Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 875  —  573. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Bryndís Hlöðversdóttir,


Guðmundur Árni Stefánsson, Einar Már Sigurðarson,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Ársælsson,
Jóhanna Sigurðardóttir.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Í Hæstarétti eiga sæti níu dómarar sem forseti Íslands skipar ótímabundið samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra að fengnu samþykki 2/ 3hluta atkvæða á Alþingi.
                  Er ráðherra hefur ákveðið hvern hann hyggst gera tillögu um sem hæstaréttardómara tilkynnir hann forseta Alþingis um það. Tillaga ráðherra skal hljóta meðferð í sérnefnd skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, áður en hún er borin undir atkvæði þingmanna . Nefndin skal fjalla um hæfni umsækjanda um embættið og skila skýrslu til þingsins með rökstuddri niðurstöðu um mat sitt innan fjögurra vikna . Jafnframt skal nefndin leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu.
                  Samþykki Alþingi tillögu ráðherra leggur hann hana fyrir forseta Íslands. Synji Alþingi staðfestingar á tillögu ráðherra gerir hann aðra tillögu og skal hún fá sömu meðferð.
     b.      4. mgr. fellur brott.

2. gr.

    2. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Forseti Íslands veitir dómara við Hæstarétt lausn frá embætti um stundarsakir samkvæmt tillögu forsætisráðherra, en dómsmálaráðherra veitir héraðsdómara slíka lausn. Áður en lausn er veitt um stundarsakir skal ráðherra afla skriflegrar umsagnar frá nefnd um dómarastörf.

3. gr.

    1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Þegar hæstaréttardómara hefur verið veitt lausn frá embætti um stundarsakir höfðar forsætisráðherra fyrir hönd ríkisins mál á hendur honum fyrir héraðsdómi Reykjavíkur með kröfu um að honum verði vikið úr embætti með dómi. Dómsmálaráðherra höfðar mál á hendur héraðsdómara. Um rekstur máls fer eftir almennum reglum um meðferð einkamála að öðru leyti en því að það sætir flýtimeðferð og skal dómur skipaður þremur héraðsdómurum.

4. gr.

    1. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Forseti Íslands veitir dómurum við Hæstarétt lausn frá embætti samkvæmt tillögu forsætisráðherra en dómsmálaráðherra héraðsdómurum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Íslensk stjórskipun byggir á þrígreiningu ríkisvalds, þ.e. löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldi. Hugmyndafræðin að baki því að skipta ríkisvaldinu upp með þessum hætti er sú að ekki safnist of mikið vald á fárra hendur. Af þeim sökum er hverjum valdþætti fyrir sig ætlað að hafa eftirlit með hinum og tryggja á þann hátt að farið sé að almennum leikreglum í samfélaginu.
    Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með einn þátt ríkisvaldsins — dómsvaldið. Samkvæmt hefðbundum skilningi felur dómsvald í sér heimild til að skera úr tilteknum réttarágreiningi og kveða á um hvað sé rétt og lögum samkvæmt í hverju tilviki.

              

    Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að í stað þess að hæstaréttardómari sé skipaður samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra tilnefni forsætisráðherra dómara að fengnu samþykki 2/ 3hluta atkvæða á Alþingi. Áfram er gert ráð fyrir að forseti Íslands skipi hæstaréttardómara. Þegar forsætisráðherra hefur ákveðið hvern hann hyggst tilnefna skal hann tilkynna forseta Alþingis um tilnefningu sína. Tillögu ráðherra skal vísa til meðferðar í sérnefnd skv. 32. gr. laga um þingsköp Alþingis sem kjósa skal til að fjalla um tilnefningu ráðherra. Nefndin skal fjalla um hæfni þess sem tillaga er gerð um og skila skýrslu með mati sínu innan fjögurra vikna frá því að hún fær tillöguna til umfjöllunar. Líkt og er nú skal umsagnar Hæstaréttar leitað um hæfi og hæfni umsækjanda til að gegna embættinu.
    Samþykki Alþingi tillögu ráðherra leggur hann hana fyrir forseta Íslands sem skipar viðkomandi í embætti hæstaréttardómara. Verði tillaga ráðherra hins vegar ekki samþykkt á Alþingi skal ráðherra gera aðra tillögu sem skal fá sömu meðferð og fyrr.
    Gert er ráð fyrir að sömu reglur gildi um lausn hæstaréttardómara frá embætti að öðru leyti en því að forsætisráðherra gerir tillögu til forseta Íslands um lausn í stað dómsmálaráðherra eins og nú er.