Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:06:57 (4433)

2001-02-12 16:06:57# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:06]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir liggur að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hyggst nota undanþáguákvæði í grunnskólalögunum til reksturs tilraunaskóla til að setja rekstur almenns hverfisskóla í Hafnarfirði í útboð og ég gat ekki heyrt annað en að hæstv. menntmrh. ætlaði að blessa yfir þá aðgerð. Kom mér það nokkuð á óvart. Auk þess sem þetta gengur þvert gegn anda laganna hafa íslenskir íhaldsmenn og þeir sem eru með þeim í bandalagi eins og framsóknarmenn í Hafnarfirði nú sýnt að þeir eru kaþólskari en páfinn, því engum hefur enn á gjörvöllum Vesturlöndum dottið í hug í sinni villtustu fantasíu að bjóða út í einkaframkvæmd rekstur almenns hverfisskóla. Þetta er grafalvarlegt mál því þarna er ekki um að ræða einkaskóla sem auðvitað eru víða til og undir ýmsum formerkjum heldur almennan hverfisskóla þangað sem börn úr hverfinu eru skyldug til skólagöngu. En þó er ekki gert ráð fyrir alveg öllum börnum í þessum skóla því heyrst hefur, enda ekki annað ráðið af útboðsgögnum, að ekki sé gert ráð fyrir að nemendur sem þurfa á mikilli sérkennslu að halda gangi í þennan skóla. Þeim verður úthýst. Sumir eru jafnari en aðrir. Aðrir skólar í Hafnarfirði verða látnir annast kennslu þeirra barna. Enda vandséð hvernig hægt er að setja slíkan óvissuþátt í útboð.

Komið hefur fram í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að forráðamenn bæjarins ætla sér að spara á þessu fyrirkomulagi. Þeir sem gera tilboð í reksturinn ætla síðan vafalaust að græða. Og þá kemur upp spurningin: Hver er það er sem mun tapa?

Það er engin spurning að ýmsar leiðir eru til að spara í rekstri grunnskóla. Til dæmis með því að hafa fjölmennari bekkjardeildir og enga sérhjálp svo dæmi sé tekið. Það er bara spurningin hverjir vilja svo selja börnin sín lægstbjóðendum og láta þau sæta þeim afarkostum sem slíkt býður upp á.