Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:09:27 (4475)

2001-02-12 18:09:27# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður sagt á Alþingi þegar umræðan um Ríkisútvarpið hefur farið fram að ég styð heils hugar Rás 1. Auðvitað þurfum við að afla fjármagns til þess að reka þá stöð. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er virkilega góð stöð og menningarleg eins og hann kom hér inn á.

En hvert er svarið þegar spurt er: Svarar þetta kröfum nútímans? Ef við berum saman Bylgjuna og Rás 2 þá held ég að þær stöðvar séu mjög svipaðar. Ég tel því að við hljótum að geta rekið Rás 2 með öðrum hætti en með beinum fjárframlögum frá ríkinu. Hins vegar tek ég undir það, varðandi þá stöð sem menn kalla Gufuna, að það er úrvalsstöð og að sjálfsögðu þarf að styrkja hana héðan frá Alþingi með föstum fjárlögum.