvort þau verða unnin samhliða) verði tekin þegar rannsóknir eru komnar á góðan rekspöl. Rannsóknum á göngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem miða að því að festa endanlega legu jarðganga, þarf einnig að halda áfram.
    Kostnaðaráætlun fyrir þessi þrjú verkefni er rúmir 9 milljarðar kr. Heildarverktími er áætlaður um átta ár miðað við að eitt verkefni taki við af öðru og ávallt unnið frá báðum gangaendum. Það þýðir að jafnaði ríflega 1.100 millj. kr. á ári ef miðað er við að öll göngin verði einbreið. Með tvíbreiðum göngum í öllum tilfellum yrði heildarkostnaður um 11 milljarðar kr. og árlegur kostnaður að meðaltali tæplega 1.400 millj. kr. Á þessu stigi er vissara að gera ráð fyrir að seinni tvenn göngin á listanum verði tvíbreið. Kostnaður við þau er þá áætlaður um 8,3 milljarðar kr. Miðað við að þriðju göngin verði einbreið yrði heildarkostnaður um 10,5 milljarðar kr.

Verkefni til síðari skoðunar.
    Eftirfarandi jarðgangaverkefni telur Vegagerðin að eigi að koma til skoðunar og ákvörðunar síðar (í landfræðilegri röð):
     1.      Staðarsveit–Kolgrafarfjörður.
     2.      Brattabrekka.
     3.      Klettsháls.
     4.      Dynjandisheiði.
     5.      Óshlíð.
     6.      Ísafjörður–Súðavík.
     7.      Eyrarfjall í Djúpi.
     8.      Tröllatunguheiði.
     9.      Öxnadalsheiði.
     10.      Vaðlaheiði.
     11.      Vopnafjörður–Hérað.
     12.      Seyðisfjörður–Hérað/Norðfjörður.
     13.      Norðfjörður–Eskifjörður.
     14.      Fáskrúðsfjörður–Stöðvarfjörður.
     15.      Stöðvarfjörður–Breiðdalsvík.
     16.      Skriðdalur–Berufjörður.
     17.      Undir Berufjörð.
     18.      Almannaskarð.
     19.      Reynisfjall í Mýrdal.
     20.      Vestmannaeyjar.
     21.      Hellisheiði.
    Ýmsar aðstæður í byggðaþróun, breytingar á samgöngumynstri og áherslum í gerð samgöngumannvirkja, ásamt framþróun vegakerfisins almennt, munu síðan færa einhver þessara verkefna upp í efri flokkinn þegar tímar líða. Innan nokkurra ára þarf að taka ákvörðun um hver þeirra fara á rannsóknarstig þar eð æskilegt er að hafa rúman undirbúningstíma fyrir verkefni af þessu tagi. Þó skal þess getið að verði farið eftir tillögum um þau þrjú verkefni sem hér eru sett í forgangsröð kemur ekki að næstu verkefnum fyrr en eftir tíu ár. Lagt er til að jarðgangaáætlun sé gerð til tíu ára hverju sinni og endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Við fyrstu endurskoðun yrði þá ákveðið hvaða verkefni úr þessum hópi kæmu næst til rannsóknar. Líklegt má telja að í þeim áfanga væru einhver verkefnanna nr. 5–7 af Vestfjörðum og nr. 11–15 af Austfjörðum.
    Í langtímaáætlun í vegagerð 1999–2010 eru fjárveitingar til uppbyggingar vega á nokkrum þeirra staða sem eru á framangreindum lista yfir jarðgöng til síðari skoðunar. Jarðgöng koma þar varla til álita fyrr en eftir 30 ár í fyrsta lagi. Þar má nefna Staðarsveit–Kolgrafarfjörð, Bröttubrekku, Klettsháls, Almannaskarð og e.t.v. fleiri.