Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1024  —  619. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



1. gr.

    Í stað orðanna „30 rúmlestir“ í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 75 brúttótonn.


2. gr.

    Í stað orðanna „30 rúmlestir“ í 1. málsl. 8. gr. laganna kemur: 75 brúttótonn.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Inngangsmálsliður 1. mgr. orðast svo: Siglingastofnun Íslands er heimilt.
     b.      Í stað orðsins „nefndin“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: stofnunin.
     c.      2. mgr. fellur brott.

4. gr.

    20. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    21. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Ef skortur er á mönnum með nægileg réttindi til skipstjórnar er Siglingastofnun Íslands heimilt að veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laga þessara, undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða tiltekinni gerð skipa um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en 6 mánuði í senn og skal viðkomandi útgerðarmaður eða skipstjóri sækja um undanþáguna.
    Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð gjald fyrir veittar undanþágur sem viðkomandi undanþáguhafi greiðir og renna skal í sérstakan sjóð sem hafi það að markmiði að veita lán og/eða styrki til þeirra undanþáguhafa sem fara í nám til öflunar starfsréttinda. Nemendur stýrimannaskóla, sem starfa á undanþágu milli námsára, eiga rétt á endurgreiðslu gjaldsins, haldi þeir áfram námi á næsta námsári, gegn framvísun á vottorði frá viðkomandi skóla þar um. Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem lokið hafa fyllsta skólanámi til viðkomandi starfs.
    Ákvarðanir samkvæmt lögum þessum um mönnun skipa og undanþágur má kæra til úrskurðarnefndar siglingamála.
    Í úrskurðarnefnd sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varamaður hans skulu fullnægja almennum skilyrðum um hæfi dómara. Aðrir nefndarmenn og varamenn þeirra skulu hafa þekkingu á skipstjórn og vélstjórn. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
    Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan þriggja vikna frá því kæra berst og er hann endanlegur á stjórnsýslustigi. Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð og málskotsgjald getur ráðherra mælt fyrir í reglugerð.

6. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Um undanþágur.

7. gr.

    Í stað orðanna „nefndar um undanþágur“ í B-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: Siglingastofnunar Íslands.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2000.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112 /1984, með síðari breytingum. Markmiðið með breytingunum er fyrst og fremst að gæta samræmis við afgreiðslu nefndarinnar á 189. máli, áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta.
    Lagt er til að við upptöku brúttótonna í viðmiðun atvinnuréttinda verði miðað við 75 brúttótonn bæði hvað varðar fiskiskip og önnur skip. Þá er lagt til að undanþágunefnd og mönnunarnefnd fiskiskipa verði lagðar niður og verkefni þeirra fengin Siglingastofnun Íslands. Loks er lagt til að sett verði á fót úrskurðarnefnd siglingamála sem hægt verði að skjóta til ákvörðunum Siglingastofnunar samkvæmt lögunum.
    Nefndin telur mikilvægt að sett verði heildarlöggjöf um áhafnir allra íslenskra skipa. Verði réttindi til vélstjórnar skoðuð sérstaklega með hliðsjón af nýrri tækni í vélarrúmum skipa og því að hvaða leyti það geti haft áhrif á mönnun skipa og lengd náms vélstjóra. Mælist nefndin til að heildarendurskoðun á lögunum verði hraðað og að lagt verði fram frumvarp í upphafi næsta þings á grundvelli hennar.