Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:01:26 (3724)

2001-01-17 15:01:26# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algerlega ósammála hv. þm. um að Tryggingastofnun hafi verið fært að hefja greiðslur í kjölfar dómsins. Ég er sammála Hæstarétti um það, eins og Hæstiréttur segir sjálfur, þ.e. meiri hlutinn, að einstakir öryrkjar gátu ekki byggt rétt sinn beint á niðurstöðu þessa dóms. Það er sérstaklega tekið fram í dómnum. En stjórnarandstaðan hefur kosið að líta fram hjá því.

Fyrir utan það sem ég var áður búinn að nefna, að lagaheimild þyrfti samkvæmt stjórnarskrárákvæðum, þá þurfti til viðbótar til að mynda að finna út úr þessum ágreiningi sem er milli mín og hv. þm. um það hvort í dómnum fælist að ekki mætti skerða tekjur öryrkja vegna tekna maka. Ég vitna til orða Sigurðar Líndals prófessors þar sem hann tekur fram í viðtali að auðvitað feli dómurinn það ekki í sér að bannað sé að tekjutengja tekjur örorkulífeyrisþega við tekjur maka.