Ferill 656. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1421  —  656. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um Kristnihátíðarsjóð.

Flm.: Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson,


Ögmundur Jónasson, Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar, í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi, að stofna sjóð, Kristnihátíðarsjóð, er njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 100 millj. kr. á ári, og hafi að markmiði:
     a.      að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;
     b.      að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.
    Alþingi kjósi sjóðnum stjórnarnefnd.
    Stjórnarnefndin eigi samvinnu við menntamálaráðuneytið, kirkjumálaráðuneytið, þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, Þjóðminjasafnið og háskólana í Reykjavík og á Akureyri, svo og frjáls félagasamtök, um viðfangsefni sjóðsins, skipti fé hans milli meginverkefna, skipi verkefnisstjórnir, hvora á sínu sviði, og staðfesti áætlanir þeirra.

Greinargerð.


    Á þessu ári minnast Íslendingar þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var tekinn upp í landinu. Um þann atburð eru til ritaðar heimildir. Hann varð með þeim hætti, svo sem öllum er kunnugt, að sætt tókst með þingheimi á Alþingi árið 1000 um að Íslendingar skyldu verða kristnir.
    Þetta var einstæður atburður í sögu Evrópu. Hér á landi urðu þessi umskipti á óvenju friðsaman hátt en fyrir kom að blóðug átök fylgdu trúskiptum. Eftir atburðina á Þingvöllum árið 1000 festi ritmenning hinnar alþjóðlegu kirkju rætur í landinu smám saman og varð því ein af forsendunum fyrir bókmenningu í landinu þegar líða tók á 11. öld og blómaskeiði sagnritunar nokkru síðar.
    Alþingi hefur því ríka ástæðu til þess að minnast þessa atburðar veglega. Þingið kemur saman á Þingvöllum, hinum fornhelga þingstað, til hátíðarfundar 2. júlí nk. í tengslum við kristnihátíð sem þjóðkirkjan, stjórnvöld og Alþingi hafa sameinast um að undirbúa og skipuleggja.
    Alþingi hefur, eftir endurreisn þess, komið saman til fundar á Þingvöllum fjórum sinnum, af ríkulegu tilefni hverju sinni, árið 1930 er 1000 ár voru liðin frá stofnun þess, 1944 er lýðveldi var stofnað, 1974 er minnst var 11 alda búsetu í landinu og 1994 er minnst var 50 ára afmælis lýðveldisins. Enn er stefnt til Þingvalla, nú í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var leiddur í lög með sáttargerð Þorgeirs Ljósvetningagoða á Alþingi árið 1000.
    Að venju hafa formenn þingflokka átt viðræður um efni þeirrar tillögu sem til afgreiðslu verður á hátíðarfundinum á Þingvöllum. Niðurstaða þeirra viðræðna er að Alþingi styðji í senn:
          sérstakt átak, í samvinnu við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, stjórnvöld, stofnanir, skóla og félagasamtök, um að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og enn fremur að stuðla að umræðum með þjóðinni, í skólum, í fjölmiðlum og meðal alls almennings, um lífsgildi þjóðarinnar, siðferði og framtíðarsýn við þessi tímamót; markmiðið er að stuðla að heilbrigðri og sterkri sjálfsmynd einstaklinga og þjóðar;
          fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, þ.e. á Þingvöllum, hinum gamla þingstað, svo og á biskupssetrunum gömlu, í Skálholti og á Hólum, og e.t.v. fleiri stöðum, t.d. við klaustrin, það þeirra sem áhugaverðast þykir, til að varpa megi skýrara ljósi á sögu þeirra staða sem miklu hafa skipt á kristnum tíma og raunar í sögu þjóðarinnar frá upphafi.
    Lögð er áhersla á að verkefni sjóðsins verði fjölþætt, þar geti komið að skólar, stofnanir, söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar, og að þess verði gætt að verkefnin dreifist um allt land. Stefnt verði að því að a.m.k. önnur tveggja verkefnisstjórna hafi aðsetur á landsbyggðinni.
    Það verður verkefni stjórnarnefndar að leggja meginlínur í þessu starfi, ákveða skiptingu hins árlega fjárframlags milli aðalverkefna sjóðsins, sbr. a- og b-lið tillögugreinarinnar, og skipa verkefnisstjórnir. Mikilvægt er að til þeirra starfa veljist hæfir einstaklingar sem hafi trausta þekkingu og reynslu en auk þess góð tengsl við helstu stofnanir og fræðahópa á sínu sviði. Verkefnisstjórnunum er ætlað að vera faglegur vettvangur, hvorri á sínu sviði, þar sem gerðar verða tillögur um styrkveitingar, ýmist að eigin frumkvæði þeirra, í samvinnu við stofnanir eða eftir almennum umsóknum. Stjórnarnefnd gengur loks endanlega frá ákvörðunum sjóðsins.
    Mikilvægt er að styrkveitingar úr Kristnihátíðarsjóði verði ekki til þess að skerða árleg framlög til verkefna á þeim sviðum sem sjóðurinn á að styðja, t.d. til fornleifarannsókna sem standa yfir hér á landi eða eru áformaðar með fé úr ríkissjóði, frá sveitarfélögum, rannsóknasjóðum eða öðrum, heldur komi fé sjóðsins sem viðbót til rannsókna þau fimm ár sem honum er ætlað að starfa.
    Í haust verður lagt fyrir Alþingi frumvarp um Kristnihátíðarsjóð með nánari útfærslu á verkefnum hans. Þar verði m.a. ákvæði um að stjórnarnefndin geri Alþingi árlega grein fyrir störfum sínum og ráðstöfun fjár.
    Með tillögu þessari verður í senn reynt að hlúa að menningararfi Íslendinga með því að auka og treysta þekkingu landsmanna á menningu sinni og sögu, en jafnframt horft til framtíðar með því að efla umræðu í landinu um framtíðarsýn þjóðarinnar og þau lífsgildi sem hún ætlar að hafa í fyrirrúmi á nýrri öld.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir hvoru verkefni fyrir sig.


TRÚARARFUR, SIÐFERÐI OG FRAMTÍÐARSÝN


    Á þeirri öld sem nú er að ljúka hefur Íslendingum tekist að byggja upp öflugt velferðarsamfélag. Á þessum tíma hafa breytingar, m.a. í atvinnuháttum, óvíða verið meiri og hraðari; nýr hugsunarháttur og tækni hefur vikið til hliðar aldagömlum aðferðum við framleiðslu og verðmætasköpun. Þessar róttæku þjóðfélagsbreytingar hafa einnig náð til gildismats og lífssýnar Íslendinga. Svo dæmi sé tekið hefur aukin velferð og bættur efnahagur breytt afstöðu fólks til efnislegra verðmæta og þekking og tækni hafa m.a. breytt viðhorfum til náttúrunnar.
    Þótt umtalsverðar breytingar hafi orðið á 20. öld á afstöðu Íslendinga til ýmissa gilda hafa þeir um leið byggt á ákveðnum menningarlegum, trúarlegum og siðferðilegum grunni sem ætla má að hafi verið kjölfesta þeirra í umróti þessara breytinga. Hér skiptir hinn kristni arfur þjóðarinnar miklu. Áhrif kristni á þjóðina er erfitt að meta til fulls; hún er samofin íslensku þjóðerni og sjálfsmynd, siðferðiskennd, gildismati og lífsafstöðu. Kristin trú og kristnar siðferðishugmyndir hafa með öðrum orðum að verulegu leyti mótað þá þætti í fari stórs hluta Íslendinga sem dýpst liggja og ráða því að miklu leyti hvernig þeir haga lífi sínu og umgangast aðrar manneskjur og umhverfi sitt.
    Því er við hæfi þegar Íslendingar minnast þúsund ára kristni í landinu að þeir hyggi að trúararfi sínum, siðferði, lífsgildum og framtíðarsýn. Landsmenn geta nýtt sér þessi tímamót sem sérstakt tilefni til að huga að þeim gildum sem þeir telja að skipti mestu í lífi sínu, til að þroska verðmætamat sitt og lífsafstöðu og til að efla umræður á nýrri öld um gildismat og framtíðarsýn Íslendinga. Fyrir þessu má m.a. færa eftirfarandi rök:

     I. Ekki er sjálfgefið að lífsgildi okkar og lífssýn þróist í framtíðinni sjálfkrafa með þeim hætti sem við teljum nú að væri æskilegt. Þvert á móti má allt eins búast við að við glötum ýmsu sem við nú teljum dýrmætt ef við gefum því ekki gaum. Einstaklingar og þjóðir þurfa með öðrum orðum að leggja rækt við gildismat sitt og lífssýn, bæði með því að hlúa að menningarlegum rótum sínum og með því að yfirvega af víðsýni nýjar hugmyndir og aðstæður. Á þann hátt geta þau í senn varðveitt það besta úr hinum menningarlega og hugmyndalega arfi og skilað honum áfram til komandi kynslóða, ef til vill í bættri mynd. Raunar eru þung rök fyrir því að ein af meginskyldum þjóðar á hverjum tíma sé að stuðla að því að þegnarnir yfirvegi skipulega hvernig lífi þeir vilja lifa og hvert þeir vilja að samfélagið stefni. Fátt er betur til þess fallið að styðja að velfarnaði einstaklinga og samfélags til lengri tíma litið.
     II. Örar breytingar á ýmsum öðrum sviðum mannlífsins kalla á það að trúarhugmyndir, en einkum þó siðferðishugmyndir, séu sífellt til umræðu og endurmats. Í þekkingarsamfélagi nýrrar aldar verða einstaklingar og samfélag að bregðast við einstökum uppgötvunum og tækninýjungum, með lagasetningu og siðferðilegri rökræðu. Jafnframt verður æ brýnna að almenningur, stjórnmálamenn og vísindamenn séu í stöðugum opinberum samræðum um þróun vísinda og tækni og ábyrgð vísindamanna. Sú spurning verður með öðrum orðum æ mikilvægari, eftir því sem vísindi og tækni móta líf okkar á afdrifaríkari hátt, hvernig við getum notað þekkingu á þessum sviðum í þágu mannsins en forðast þá vá að maðurinn verði þræll vísindanna.
     III. Vísbendingar eru um að á nýrri öld muni fólk í velmegunarlöndum á borð við Ísland leggja vaxandi áherslu á andleg og siðferðileg gæði, auk hinna efnislegu gæða. Sjá má merki um þetta í vaxandi áhuga á náttúruvernd, útivist, menntun og persónulegum þroska, og mikil gróska er í listsköpun hvers konar og trúariðkun. Jafnframt mun samfélag framtíðarinnar leggja æ meiri metnað í að stuðla að því að hver einstaklingur hafi raunverulegt frelsi til að móta eigið gildismat og lífsstíl. Það mun reyna enn frekar en nú að stuðla að sjálfstæðu gildismati og sjálfstrausti ungs fólks, t.d. með fjölskyldu- og menntastefnu. Með því móti ýtir samfélagið undir það að ungt fólk verði fært um að standast ýmsan óheillavænlegan þrýsting frá umhverfinu, svo sem þann að hefja neyslu eiturlyfja. Þó er jafnvel enn meira um vert að þannig mun fjölbreytilegur þroski einstaklinganna verða settur í öndvegi.
     IV. Ein meginröksemdin fyrir því að stuðla að fræðslu og umræðu um trúar- og siðferðisskoðanir er af lýðræðislegum toga. Sjálfstætt og gagnrýnið gildismat þegnanna er ein mikilvægasta forsenda þess að stjórnvöld fái nauðsynlegt aðhald við stjórnarathafnir. Skörp og yfirveguð siðferðisvitund borgaranna hamlar gegn því að valdhafar geti hrundið í framkvæmd ákvörðunum sem fara í bága við grundvallarréttindi eða hagsmuni borgaranna eða einstakra hópa þeirra. Enn fremur eru margar af mikilvægustu ákvörðunum sem taka þarf í samfélaginu að meira eða minna leyti siðferðilegar í eðli sínu. Farsæl stjórn samfélagsins er þess vegna undir því komin að bæði almenningur og stjórnmálamenn hafi getu og vilja til að taka þátt í málefnalegri rökræðu um siðferðileg efni og að niðurstöður slíkra umræðna séu grundvöllur ákvarðana.

    Þær röksemdir sem hér hafa verið nefndar hníga allar í þá átt að efla beri fræðslu, rannsóknir og umræður í íslensku samfélagi um trúarlegar og siðferðilegar hugmyndir. Íslendingar hafa vanrækt þennan þátt í menningu sinni og eru fyrir því margar ástæður. Eins og áður sagði hefur samfélagið tekið örum breytingum á 20. öld frá því að vera vanþróað landbúnaðarsamfélag yfir í háþróað tækni- og velferðarsamfélag. Því hafa ef til vill ekki fyrr en á allra síðustu áratugum skapast forsendur fyrir þeirri „umræðuhefð“ í trúarlegum og siðferðilegum efnum sem víða annars staðar hefur fengið að þróast um aldir. Nú eru hins vegar allar forsendur fyrir hendi til að slík hefð geti þroskast og dafnað. Að sú þróun verði hér á landi er ekki aðeins mögulegt heldur gera nýir tímar það beinlínis óhjákvæmilegt. Líf okkar hefur aldrei verið undirorpið eins miklum hraða og margbreytileika og nú og við þurfum að horfast í augu við afdrifaríkar ákvarðanir í einkalífi og opinberu lífi. Eigi þessar ákvarðanir að verða til heilla á komandi árum verða Íslendingar að leggja rækt við siðferðilega dómgreind og hæfni til að rökræða siðferðileg úrlausnarefni.
    Eftirfarandi þættir eru meðal þeirra sem hafa má sérstaklega í huga varðandi fræðslu, umræðu og rannsóknir á trúararfi, siðferði og framtíðarsýn þjóðarinnar.

Fræðsla.
    Tvenns konar meginverkefni geta fallið undir þennan þátt. Annars vegar eru mörg verkefni í skólastarfi á öllum stigum skólakerfisins. Hér býðst m.a. tækifæri til að styrkja gerð námsefnis á sviði siðfræði, en námsefni í þeirri grein hefur verið af skornum skammti. Það má ýmist gera með því að styrkja útgáfu frumsamins efnis eða þýðingu á vönduðu erlendu efni. Jafnframt gefst færi á að styðja við skóla sem taka vilja upp kennslu í siðfræði eða láta nemendur sína vinna sérstök verkefni um lífsgildi og framtíðarsýn þjóðarinnar á nýrri öld. Verðugt markmið er að stuðla að því að nemendum í grunn- og framhaldsskólum bjóðist hvarvetna kennsla í siðfræði og þjálfun í rökræðum um siðferðileg gildi og ákvarðanir. Í þessu augnamiði þarf að huga sérstaklega að því að efla menntun uppeldisstétta á þessu sviði, m.a. með auknu námsframboði og kennsluefni. Fleiri leiðir má fara til að efla umhugsun og samræður nemenda um lífsgildi og framtíðarsýn, svo sem að efna til ritgerðarsamkeppni meðal nemenda í grunnskólum landsins um valið efni eða halda ráðstefnu þar sem fulltrúar nemenda úr skólum víðs vegar um land kæmu saman til að ræða Ísland framtíðarinnar. Þá er einnig vert að benda á ýmsa spennandi möguleika til að tengja saman umræður um menningararf þjóðarinnar, trúararf hennar og lífsgildi. Hér mætti hugsa sér að styrkja verkefni þar sem nemendur ræða samband þessara þátta og hvaða áhrif það hafi á verðmætamat og lífssýn Íslendinga. Í þessu sambandi er einnig vert að nefna að þekking á kristnum trúarhugmyndum er forsenda fyrir skilningi á stórum hluta menningar- og listaarfs Vesturlanda síðustu árþúsund. Því mætti fræða nemendur í auknum mæli um trúarlegan bakgrunn og trúarlegar tilvísanir sem t.d. koma fram í bókmenntum, myndlist og kvikmyndum. Þá er brýnt að efla skilning nemenda á ólíkum menningarlegum, trúarlegum og siðferðilegum hugmyndum og lífsstíl. Fyrir þessu má færa mörg gild rök. Nú á dögum búa Íslendingar að líkindum yfir meiri fjölbreytileika í menningarlegum, trúarlegum og siðferðilegum efnum en nokkru sinni áður, enda hefur æ fleira fólk af erlendu bergi brotið sest hér að á undanförnum árum. Þetta kallar á margbreytilega trúar- og menningarfræðslu þar sem ólíkur bakgrunnur fólks er viðurkenndur og útskýrður fyrir nemendum. Slík fræðsla er til þess fallin að auðvelda aðlögun fólks af erlendum uppruna að íslensku samfélagi og auka skilning nemenda á ólíkri menningu og lífsháttum. Síðast en ekki síst skerpir fræðsla af þessu tagi skilning nemenda á íslenskum menningar- og hugmyndaarfi og auðveldar lifandi rökræður meðal þeirra um trú og lífsgildi. Hins vegar eru margs konar verkefni á sviði almannafræðslu sem vert væri að styðja við. Hér má t.d. nefna gerð útvarps- og sjónvarpsþátta um siðferðileg álitamál í lífvísindum, svo sem á sviði erfðavísinda, en þar standa íslenskir vísindamenn framarlega eins og kunnugt er. Einnig mætti styðja við ýmiss konar námskeiðahald fyrir almenning um siðfræði og tengd efni. Þá er þarft að auka eins og kostur er fræðslu til verðandi foreldra um fjölskyldulíf og foreldrahlutverk. Minnt skal á að fjölskylda og heimili er sterkasti siðferðismótandinn og þar er lagður grunnur að andlegum og siðferðilegum þroska einstaklingsins. Í víðara samhengi er æskilegt að efla dómgreind og umhugsun fólks um eðli náinna mannlegra samskipta og flókin tilfinningabönd, skuldbindingar og ábyrgð sem þeim fylgja, ekki síst í fjölskyldulífi.

Umræður.
    Ýmsar leiðir má fara til að hvetja til umræðu um lífsgildi og framtíðarsýn þjóðarinnar. Mikilvægt er að leita leiða til að virkja sem flesta í slíkum umræðum. Ein besta leiðin til þess er að stuðla að því að sem flestum aðferðum sé beitt til að ná til almennings og virkja hann í umræðum. Sjálfsagt er að nýta sér fjölmiðla í þeim efnum en áhrifavald þeirra er mikið. Einnig má nefna ráðstefnur eða ráðstefnuraðir þar sem tekin væru til umræðu ýmis siðferðileg umræðuefni eins og hugmyndir okkar um hið góða líf og hið góða samfélag, stefna okkar í uppeldis- og fjölskyldumálum, siðferðileg álitamál í líf- og tæknivísindum, afstaða okkar til náttúrunnar og svo framvegis. Í þessu sambandi má einnig benda á mikilvægi þess að efla umræður um lífsgildi og verðmætamat í atvinnulífinu, í fyrirtækjum og stofnunum, með þátttöku þeirra sem þar starfa og halda um stjórnvölinn. Þá mætti örva almennar umræður í samfélaginu með því að kalla saman borgara úr ýmsum stéttum og landshlutum, úr öllum stjórnmálaflokkum og á ýmsum aldri til að ræða hvernig bæta megi mannlífið á Íslandi á 21. öldinni. Síðast en ekki síst mætti búa til vandaða umræðuþætti í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum um lífsgildi og framtíðarsýn þjóðarinnar, auk þátta um einstök siðferðileg viðfangsefni.

Rannsóknir.
    Tækifæri er til að efla margvíslegar rannsóknir á gildismati og lífssýn þjóðarinnar auk ýmissa siðfræðilegra rannsókna. Margt er enn órannsakað varðandi þessa þætti sem vert væri að styrkja rannsóknir á. Má þar t.d. nefna afstöðu almennings til siðferðilegra hugtaka eins og friðhelgi einkalífs, siðferðilega þýðingu sjálfboðaliðsstarfa í lífi fólks og áhrif siðferðilegra verðmæta og gildismats á ákvarðanir í stjórnmálum. Þá er einnig vert að hleypa af stokkunum rannsóknarverkefnum af siðfræðilegum toga. Mörg mikilvæg verkefni eru óunnin á þessu sviði, t.d. í tengslum við hraða þróun í erfðavísindum. Í kjölfar slíkrar vísindabyltingar vakna stórar siðferðilegar spurningar sem almenningur, vísindamenn jafnt sem aðrir, þarf að takast á við. Þjóðfélag sem ætlar sér að vera í fararbroddi í rannsóknum á komandi árum verður að efla rannsóknir og umræður í samfélaginu um siðferðilegar og félagslegar afleiðingar þessarar nýju þekkingar og um æskilega og óæskilega nýtingu hennar.


FORNLEIFARANNSÓKNIR


    Söguþekking og skýr vitund þjóðarinnar um fortíð sína er háð því að á hverjum tíma séu gerðar öflugar rannsóknir á sem flestum sviðum. Fræðimenn telja líklegt að markvissar fornleifarannsóknir séu líklegastar til þess að skila nýrri þekkingu á elstu sögu þjóðarinnar.
    Fornleifarannsóknir á Íslandi hafa verið færri og minni að umfangi en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna er brýnt að gera átak í rannsóknum og skráningu fornleifa og móta stefnu um sérstaklega valin verkefni og fyrirkomulag rannsókna. Styrkja þarf rannsóknir sem leiða til varanlegrar uppbyggingar íslenskrar fornleifafræði sem vísinda- og atvinnugreinar. Markmiðið er að auka þekkingu og skilning á íslenskum menningararfi og þjóðarsögu en jafnframt að stuðla að eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu, bættri minjavörslu og auknu samstarfi, auk bættrar þjálfunar fræðimanna.

Samstarf vísindamanna.
    Mikilvægt er í þessu sambandi að góð samvinna takist milli Þjóðminjasafnsins, annarra rannsóknastofnana og fræðimanna og menntastofnana í landinu. Á þann veg verða rannsóknir og fræðimennska almennt efldar og sérfræðingum á sviði menningarsögu fjölgað. Átak það sem hér er gerð tillaga um gæti því styrkt fræðigreinina verulega til lengri tíma litið. Með því móti mætti byggja á sérkennum menningar okkar og sögu við að efla fornleifafræði á Íslandi.
    Þjóðminjasafn Íslands annast af opinberri hálfu rannsóknir og vörslu fornleifa, sbr. lög nr. 88/1989. Hlutverk þess er einnig að auka og miðla þekkingu á menningararfi þjóðarinnar, en jafnframt fást önnur söfn og stofnanir við fornleifarannsóknir, auk sjálfstætt starfandi fræðimanna. Mikilvægt er því að sem breiðast samstarf verði um rannsóknirnar meðal fornleifafræðinga.
    Fornleifafræði er sjálfstæð fræðigrein, en fornleifarannsóknir eru jafnframt þverfaglegar þar sem margir sérfræðingar vinna sameiginlega að verkefnum. Við fornleifarannsóknir á helstu minjastöðum þjóðarinnar er því nauðsynlegt að efna til samstarfs ýmissa fræði- og vísindamanna og ljóst að leita þarf bæði til innlendra og erlendra fræðimanna og stofnana. Slíkt samstarf er líka til þess fallið að efla rannsóknir hér á landi og stuðla að framförum á sviði íslenskrar fornleifafræði.
    Íslenskum fornleifafræðingum hefur fjölgað mjög á seinni árum og menntun þeirra og reynsla að sama skapi aukist. Sá hópur getur lyft grettistaki ef stutt er myndarlega við bakið á honum. Á Íslandi starfa fornleifafræðingar við Þjóðminjasafnið og á minjasöfnum um landið en auk þess við sjálfstæðar stofnanir eða eru sjálfstætt starfandi. Því er mikilvægt að sem flestir sérfræðingar komi að því átaki í fornleifarannsóknum sem hér er gerð tillaga um. Slíkt samstarf gæti orðið mikilvæg lyftistöng fyrir allt rannsóknarstarf hér á landi og styrkt íslenskt fræðastarf verulega í erlendu samstarfi.

Efling fornleifafræðirannsókna og kennslu.
    Íslenskir fornleifafræðingar hafa þurft að sækja menntun sína til útlanda en síðan aðlagað fræðimennsku sína íslenskum verkefnum með rannsóknum hér á landi. Vonir standa þó til þess að átak á sviði fornleifarannsókna, í samstarfi íslenskra og erlendra vísindamanna, gæti orðið til þess að ýta við því að háskólanám í fornleifafræði, sem margir telja tímabært, komist á. Þótt miklu hafi verið áorkað í íslenskri fornleifafræði á 20. öld hafa flestar rannsóknir staðið stutt og mörg stærri rannsóknarverkefni hafa orðið endaslepp vegna fjárskorts og skorts á hæfum vísindamönnum. Íslenskir fornleifafræðingar hafa þó lært af þessari reynslu, og hafa á síðasta áratug verið unnin viðamikil þverfagleg rannsóknarverkefni með þátttöku alþjóðlegs hóps vísindamanna í Reykholti í Borgarfirði og á Hofstöðum í Mývatnssveit. Báðar rannsóknirnar njóta vaxandi viðurkenningar í alþjóðlegu vísindasamfélagi og reynslan af þeim sýnir að fornleifarannsóknir þurfa að vera umfangsmiklar og standa í langan tíma ef fullur árangur á að nást af starfinu. Fleiri stór langtímaverkefni munu því verða mikil lyftistöng fyrir vísindagrein sem lengst af hefur barist í bökkum og ekki getað boðið nemendum og ungum fræðimönnum upp á vinnu við rannsóknir nema stuttan tíma í senn. Fornleifarannsóknir á helstu minjastöðum í landinu yrðu afar mikilvægt tækifæri til að byggja upp þekkingu og reynslu og fjölga sérfræðingum í fornleifafræði á Íslandi. Þannig yrði unnt að mennta fleira ungt fólk sérstaklega í íslenskri fornleifafræði. Má í raun segja að viðamiklar fornleifarannsóknir séu forsenda árangursríkrar háskólakennslu. Fornleifarannsóknirnar gætu þannig leitt til mikillar grósku í fræðastarfi á sviði íslenskrar menningarsögu.
    Nútímafornleifafræði fjallar einnig um sögulega stöðu manna í náttúrunni, samspil menningar og náttúru, og því verður nám í fornleifafræði að vera tengt náttúruvísindum. Kennsla og rannsóknir tengdar sérstöðu íslenskrar menningarsögu og náttúru eru því áhugaverðar.

Menningartengd ferðamennska.
    Menningarminjar á Íslandi eru að margra mati vannýtt auðlind. Um allt land bera verðmætar minjar, hús og fornleifar vitni um langa og fjölþætta sögu. Má í því sambandi nefna byggingararf okkar og þróun húsagerðar í landinu, fornleifar á fornum verslunarstöðum og þingstöðum, kirkjusögulegar minjar, klausturstaði og bæjarleifar. Áhugi Íslendinga og ekki síst erlendra ferðamanna er ótvíræður á sögulegum minjum ekki síður en náttúruminjum. Þess vegna þarf að gera átak í kynningu slíkra minjastaða, aðkomu ferðamanna að þeim og sögu þeirra, auk viðhalds og rannsókna á þeim.
    Þýðingarmikið er að velja staði til rannsókna með það fyrir augum að þeir séu dreifðir um landið allt. Þannig má sjá fyrir sér að fornleifarannsóknir gætu varpað ljósi á sögu hvers landshluta. Þá er þess að geta að aukið fjármagn til rannsókna á menningararfi okkar yrði mikilvæg lyftistöng fyrir menningartengda ferðamennsku. Kannanir sýna að meiri hluti erlendra ferðamanna nefnir sögu landsins og bókmenntir sem fyrstu eða aðra ástæðu þess að þeir ákváðu að koma til Íslands. Eins og nú er ástatt finnur þessi hópur fátt til að svala forvitni sinni. Reynslan sýnir líka að forvitnilegir minjastaðir hafa aukið áhuga ferðamanna á því að heimsækja slíka staði í öllum landshlutum. Þeir geta dregið fram sérkenni og sögu byggðarlaga og styrkt þau með tilliti til þjónustu við íslenska og erlenda ferðamenn. Fornleifar og rannsóknir á þeim þykja mörgum afar forvitnilegar og án alls vafa mun afrakstur þeirra verða til þess að efla ferðaþjónustu enn frekar á þeim stöðum þar sem rannsóknir munu fara fram. Rannsóknirnar sjálfar draga oft að fjölda áhugasamra ferðamanna meðan þær standa yfir.
    Þá er mikilvægt að fylgja rannsóknum eftir með úrvinnslu og útgáfu á niðurstöðum þeirra. Niðurstöðum rannsókna þarf að miðla til almennings og ferðamanna. Má sjá fyrir sér útgáfu, sýningar og ekki síst betri merkingar minjastaða í landinu. Slíkt væri vel til þess fallið að efla menningartengda ferðamennsku og bæta söguvitund og sjálfsmynd þjóðarinnar.

Rannsóknarstaðir.
    Íslendingar hafa lengst af litið til bókmenntaarfsins sem aðalheimildar um fortíð sína, m.a. af því að aðrar heimildir, þ.m.t. byggingaleifar, hafa verið lítt sýnilegar í landslaginu. Mikilvægt er því að efla rannsóknir sem gætu aukið á fjölbreytileikann á þessu sviði.
    Þrír staðir, öðrum fremur, hafa komið við sögu á þeim tíu öldum sem liðnar eru frá því að kristinn siður var lögtekinn í landinu, þ.e. Þingvellir og biskupsstólarnir í Skálholti og á Hólum. Fleiri áhugaverða staði um landið væri vert að rannsaka. Hér eru nokkrir þeir helstu nefndir:
    Þingvellir. Lengi hefur staðið til að gera fornleifarannsóknir á Þingvöllum en lítið orðið úr enn sem komið er, einkum sökum fjárskorts. Er þess að vænta að slíkar rannsóknir geti skilað mikilli þekkingu á þjóðarsögunni, þeim þætti hennar sem þar gerðist.
    Talsverðar rannsóknir voru gerðar á þingbúðum á Þingvöllum á 19. öld en á þeirri 20. var lítið gert fyrr en rannsóknir fóru fram við Þingvallakirkju 1999. Mjög brýnt er að skrá fornleifar á þingstaðnum og í landi Þingvalla, og mörgum mikilvægum spurningum mætti svara með uppgreftri á ýmsum stöðum.
    Skálholt. Fyrir tæpri hálfri öld fór fram merkileg rannsókn á kirkjugrunnum í Skálholti, en mikið svæði er þar enn ókannað. Fyrir u.þ.b. áratug fóru fram könnunarrannsóknir á bæjarstæðinu í Skálholti. Varðveisluskilyrði fornleifa í Skálholti þykja nokkuð góð og ljóst er að mikils má vænta af frekari rannsóknum þar. Þjóðminjasafnið gerði þar rannsóknir á sínum tíma og varðveitir ýmis gögn þar að lútandi. Um staðinn eru til góðar úttektir, af honum eru til teikningar frá 18. öld og til viðbótar er staðarkort frá sama tíma. Þar er því von um áhugaverðan samanburð ritheimilda, teikninga og niðurstaðna fornleifauppgraftar.
    Mælingar Fornleifastofnunar á jarðvegi sumarið 1999 benda til þess að rústir séu óraskaðar undir yfirborði. Skálholtsstaður hefur látið skrá fornleifar í landi Skálholts og hefur einnig látið gera áætlun um rannsóknir á bæjarstæðinu.
    Hólar í Hjaltadal. Engar verulegar rannsóknir hafa enn farið fram á Hólum í Hjaltadal og þar mun ekki hafa verið byggt að ráði yfir eldri leifar. Til er rissuppdráttur af Hólastað frá seinni öldum og varðveisla á staðarúttektum virðist nokkuð góð.
    Klaustur. Þá er þess að geta að klausturstaðirnir gömlu þykja margir hverjir mjög áhugaverðir til fornleifarannsókna. Heppilegast væri að gera úttekt á öllum klausturstöðunum með tilliti til varðveisluskilyrða og þess hversu miklar leifar eru eftir á hverjum stað og stefna svo að því að velja einn stað til ítarlegrar rannsóknar.
    Aðrir staðir. Margir aðrir staðir á landinu þykja líka mjög fýsilegir til fornleifarannsókna, kirkjustaðir, verslunarstaðir, miðaldabæir, forn eyðibýli, verstöðvar, heiðnar grafir, sel, þingstaðir og fleiri staðir þar sem eru m.a. minjar frá upphafi byggðar í landinu, en ekki er ástæða til að telja þá hér. Misjafnt er hins vegar hversu mikið rask hefur orðið á þeim stöðum og hversu mikið er til af heimildum um þá. Er eðlilegt að stjórnarnefnd fari yfir þá og kanni hvort unnt sé að stofna til rannsókna þar á starfstíma sjóðsins.