Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 19:10:08 (3972)

2001-01-18 19:10:08# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að hv. þm. hafi verið í salnum þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti sína ræðu vegna þess að hún fjallaði nánast öll um nákvæmlega þetta. Hún var svar við þessum rökum Péturs H. Blöndals. Ég hef ekki og var ekki í minni ræðu að gera því skóna að eitthvert tiltekið atriði í lagagreininni eða einhver tiltekin málsgrein ætti að falla niður. Um hvað snerist þessi deila sem þetta er partur af? Hún snerist um það hvort nauðsynlegt hefði verið að samþykkja lög til þess að hægt væri að greiða út óskerta tekjutryggingu í upphafi janúarmánaðar og hvort það þyrfti sérstök lög til þess að greiða út tekjutryggingu í upphafi næsta mánaðar.

Við erum þeirrar skoðunar að það þurfi engin sérstök lög til þess að gera þetta. Það verður að skoða þetta mál og niðurstöðu dómsins út frá þeirri stefnu sem Öryrkjabandalagið fór fram með gagnvart ríkinu. Þar átti að láta reyna á tiltekið mannréttindaprinsipp á grundvelli ákveðinnar málsgreinar tiltekinnar lagagreinar í almannatryggingalögunum sem varðaði bara afmarkaðan hóp. Hæstiréttur staðfesti skilning Öryrkjabandalagsins. Með öðrum orðum var skilningur Öryrkjabandalagsins réttur og dómsorðið var skýrt. Og eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skýrði hér vel út í dag þá skapaðist réttarástand við það sem varð að svara með því að greiða þessum tiltekna hópi öryrkja sem dómurinn varðaði, út óskerta tekjutryggingu.

Þá gæti hv. þm. velt því fyrir sér hvað verði um hina hópana sem t.d. er rætt um í 6. og 7. mgr. Engum datt annað í hug en að menn mundu beita lögjöfnun til þess að láta þá ná sama rétti. Sá starfsmaður íslenska ríkisins sem á að sinna þessum greiðslum, forstjóri Tryggingastofnunarinnar, sagði það þegar í stað deginum síðar. Væntanlega hefur hann haft eitthvert ráðslag við þann sem yfir honum er. Ég bendi líka á það, herra forseti, að þetta kemur fram í skýrslu starfshópsins og þetta kemur að sjálfsögðu fram í frv. sem hér liggur fyrir. Engum manni datt annað í hug en að gera það. En það breytir því ekki að það var hægt að greiða þessum tiltekna hópi sem dómur Hæstaréttar varðaði beinlínis án þess að setja sérstök lög. Það er það sem skiptir máli og þessu er Eiríkur Tómasson prófessor sammála.