Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 13:08:09 (3714)

2001-01-17 13:08:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[13:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski svo mikil gjá á milli okkar, mín og hv. þm., í viðhorfum að það er ekki alveg von til þess að við náum saman í umræðum um þessi mál eða komumst inn á þá bylgjulengd að við svo mikið sem skiljum hvorn annan og sérstaklega ekki þegar hv. þm. fer að reyna að fara hér út í útúrsnúninga og reyna að láta að því liggja að fólk sem hefur jöfnuð og félagshyggju að lífsskoðun breytist á einni nóttu bara út af því að taka þessa afstöðu í þessu máli hér í eitthvað allt annað. Og ætlar svo hv. þm. með skoðanir sínar og sjónarmið sín og afstöðu sína í þingmálum gegnum tímann að koma hér allt í einu sem riddari á hvítum hesti og gerast sérstakur varðgæslumaður þessara gilda? Það fer hv. þm. ekki vel. Það verð ég að segja alveg eins og er. Ég er því algjörlega óhræddur við þessa umræðu.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við höfum gengið allt of langt í því að skerða einstaklingsbundinn rétt manna í vissum tilvikum í okkar velferðarkerfi og ég hef margoft kallað þetta óhæfu, m.a. í ræðu um síðustu stefnuræðu forsrh. og aftur og aftur. Ég tel t.d. að þessi mikla tekjutengda skerðing grunntryggingar öryrkja, það að einstaklingar sem lenda inni á stofnun enda á einhverjum vasapeningum sem ekkert eru o.s.frv., hafi gengið út í öfgar hjá okkur á undanförnum árum.