Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 924  —  475. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um launaþróun í heilbrigðisþjónustu.

    Fyrirspurn þessi um launaþróun í heilbrigðisþjónustu er umfangsmeiri en svo að unnt sé að svara henni á einfaldan hátt innan tilskilins frests. Kemur þar tvennt til, annars vegar að launavinnsla Sjúkrahúss Reykjavíkur og sjúkrahúsa utan Reykjavíkur auk meginhluta heilsugæslunnar fer fram í launakerfum utan launaafgreiðslu Ríkisbókhalds og hins vegar að röðun starfa samkvæmt kjarasamningum við flest stéttarfélög opinberra starfsmanna er ekki lengur miðlæg og því ekki hægt að fá upplýsingar um röðun einstakra starfsheita úr launakerfunum eins og áður var. Þar við bætist að algengast er nú að launaþrep ráðist af ævialdri en ekki starfs- eða prófaldri og því er minna um sambærileg þrep, sbr. 3. lið fyrirspurnarinnar. Kjarasamningar sem gerðir voru á tímabilinu gjörbreyttu einnig uppbyggingu launataflna allra hópanna, nema sjúkraliða, og því hvernig laun starfsmanna eru ákveðin. Af þeim sökum er samanburður á þeim forsendum sem fyrirspurnin byggist á illframkvæmanlegur.
    Svörin miðast við laun á ríkisspítölum fyrir sameiningu stóru sjúkrahúsanna og eru fengin úr launavinnslukerfi ríkisins hjá Ríkisbókhaldi.

     1.      Hver voru að meðaltali í janúar 1997 og janúar 2000 mánaðarlaun (þ.e. föst laun og grunnlaun ef þau eru önnur):
                  a.      sjúkrahúslækna,
                  b.      almennra hjúkrunarfræðinga, að frátöldum aðstoðardeildarhjúkrunarfræðingum og hærra launuðum hjúkrunarfræðingum,
                  c.      hjúkrunarfræðinga,
                  d.      sjúkraliða,
                  e.      aðstoðarfólks á Ríkisspítölunum?


Janúar 1997 Janúar 2000
a.1.
Allir sérfræðingar 1–3
314.193 465.872
a.2.
Sérfræðingar 1–3, án fastlaunasamnings
337.656
b.
Almennir hjúkrunarfræðingar
160.647
c.
Hjúkrunarfræðingar
169.158 265.820
d.
Sjúkraliðar
128.393 165.889
e.
Gæslumenn
118.961 134.319

Athugasemdir.
    Ekki er alveg ljóst hvað átt er við með föstum launum, enda þyrfti sérstaka vinnslu til að aðskilja þau frá öðrum launum. Því var hér reiknað meðaltal heildarlauna á stöðugildi hjá viðkomandi hópum, eftir því sem unnt var. Ekki var unnt að taka tillit til breytinga á vinnumagni á tímabilinu og getur það haft áhrif á útkomuna.
     Sjúkrahúslæknar. Svarið í lið a.1. gildir um alla sérfræðinga 1–3 samkvæmt kjarasamningi við Læknafélag Íslands. Þar með teljast einnig, í janúar 2000, sérfræðingar á fastlaunasamningum, en þeim hefur fjölgað mikið eftir gerð kjarasamnings Læknafélagsins 1. nóvember 1997 og eru þeir nú 37% sérfræðinga. Í fastlaunasamningi felst að læknir hættir rekstri stofu utan sjúkrahúss en helgar sig störfum á sjúkrahúsinu og sinnir þar þeim ferliverkum sem hann sinnti áður á stofunni. Hér skiptir máli að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir ferliverk lækna ganga nú til sjúkrahússins sem greiðir lækninum umsamið hlutfall en áður greiddi Tryggingastofnun ríkisins læknunum beint og kom það því ekki fram í launum þeirra í janúar 1997. Í lið a.2. sjást einnig meðalheildarlaun sérfræðinga sem ekki eru á fastlaunasamningi.
     Hjúkrunarfræðingar. Sundurliðun hjúkrunarfræðinga eftir starfsheitum er ekki lengur fyrir hendi í launakerfinu og er því ekki unnt að svara b-lið hvað varðar laun í janúar 2000. Í útreikningi launa í janúar 1997 er stoðhjúkrunarfræðingum sleppt.
     Aðstoðarfólk á ríkisspítölum. Ekki er ljóst við hvaða starfsmenn er átt. Til voru eftirtalin starfsheiti aðstoðarmanna í heilbrigðishópi SFR í janúar 1997: aðstoðarmaður tannlæknis, við iðjuþjálfun, við sjúkraþjálfun og á röntgendeild, en ekki er talið að hér sé átt við þá. Í g- og h-lið 2. liðar er spurt um aðstoðarfólk við aðhlynningu á Ríkisspítölum. Undir þetta hugtak geta fallið störf gæslumanna við geðhjúkrun eða Sóknarstarfsmanna við aðhlynningu og koma laun þeirra fyrrnefndu í janúar 1997 fram í töflunni. Hins vegar er ekki hægt að greina þá út úr launakerfinu í janúar 2000, sbr. framanritað, og eru í staðinn reiknuð meðallaun í A- ramma launatöflu SFR.

     2.      Hver voru í janúar 1997 og janúar 2000:
                  a.      byrjunarlaun sjúkrahúslækna í lægsta virka launaflokki/þrepi,
                  b.      mánaðarlaun sjúkrahúslækna í efsta þrepi að meðaltali,
                  c.      byrjunarlaun almennra hjúkrunarfræðinga í lægsta virka launaflokki/þrepi,
                  d.      mánaðarlaun almennra hjúkrunarfræðinga í efsta þrepi, með og án námskeiðshækkana,
                  e.      byrjunarlaun sjúkraliða í lægsta virka þrepi,
                  f.      mánaðarlaun sjúkraliða í efsta þrepi, með og án námskeiðshækkana,
                  g.      byrjunarlaun aðstoðarfólks við aðhlynningu á Ríkisspítölunum í lægsta virka launaflokki/þrepi,
                  h.      mánaðarlaun aðstoðarfólks við aðhlynningu á Ríkisspítölunum í efsta þrepi, með og án námskeiðshækkana?

Janúar 1997 Janúar 2000
a.
Sérfræðingur 1
150.848 230.034
b.
Sérfræðingur 1
191.180 291.067
c.
Almennir hjúkrunarfræðingar
82.154
d.
Almennir hjúkrunarfræðingar
105.020
Almennir hjúkrunarfræðingar með viðbótarnám
114.759
e.
Sjúkraliðar
65.973 87.248
f.
Sjúkraliðar
80.776 97.576
Sjúkraliðar með viðbótarnám
89.988 116.511
g.
Gæslumenn
58.001
h.
Gæslumenn
67.361
Gæslumenn með viðbótarnám
74.107
Athugasemdir.
    Í a-lið gildir svarið um sérfræðinga eins og í a-lið 1. liðar.
    Í b-lið er spurt um mánaðarlaun að meðaltali. Ekki er ljóst við hvað er átt. Svarið miðast við hæsta launaþrep sérfræðings 1.
    Í b-, d-, f- og h-liðum er spurt um mánaðarlaun í efsta þrepi en láðst hefur að taka fram nánari skilgreiningu eða við hvaða launaflokka er átt. Þar sem í samsvarandi liðum er fjallað um byrjunarlaun tiltekinna hópa er sá kostur valinn hér að miða svarið við laun sama hóps í efsta þrepi, án þess að til stöðubreytinga komi. Dæmi: Starfsheiti sjúkraliða ná nú frá sjúkraliða 1 til sjúkraliða 6. Svarið fjallar eingöngu um sjúkraliða 2 sem er lægsta starfsheiti félagsins í notkun í janúar 2000.
    Um aðstoðarfólk á ríkisspítölum, sjá athugasemdir við 1. lið.
    Af ástæðum sem greint var frá í athugasemdum við 1. lið er ekki unnt í öllum tilfellum að gefa svör um laun í janúar 2000.

     3.      Hver er hlutfallslegur launamunur sambærilegra þrepa á umsömdum mánaðarlaunum milli framangreindra hópa í janúar 1997 og janúar 2000?

Janúar 1997
Sjúkraliðar, byrjunarlaun
100%
Gæslumenn, byrjunarlaun
88% af launum sjúkraliða
Sjúkraliðar, efsta þrep
100%
Gæslumenn, efsta þrep
83% af launum sjúkraliða
Sjúkraliðar með viðbótarnám
, efsta þrep
100%
Gæslumenn með viðbótarnám
, efsta þrep
82% af launum sjúkraliða

Athugasemdir.
    Um sambærileg þrep milli þessara hópa er ekki að ræða nema milli sjúkraliða og gæslumanna 1997. Þrep sérfræðinga miðast við árafjölda eftir útskrift úr háskóla og eðli málsins samkvæmt ráðast þeir ekki sem sérfræðingar fyrr en að loknu sérfræðingsnámi, mörgum árum eftir læknapróf. Þrep hjúkrunarfræðinga í janúar 1997 miðuðust sömuleiðis við prófaldur, þ.e. útskrift úr háskólanámi að viðbættum fjórum námsárum, en í janúar 2000 við ævialdur. Þrep sjúkraliða og gæslumanna miðuðust við sama ævialdur 1997 en vegna breytinga á kjarasamningi SFR sem gæslumenn tilheyra er ekki miðað við sama ævialdur hjá þeim í janúar 2000 og hjá sjúkraliðum í sama mánuði og þrep þessara stétta því ekki samanburðarhæf það ár.