Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 932  —  329. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um framkvæmd samnings um líffræðilega fjölbreytni.

     1.      Hvernig hefur af Íslands hálfu verið staðið að framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni frá því að samningurinn tók gildi hér á landi, 11. desember 1994?
    Við gildistöku samningsins um líffræðilega fjölbreytni hér á landi var samningurinn vistaður hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem var um leið falið að sjá um undirbúning og þátttöku í þingum aðildarríkja samningsins og fundum vísindanefndar, auk þess að annast framkvæmdina hér innan lands. Í samræmi við það tók stofnunin þátt í fyrstu þremur þingum aðildarríkja samningsins og sá jafnframt um að undirbúa þátttöku í þeim í samráði við umhverfisráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið. Stofnunin sá auk þess um málefni vísinda- og tækninefndar samningsins og vinnslu fyrstu tillagna um undirbúning að framkvæmd samningsins hér á landi.
    Fljótlega kom þó í ljós að til þess að ná yfir öll áherslusvið samningsins í framkvæmd og í umfjöllun á aðildarríkjaþingum væri nauðsynlegt, vegna eðlis hans og þess hversu víðtækt gildissvið hans er, að fleiri ráðuneyti en umhverfisráðuneytið og stofnanir þess kæmu að honum. Því var tekin ákvörðun um það í byrjun árs 1998 að færa umsjón með samningnum frá Náttúrufræðistofnun til umhverfisráðuneytisins og var á sama tíma ákveðið að setja á laggirnar samráðsnefnd um samninginn með aðild utanríkisráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis, auk umhverfisráðuneytis og Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Við gerð frumvarpa til laga undanfarin missiri hefur ráðuneytið tekið mið af ákvæðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni og unnið markvisst að því að styrkja grundvöll fyrir framkvæmd hans hér á landi. Má þar m.a. nefna ný náttúruverndarlög sem tóku gildi 1. júlí sl. en þar er að finna ákvæði um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera, sbr. 41. gr. laganna, sem miðar að því að vernda líffræðilega fjölbreytni gegn óæskilegum áhrifum af framandi tegundum plantna og dýra í samræmi við h-lið 8. gr. samningsins. Á næstunni verður sett reglugerð um innflutning og ræktun útlendra plöntutegunda og skipuð nefnd sérfræðinga til að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um þessi mál í samræmi við ákvæði 41. gr. náttúruverndarlaga. Þá má nefna 37. gr. laganna þar sem taldar eru upp landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar, svo sem tjarnir, stöðuvötn, mýrar, flóar, sjávarfitjar og leirur, og er það m.a. í samræmi við d-lið 8. gr. samningsins sem fjallar um vernd vistkerfa og náttúrulegra búsvæða og viðhald lífvænlegra tegundastofna í náttúrulegu umhverfi. Breyting var einnig gerð á friðlýsingarákvæðum náttúruverndarlaga í þeim tilgangi að stuðla að verndun og friðun lífvera, búsvæða og vistkerfa, sbr. 50. gr. laganna. Auk þess er mikilvægt að nefna ákvæði 65. gr. um gerð náttúruverndaráætlunar sem lögð skal fyrir Alþingi á fimm ára fresti, fyrst árið 2002, en slík áætlun er í fullu samræmi við b-lið 6. gr. samningsins þar sem kveðið er á um að áætlanir og stefnumál hinna ýmsu geira þjóðfélagsins skuli samþætt vernd og sjálfbærri notkun líffræðilegrar fjölbreytni. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga áform um samræmingu slíkra áætlana í tengslum við vinnu að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem hófst á síðasta ári á vegum iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Auk framantalinna atriða í náttúruverndarlögunum er vert að minnast á ákvæði um nýtingu jurta í atvinnuskyni og heimildir til þess að setja ákvæði um hana, m.a. um upplýsingagjöf um tegundir og magn þess sem nýtt er.
    Jafnframt var með 34. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, sem heyra undir iðnaðarráðuneytið, sett ákvæði til þess að fullnægja til bráðabirgða ákvæðum samningsins, sbr. 15.–19. gr. hans, sem fjalla um aðgang að erfðaauðlindum, aðgang að tækni og miðlun hennar, upplýsingaskipti og meðferð líftækni og dreifingu hagnaðar af henni. Á vegum umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis er hafin vinna við að endurskoða ákvæðið, sem leiðir væntanlega til sjálfstæðrar löggjafar um erfðaauðlindir, aðgang að þeim og skiptingu hagnaðar af nýtingu þeirra.
    Fyrir utan nauðsynlega lagasetningu til þess að styrkja ákvæði samningsins í íslenskri löggjöf og framkvæmd hans hér á landi hafa stofnanir ráðuneytisins, sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands, haft ákvæði samningsins að leiðarljósi við mótun stefnu og gerð starfsáætlana á undanförnum árum. Skuldbindingar sem felast í samningnum speglast að mörgu leyti í verkefnavali stofnunarinnar og mótun verkefna. Sum þessara verkefna eru fjölþjóðleg og svæðisbundin en önnur eru lögboðin og reglubundin verkefni stofnana sem aðlöguð hafa verið breyttum áherslum og ákvæðum samningsins. Hér má nefna verkefni eins og CPAN- verkefnið sem er eitt af verkefnum innan CAFF-Norðurskautssamstarfsins og miðar að því að meta kerfisbundið fyrirliggjandi upplýsingar um lífríki friðaðra svæða og meta þörf á friðun nýrra svæða til þess að tryggja næga vernd allra þátta flóru og fánu viðkomandi landa.

     2.      Hvaða áætlanir hafa íslensk stjórnvöld um viðbrögð, vinnu og rannsóknir hérlendis í samræmi við einstök ákvæði samningsins?
    Í umhverfisráðuneytinu hefur undanfarið verið farið ítarlega yfir samninginn til þess að skoða hvaða ákvæði kalla á sérstakar aðgerðir af hálfu stjórnvalda og til að leggja grunn að vinnslu framkvæmdaáætlunar fyrir samninginn þar sem sett verða markmið og gerðar tillögur um framkvæmd hans. Jafnframt því þarf að gera áætlun um vöktun og mat á árangri aðgerða til þess að hægt verði að endurmeta markmið og leiðir og framkvæmd samningsins í heild með tilliti til ákvæða hans.
    Þessar áætlanir byggjast hins vegar á þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni og þeim ferlum og ákvörðunum um aðgerðir sem kunna að hafa áhrif á hana hér á landi. Vitneskja um stöðuna er því miður ekki nægilega góð. Því er mikilvægt að efla starf stofnana á þessu sviði þannig að þeim verði betur kleift að afla ítarlegra upplýsinga um ástand náttúru landsins, líffræðilega fjölbreytni og ógnir sem að henni steðja, verndun hennar og nýtingu.
    Helstu almennu skuldbindingarnar um framkvæmd samningsins er að finna í 6.–10. og 14. gr. hans, en auk þess eru ýmis sértækari ákvæði í öðrum greinum. Ráðuneytið hefur undirbúið gerð framkvæmdaáætlunar fyrir samninginn og mun á næstunni hefja nánari útfærslu hennar í samvinnu við samráðsnefndina.

     3.      Hvernig hefur verið háttað starfi samstarfsnefndar um líffræðilegan fjölbreytileika sem skipuð var 18. febrúar 1998, hversu oft hefur hún komið saman og hvað hefur hún lagt til við umhverfisráðuneyti og/eða ríkisstjórn?
    Samráðsnefnd um samninginn, sem skipuð var í febrúar 1998, hefur fjórþætt hlutverk en henni var falið:
–    að gera tillögur til ráðuneytisins um þátttöku í þróun samningsins og áherslur íslenskra stjórnvalda í því sambandi,
–    að fylgjast með umræðum og tillögugerð innan ramma samningsins og gera tillögur um afstöðu íslenskra stjórnvalda til þeirra,
–    að gera tillögur um nauðsynlega þátttöku í alþjóðlegu starfi sem tengist samningnum og
–    að fara yfir ákvarðanir sem eru teknar innan ramma samningsins og gera tillögur um framfylgd þeirra hér á landi.
    Nefndin hefur haldið sex fundi og fjallað um samninginn og farið yfir tillögur og þingskjöl sem til umfjöllunar voru á síðasta aðildarríkjaþingi. Nefndin mótaði afstöðu til þeirra tillagna sem varða framkvæmd samningsins og helstu hagsmuni Íslands. Jafnframt fjallaði nefndin um þátttöku í aðildarríkjaþinginu og þeir nefndarmenn sem sóttu þingið tóku virkan þátt í mótun samþykkta þess. Á þinginu var sérstaklega fjallað um sjávarútvegsmál og tók sendinefndin virkan þátt í því.

     4.      Hvað veldur því að Ísland, eitt fárra Evrópulanda, hefur ekki skilað skýrslu (National Report) til skrifstofu samningsaðila þrátt fyrir eindaga í janúar 1998?
    Ástæðan fyrir því að dregist hefur að skila til skrifstofu samningsins skýrslu Íslands um líffræðilega fjölbreytni hér á landi er fyrst og fremst upplýsingaskortur og skortur á fé til þess að ljúka vinnslu skýrslunnar.
    Ráðuneytið fól Náttúrufræðistofnun Íslands síðla árs 1997 að vinna skýrsluna. Hóf stofnunin verkið og kynnti ráðuneytinu drög að skýrslunni árið 1998. Stofnunin tilkynnti ráðuneytinu jafnframt að hún hefði ekki fé til þess að vinna skýrsluna frekar. Ráðuneytið fékk síðan árið 1999 send drög að skýrslunni og hefur verið farið yfir þau í ráðuneytinu með tilliti til þess hvernig vinnu við hana verður fram haldið og hvaða gagna þurfi að afla til viðbótar vegna nauðsynlegrar stefnumörkunar um framkvæmd samningsins. Ráðgert er að hraða þessari vinnu og er stefnt að því að ljúka gerð skýrslunnar og senda hana til skrifstofu samningsins á næstu mánuðum.

     5.      Hvernig var háttað þátttöku Íslands í undirbúningi og afgreiðslu bókunar um verslun með erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra (Biosafety Protocol) sem samkomulag tókst um með 132 aðildarríkjum samningsins 29. janúar árið 2000?
    Á öðru þingi aðildarríkja samningsins í Jakarta í nóvember 1995 var ákveðið að hefjast handa við gerð bókunar við samninginn sem fjalla skyldi um öruggan flutning, meðhöndlun og notkun lifandi erfðabreyttra lífvera í samræmi við ákvæði 3. mgr. 19. gr. samningsins og niðurstöðu undirbúningsnefndar sem var á fyrsta þingi aðildarríkja samningsins falið að gera tillögur að framkvæmd ákvæðisins. Sett var á laggirnar sérstök vinnunefnd sem skyldi undirbúa og gera drög að bókun um lífvernd (Protocol on Biosafety). Á fyrsta fundi nefndarinnar, sem haldinn var í Árósum sumarið 1996, var Daninn Veit Koester valinn til þess að hafa forustu í starfi nefndarinnar. Fyrir fundinn fjallaði umhverfisráðuneytið um fundarefni og þátttöku í honum. Var ákveðið að fara þess á leit að Hollustuvernd ríkisins tæki þátt í fundinum en af því gat ekki orðið vegna annarra starfa starfsmanna stofnunarinnar. Ekki varð heldur af þátttöku í vinnuferlinu né í fundum á síðari stigum en umhverfisráðuneytið fylgdist með störfum nefndarinnar og fór reglulega yfir þær tillögur sem hún vann að. Einnig var fylgst með málinu og framgangi þess með beinum viðræðum við formann nefndarinnar á aðildarríkjaþingum.
    Sérstaklega var fjallað um þátttöku í aukaaðildarríkjaþingi sem hófst í Cartagena í Kólumbíu í febrúar 1999. Þar var ætlunin ar að ná samkomulagi um efni og texta bókunarinnar en vegna kostnaðar var fallið frá þátttöku. Ekki tókst að ná samkomulagi um bókunina og var þinginu frestað til þess að skapa svigrúm til óformlegra samningaumleitana og freista þess að ná samkomulagi milli þeirra fimm fylkinga sem komu fram á samningafundum. Ráðuneytið sá sér ekki fært vegna kostnaðar að taka þátt í óformlegu viðræðunum sem fram fóru á síðasta ári, þ.e. fundum sem haldnir voru í Montreal í Kanada í lok júní 1999 og í Vín í Austurríki í september, né heldur í seinni hluta aukaaðildarríkjaþings sem fram var haldið í Montreal í Kanada í lok janúar á þessu ári, en þar náðist samkomulag og niðurstaða um texta bókunarinnar.

     6.      Hvernig verður hagað þátttöku Íslands í næsta fundi vísinda- og tækninefndar samningsins og undirbúningi og þátttöku í 5. fundi samningsaðila (COP-5) í Nairobi í maí árið 2000?
    Ísland hefur tekið þátt í fundum samningsins, bæði fundum vísinda- og tækninefndar og aðildarríkjafundum, eftir því sem efni hafa staðið til og fjármunir leyft. Vísinda- og tækninefnd samningsins hélt fund síðast í Montreal í Kanada í lok janúar og byrjun febrúar sl. og sótti fundinn fulltrúi frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Næsta fund nefndarinnar er ráðgert að halda í febrúar eða mars árið 2001 og þar næsta fund í september sama ár. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um þátttöku í þeim. Tekin verður afstaða til þátttöku í næsta fundi nefndarinnar er nær dregur fundinum og skjöl sem leggja á fyrir fundinn verða aðgengileg, annaðhvort á heimasíðu samningsins eða þegar gögnin berast ráðuneytinu og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Undirbúningur að þátttöku Íslands í fimmta aðildarríkjaþinginu, sem haldið verður í Nairobi í Kenýa 15.–29. maí, er hafinn. Mun samráðsnefndin sjá um undirbúning, fara yfir fundargögn, gera tillögur um afstöðu Íslands til þeirra málefna sem fjallað verður um og gera tillögur um þátttöku í fundinum eftir því hvaða málefni verða þar til umfjöllunar. Síðasta þing aðildarríkja, sem haldið var í Bratislava í maí 1998, sóttu fjórir fulltrúar fyrir hönd Íslands og komu þeir frá umhverfisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, Náttúrufræðistofnun Íslands og utanríkisráðuneyti.

     7.      Hversu miklu hefur árlega verið kostað til af Íslands hálfu vegna aðildar að samningnum árin 1995–99, sundurliðað eftir félagsgjöldum, kostnaði við þátttöku í fundum erlendis og eftir aðgerðum og verkefnum hér innan lands sem miða að því að hrinda í framkvæmd einstökum samningsákvæðum?
    Heildarkostnaður af aðild Íslands að samningnum á árunum 1995–99 nemur ríflega 8 millj. kr. vegna aðildargjalda, ferðakostnaðar og vinnuframlags Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. meðfylgjandi töflu. Kostnað við framkvæmd samningsins hér á landi er erfitt að meta en stofnanir ráðuneytisins, sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands, hafa eftir því sem við á miðað starfsáætlanir sínar og rannsóknarvinnu við ákvæði samningsins og nær útilokað er að gera grein fyrir þeim kostnaði. Árlegur kostnaður vegna samningsins hefur numið frá 670.000 kr. árið 1997 upp í tæpar 2,3 millj. kr. árið 1996.
    Aðildargjöld samningsins eru breytileg milli ára og fara þau eftir samþykktum aðildarríkja á fjárlagaramma fyrir skrifstofu samningsins og framkvæmd hans, en Ísland greiðir 0,032% af heildarkostnaði við samninginn í samræmi við reglur Sameinuðu þjóðanna um kostnaðarskiptingu.

Kostnaður af aðild að samningnum um líffræðilega fjölbreytni.
1995 1996 1997 1998 1999 Samtals
Aðildargjöld, Bandaríkjadalir
3.000 2.846 2.114 1.915 2.409 12.284
Aðildargjöld, íslenskar krónur
195.110 190.294 149.978 139.697 175.621 850.700
Ferðakostnaður:
Umhverfisráðuneyti
238.231 238.231
Náttúrufræðistofnun Íslands
739.201 1.476.239 421.667 642.671 514.348 3.794.126
Framkvæmdir:
Vinna Náttúrufræðistofnunar
1.200.000 600.000 100.000 100.000 1.200.000 3.200.000
Samtals
2.134.311 2.266.533 671.645 1.120.599 1.889.969 8.083.057

    Náttúrufræðistofnun Íslands gerði ráðuneytinu grein fyrir þeim kostnaði sem stofnunin telur hafa hlotist af vinnu starfsmanna í tengslum við samninginn. Er þar fyrst og fremst um að ræða undirbúning og frágang vegna aðildarríkjaþinga og funda vísinda- og tækninefndar samningsins en einnig norrænna samráðsfunda. Samkvæmt þessari samantekt er heildarkostnaður ráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands ríflega 8 millj. kr. á þessum árum. Þess ber þó að gæta að ekki er hér tekinn með kostnaður sem fallið hefur á sjávarútvegsráðuneyti og utanríkisráðuneyti vegna þátttöku í aðildarríkjaþingum og fundum vísindanefndar samningsins og ekki metin til fjár sú vinna sem fram hefur farið á vegum umhverfisráðuneytisins og samstarfsnefndarinnar.

     8.      Hversu miklu fé verður varið í vinnu í samræmi við ákvæði samningsins um líffræðilega fjölbreytni hérlendis á þessu ári, sundurliðað eftir aðgerðum?
    Í fjárlögum þessa árs er ekki gert ráð fyrir fé til framkvæmdar samningsins en í ferðaáætlun ráðuneytisins er ráðgert að kostnaður við þátttöku í þingi aðildarríkja verði um 350.000 kr. við að senda einn fulltrúa á þingið. Komi til þess að önnur ráðuneyti eða stofnanir taki þátt í þingi aðildarríkja mun kostnaður við þátttöku þeirra greiðast af viðkomandi ráðuneytum og stofnunum. Auk þess munu tveir starfsmenn ráðuneytisins vinna á þessu ári við skýrslu um framkvæmd samningsins og undirbúning framkvæmdaáætlunar hér á landi.