Ferill 595. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 897  —  595. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Lán sem áhættugjald skv. 4. gr. hefur verið greitt af, húsbréf útgefin af Íbúðalánasjóði, skuldbindingar sem Íbúðalánasjóður tók við frá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna við gildistöku laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, skuldbindingar vegna innstæðna á innlánsreikningum í innlánsstofnunum, skuldbindingar vegna útflutningsábyrgða með ríkisábyrgð, Seðlabanki Íslands og Lánasjóður íslenskra námsmanna eru undanþegin greiðslu ábyrgðargjalds skv. 6. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Árið 1997 voru sett ný lög um ríkisábyrgðir á grundvelli skýrslu nefndar sem fjármálaráðherra skipaði til að fjalla um meðferð og tilhögun ríkisábyrgða. Markmið lagabreytinganna var að draga úr ríkisábyrgðum og setja skýrar reglur um beitingu þeirra. Einnig skyldi jafna samkeppnisstöðu einkamarkaðarins gagnvart fjármálastofnunum og fjárfestingarlánasjóðum sem reknir eru á ábyrgð ríkisins með því að taka gjald af þeim fyrir ríkisábyrgðir.
    Fyrir ríkisábyrgðir er greitt með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða áhættugjald, en það er greitt í upphafi lánstíma af lántökum þeirra aðila sem njóta ríkisábyrgða á lánum. Gjaldið er breytilegt eftir áhættumati og nemur 0,25–4,00% af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingar fyrir hvert ár lánstímans. Hins vegar geta ábyrgðarþegar greitt ábyrgðargjald í stað áhættugjalds, en það er tiltekið hlutfall af útistandandi skuldbindingum ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem njóta ábyrgðar ríkisins. Gjald þetta er greitt ársfjórðungslega og nemur 0,0625% af höfuðstól erlendra skuldbindinga og 0,0375% af höfuðstól innlendra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili. Með lögunum frá 1997 var gjaldstofninn breikkaður þannig að hann nær bæði til innlendra og erlendra skuldbindinga en hafði áður einungis náð til erlendra skuldbindinga.

Prentað upp.
    Í lögunum er tiltekið að skuldbindingar vegna innstæðna á innlánsreikningum innlánsstofnana, skuldbindingar vegna útflutningsábyrgða með ríkisábyrgð, Seðlabanki Íslands og húsbréf útgefin af Íbúðalánasjóði séu undanþegin greiðslu gjaldsins. Undanþága húsbréfa byggist á því að húsbréfadeild tekur 0,35% vaxtaálag af fasteignaveðbréfum sem standa á móti skuldbindingum vegna húsbréfa. Aðrar skuldbindingar Íbúðalánasjóðs eru hins vegar ekki undanþegnar gjaldskyldu þar sem ekki er lagt fé í varasjóð til að mæta útlánatöpum vegna lánveitinga á grundvelli þeirra.
    Með lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, tók Íbúðalánasjóður yfir skuldbindingar Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna jafnframt því sem lánveitingum úr þeim var hætt. Þrátt fyrir að útlánum þeirra hafi verið hætt hvíla enn verulegar skuldbindingar á sjóðunum sem Íbúðalánasjóður hefur tekið yfir. Ljóst er að þar til útistandandi lán hafa verið innheimt mun þurfa að endurfjármagna lántökur þeirra til að mæta misvægi í greiðslustreymi innlána og útlána. Að óbreyttum lögum mun þurfa að greiða ábyrgðargjald af þeim lántökum. Þar sem um er að ræða endurfjármögnun vegna eldri lána er ekki hægt að krefjast ábyrgðargjalds af þeim sem lánað var til á sínum tíma heldur yrði að mæta því með sérstöku framlagi úr ríkissjóði. Því er í frumvarpinu lagt til að skuldbindingar þessar verði undanþegnar ábyrgðargjaldi.
    Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að skuldbindingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði undanþegnar ábyrgðargjaldi. Sjóðurinn starfar á félagslegum grunni og er fjármagnaður með lántökum á markaðsvöxtum. Mismuni á þeim og útlánsvöxtum sjóðsins er hins vegar mætt með framlagi úr ríkissjóði. Verði sjóðurinn áfram látinn greiða ábyrgðargjald verður að mæta kostnaði við gjaldið með samsvarandi framlögum úr ríkissjóði að því gefnu að ekki eigi að breyta útlánakjörum til námsmanna og innheimta gjaldið hjá þeim.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að Íbúðalánasjóður og Lánasjóður íslenskra námsmanna greiði ekki ríkisábyrgðargjald vegna lántöku sinnar.
    Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2000 er ekki gert ráð fyrir að sjóðirnir greiði ríkisábyrgðargjald. Komi til greiðslu gjaldsins má gera ráð fyrir að rekstrarafkoma Íbúðalánasjóðs versni um sem nemur 151 m.kr. og Lánasjóðs íslenskra námsmanna um sem nemur 28 m.kr., samtals 179 m.kr.
    Til að mæta útgjöldum Íbúðalánasjóðs er áætlað að hækka þyrfti vexti Byggingarsjóðs ríkisins úr 4,9% í 5,1% og vexti í Byggingarsjóði verkamanna um því sem næst fjórðung. Hækkun vaxta hefði áhrif á útgreiðslu vaxtabóta úr ríkissjóði en ekki liggur fyrir hver hún yrði. Til að mæta útgjöldum Lánasjóðs íslenskra námsmanna þyrfti ríkissjóður að leggja sjóðnum til 28 m.kr. miðað við að raungildi eigin fjár sjóðsins haldist óbreytt.
    Verði frumvarpið að lögum þarf ekki að hækka útlánsvexti eða framlög úr ríkissjóði.