Ferill 644. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1367  —  644. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    67. gr. laganna breytist þannig:
     a.      3. tölul. orðast svo: Úrskurði um skyldu til að bera vitni, um eiðvinning og réttarfarssektir skv. 60. og 63. gr.
     b.      Við greinina bætist nýr töluliður sem orðast svo: Ákvörðun um að gera aðila að greiða sektir skv. 65. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram með hliðsjón af ákvæði 1. tölul. 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt ákvæðinu skal sérhver sem dómstóll finnur sekan um afbrot eiga rétt á að láta æðri dóm endurskoða sakfellinguna eða refsinguna.
    Í 1. mgr. 65. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur kemur fram að Félagsdómur geti dæmt aðila til að greiða sektir. Þetta er síðan áréttað í 70. gr. þar sem segir að brot á lögunum varði sektum. Samkvæmt 67. gr. laganna eru dómar Félagsdóms endanlegir og verður almennt ekki áfrýjað.
    Hinn 7. september 1999 tók Mannréttindadómstóll Evrópu þá ákvörðun að kærumál Siglfirðings ehf. gegn íslenska ríkinu væri tækt til efnismeðferðar fyrir dómstólnum. Mannréttindadómstóllinn lagði jafnframt til að aðilar leituðu sátta í málinu. Kæruefnið í máli þessu lýtur að því að samkvæmt íslenskum lögum er ekki unnt að áfrýja dómi Félagsdóms frá 10. júní 1996 þar sem kærandi í málinu var dæmdur til að greiða 500 þús. kr. sekt í ríkissjóð á grundvelli 65. og 70. gr. laga nr. 80/1938. Í ljósi þessa óskaði dómsmálaráðuneytið eftir áliti réttarfarsnefndar og refsiréttarnefndar um hvort nauðsynlegt væri að gera breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur til samræmis við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Í niðurstöðum beggja nefndanna kemur fram að þær telja vafasamt að núverandi skipan, þ.e. að Félagsdómur ákvarði sektir sem lúta ekki meðferð refsimála og ekki er unnt að áfrýja, standist ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og lögðu til breytingar á ákvæðum laganna.
    Í frumvarpinu sem er lagt fram að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið er lagt til að heimilt verði að kæra sektarákvörðun Félagsdóms til Hæstaréttar. Með því móti helst valdsvið Félagsdóms óbreytt og getur dómurinn dæmt aðila til greiðslu sekta að kröfu gagnaðilans. Ætlunin með frumvarpinu er að tryggja að skuldbindingum Íslands samkvæmt ákvæði 2. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu verði fylgt auk þess sem þessar lagabreytingar kunna að stuðla að því að sátt náist í framangreindu kærumáli fyrir Mannréttindadómstólnum.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/1938,
um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að málsaðila verði heimilt að kæra sektarákvörðun Félagsdóms til Hæstaréttar. Samkvæmt ákvæði 1. tölul. 2. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, skal sérhver sem dómstóll finnur sekan um afbrot eiga rétt á að láta æðri dóm endurskoða sakfellinguna eða refsingu.
    Ekki verður séð að frumvarpið muni hafa teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.