Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:21:29 (4526)

2001-02-13 16:21:29# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. þau orð sem hún lét falla um frv. og erum við þá sammála um að mikilvægt er að lægja öldurnar og vinna þetta mál vel í þinginu. Landbn. mun vissulega gera það og bera þar hitann og þungann og fara yfir málið.

Ég vil segja um spurningu hv. þm. að þingmaðurinn má treysta því að þau leyfi, verði þau gefin út áður en lögin verða sett, munu auðvitað styðjast við það frv. sem hér kemur fram. Það er vilji þess sem hér stendur og ríkisstjórnarinnar, ég held það sé líka vilji þeirra sem ætla að fara út í þessa atvinnustarfsemi, að ramminn verði strangur. Þeir vilja vanda sig og skynja að þeir þurfa auðvitað að fara að reglum og hafa bundið vonir við þetta frv. Ég held því að það sé alveg ljóst að starfsleyfin miða að því að fara að þeim ströngu skilyrðum sem sett eru í frv. sem ég vona að verði lögfest núna í apríl.