Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1121  —  474. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um komu útlendinga til Íslands.

     1.      Hve margir útlendingar hafa gefið sig fram árlega við Útlendingaeftirlitið og sótt um hæli af pólitískum ástæðum eða af mannúðarástæðum síðustu fimm ár? Hvaða afgreiðslu hafa mál þeirra fengið? Svar óskast sundurliðað eftir árum og heimalöndum viðkomandi.
    Á síðustu fimm árum hefur fjöldi hælisleitenda verið sem hér segir:
    Árið 1995 sóttu fjórir útlendingar um hæli hér á landi og var öllum veitt dvalarleyfi. Þrír voru frá Rúmeníu og einn frá Tyrklandi.
    Árið 1996 sóttu fjórir um hæli hér. Einn var frá Írak (Kúrdi) og fékk hann dvalarleyfi, einn Gambíumaður var endursendur til Noregs og tveir Alsírbúar voru sendir aftur til Danmerkur en þeir komu þaðan.
    Árið 1997 sóttu sex um hæli hér. Fimm fengu dvalarleyfi, fjórir Kosovo-Albanir frá Júgóslavíu og einn Líbani. Einn var endursendur til Danmerkur og var sá frá Marokkó.
    Árið 1998 sóttu 24 um hæli. Ætlað ríkisfang þeirra var sem hér segir:

Ætlað ríkisfang Fjöldi
Júgóslavía
10
Úkraína
3
Albanía
2
Túnis
1
Hvíta-Rússland
1
Líbía
1
Rússland
1
Makedónía
1
Kamerún
1
Víetnam
1
Alsír
1
Írak
1

    Af þessum 24 fengu 14 dvalarleyfi. Fjórir þeirra voru frá Júgóslavíu, þrír frá Úkraínu, tveir frá Albaníu og einn frá hverju þessara ríkja: Makedóníu, Túnis, Hvíta-Rússlandi, Írak og Rússlandi.
    Sex voru endursendir til nágrannaríkja, fjórir frá Júgóslavíu, einn frá Alsír og einn frá Líbíu. Voru þeir sendir til Danmerkur, Noregs, Þýskalands og Írlands.
    Tveir hurfu á brott áður en kom til afgreiðslu, báðir Júgóslavar.
    Tveir fengu endanlega synjun sem þó hefur enn ekki komið til framkvæmda. Þeir eru frá Víetnam og Kamerún.
    Árið 1999 sóttu 25 um hæli. Ætlað ríkisfang þeirra var sem hér segir:


Ætlað ríkisfang Fjöldi
Úkraína
11
Albanía
4
Írak
3
Hvíta-Rússland
1
Líbía
1
Króatía
1
Íran
1
Líbanon
1
Saír
1
Gana
1

    Málum þessa fólks er ekki öllum lokið. Tíu hafa þó þegar farið af landi brott af sjálfsdáðum, tveir fengið dvalarleyfi, einum var veitt pólitískt hæli og sex var synjað um hæli. Hin málin bíða afgreiðslu.
    Rétt er að ítreka að allir þeir sem voru sendir burt voru sendir til nágrannalanda Íslands þar sem talið var öruggt að þeir gætu sótt um hæli og að umsóknin fengi vandaða meðferð. Margir þeirra hafa raunar haft slíkar umsóknir til meðferðar ytra. Enginn þeirra sem hér um ræðir var sendur til síns heimalands. Flestir voru sendir til Norðurlandanna á grundvelli Norðurlandasamningsins um afnám vegabréfaskoðunar.

     2.      Hve mörgum útlendingum hefur Útlendingaeftirlitið árlega snúið til baka við komu til landsins síðustu fimm ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum og heimalöndum viðkomandi.
    Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, kveður lögreglustjóri upp úrskurð um synjun landgönguleyfis en ekki Útlendingaeftirlitið.
    Á síðustu fimm árum hefur 84 einstaklingum verið snúið til baka frá Keflavíkurflugvelli. Sundurliðun eftir fjölda hvert ár sem hér segir:

Ár Fjöldi
1995 1
1996 21
1997 6
1998 21
1999 35

    Á árunum 1989–99 var alls 143 einstaklingum snúið til baka. Í þeim tilvikum voru skráðar eftirtaldar ástæður fyrir synjun landgönguleyfis:

Ástæða Fjöldi
Án vegabréfsáritunar
50
Ónóg fjárráð
30
Vegabréf falsað/stolið
25
Án farmiða
24
Án skilríkja
7
Skilríki fölsuð/stolin
5
Án vegabréfs
4
Ekki skilgreint
5
Í einstökum tilvikum hafa fleiri en ein ástæða verið skráðar sem grundvöllur fyrir synjun um landgöngu.
     3.      Eru þess dæmi að erlendum einstaklingum sem komið hafa löglega til landsins hafi verið vísað úr landi og bannað að koma aftur til Íslands eða til annarra Norðurlanda fyrir fullt og allt?
    Einstaklingum sem koma löglega til landsins verður því aðeins vísað brott að þeir hafi brotið gegn ákvæðum hegningarlaga, nr. 19/1940, eða öðrum sérrefsilögum og dómstóll hefur ákvarðað um brottvikningu skv. 13. gr. laga nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum, eða Útlendingaeftirlitið á grundvelli 11. gr. sömu laga. Þess eru dæmi að kveðið hafi verið á um endurkomubann á þessum grunni.