Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:43:14 (3573)

2001-01-15 14:43:14# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., JB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi umræða hefur farið út og suður, einmitt fyrir tilstuðlan þingmanna stjórnarmeirihlutans sem veigra sér við efnislegri umræðu og því að standa við eðlilegan úrskurð Hæstaréttar o.s.frv., sem ég ætla þó ekki að gera hér að umræðu. (Gripið fram í.) Að standa við úrskurð Hæstaréttar heldur fara undan í flæmingi. (Gripið fram í.) Ég vil síðan biðja hv. þm. að róa sig niður.

Ég vil geta þess að það er hárrétt að formaður þingflokks okkar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði okkur grein fyrir því á þingflokksfundi að svo gæti farið að boðað yrði til þriðja fundar hér í dag en dagskrá þess fundar væri óviss.

Við höfum lagt áherslu á, einmitt til að þinghaldið verði sem markvissast og öruggast og við náum sem mestu úr hverri stund, að fallist verði á tillögu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um að forseti geri hlé til að funda með formönnum þingflokka. Þar yrði farið yfir þau mál sem hægt er að taka á dagskrá í dag þannig að þingdagurinn nýtist sem best. Menn ættu ekki að standa í röfli um einstök mál við stjórnarliða sem vilja kannski komast hjá því fundurinn gangi eðlilega fyrir sig.

Herra forseti. Ég ítreka það sem formenn þingflokka, bæði Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Samfylkingarinnar, hafa lagt hér til, að gert verði hlé og forseti og þingflokksformenn fari yfir dagskrá dagsins þannig að fundurinn gangi sem best fyrir sig. Ég teldi það betra en að leggja hér upp með einhvern þinglegan skrípaleik.

(Forseti (HBl): Ég vil að gefnu tilefni endurtaka það sem ég hef áður sagt. Þingmenn eru ævinlega við því búnir að stjórnarfrv. sem bíða 1. umr. séu tekin á dagskrá. Þannig getur ekki staðist að þingmenn hafi verið óviðbúnir því að stjórnarfrv. væru hér tekin til 1. umr.)