Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:02:36 (4369)

2001-02-08 15:02:36# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. og fyrrum blaða- og upplýsingafulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins fyrir þennan lestur um hver staða aldraðra er þegar þeir eru erlendis. Ég kastaði því fram að m.a. væri eitt af verkum umboðsmanns aldraðra að gæta réttarstöðu hinna öldruðu.

Í annan stað er þetta ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstaðan fellur í þá gryfju þegar verið er að ræða um umboðsmann aldraðra sem á að gæta hagsmuna þeirra, að farið er út í allt aðra sálma. Þá er farið að tala um öryrkja. Auðvitað verða þeir aldraðir. Þeir falla síðan inn í þennan ramma. Það er því í mörg horn að líta.

Ég vildi þó aðeins, af því að ég vitnaði í forustugrein Morgunblaðsins áðan, enda orð mín á því að vitna í forustugrein Morgunblaðsins frá 15. febrúar 2000, þar sem verið er að fara yfir niðurstöðu kjarakönnunar frá Rauða krossi Íslands. Það sem þar kemur fram er athyglisvert og vitna ég nú til forustugreinarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Athyglisvert er þó, að aðeins 4% aldraðra búa við bág kjör. Þetta er hópur, sem nefndur er ellilífeyrisþegar, sem hefur lítinn sem engan lífeyri og á engar eignir. Almennt hafa flestir í hópi aldraðra viðunandi kjör, en lítill en vel merkjanlegur hópur býr við bág kjör. Þetta fólk þarf mjög svo að velta fyrir sér fjármálunum, svo að það eigi fyrir lífsnauðsynjum frá degi til dags.`` Þetta er rétt. En sem betur fer er þetta ekki stór hópur. Það er hann sem við þurfum að hugsa um og líka um þá sem eru sæmilega stæðir og vel stæðir en hafa ekki andlega heilsu til að gæta eigna sinna.