Börn og auglýsingar

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:17:27 (4913)

2001-02-21 14:17:27# 126. lþ. 75.7 fundur 459. mál: #A börn og auglýsingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Auglýsingar hafa í seinni tíð orðið æ áleitnari gagnvart börnum. Í skýrslu umboðsmanns barna til forsrh. frá árinu 1999 eru tiltekin nokkur dæmi þar um.

Í auglýsingabæklingi voru börn látin auglýsa þjónustu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Veitingahús auglýsir að leikföng fylgi mataröskjum sem sérstaklega eru ætlaðar börnum. Leikföngin eru notuð sem agn til að fá foreldra og börn til að borða á veitingahúsinu. Auglýsing frá tískuvöruverslun í dagblöðum sýnir tvær litlar stelpur í nærbuxum og í leðurstígvélum. Auglýsingin vakti sterk viðbrögð almennings. Auglýsingar banka beinast að börnum allt niður í 12 ára aldur. Börnin fá senda bæklinga og blöð frá bankaklúbbum í beinni markaðssetningu.

Auglýsendum er ljóst að börn eru áhrifagjörn. Þeim er einnig kunnugt um að börn hafa töluverð áhrif á hvernig peningum fjölskyldunnar er varið í stóru sem smáu. Því sést það æ oftar að auglýsingum um vörur sem ætlaðar eru fullorðnum er beint til barna.

Auglýsendur gera sér jafnframt fulla grein fyrir því að börn eru sjálf nú þegar stórneytendur og þau eru kaupendur framtíðarinnar. Í 22. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, er fjallað um auglýsingar. Þar er m.a. kveðið á um að auglýsingar skuli miðast við að börn sjái þær og heyri og megi þar á engan máta misbjóða þeim. Þar segir einnig, með leyfi forseta:

,,Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.

Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.``

Í 30. gr. laganna er kveðið á um að samkeppnisráð geti sett nánari reglur um beitingu 22. gr. laganna sem varðar börn og auglýsingar og um að ráðgast verði við hlutaðeigandi aðila eða samtök þeirra áður en slíkar reglur eru settar. Reglur um börn og auglýsingar hafa hins vegar ekki verið settar og snýr fyrri hluti fyrirspurnar minnar að því hvort hæstv. viðskrh. muni beita sér fyrir því að slíkar reglur verði settar.

Seinni hluti fyrirspurnar minnar snýr að því hvort tekin hafi verið ákvörðun um að þýða og gefa út rit um börn og unglinga um markaðssetningu sem byggir á dönskum bæklingi þessa efnis og gefinn var út af umboðsmanni neytenda í Danmörku, en umboðsmaður barna hér á landi hefur sérstaklega gengið eftir því, samanber skýrslu umboðsmanns barna til forsrh. árið 1999, kafla 7.2 og tilmæli hans til viðskrh. í þessa veru. Þessi bæklingur kynnir grundvallarhugmyndir um börn og auglýsingar og setur fram leiðbeinandi reglur til stjórnvalda, auglýsenda, foreldra og skólastjórnenda í þessum efnum. Bæklingurinn tekur m.a. á því hvaða hugtengsl ber að varast í auglýsingum sem beinast að börnum. Hann fjallar einnig um beina markaðssetningu til barna og vert er að hafa það í huga nú þegar fermingarvertíðin er fram undan að þar er bein markaðssetning gagnvart börnum sem samkvæmt þessum reglum ætti að vera óheimil og það er til umhugsunar.