Börn og auglýsingar

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:28:27 (4918)

2001-02-21 14:28:27# 126. lþ. 75.7 fundur 459. mál: #A börn og auglýsingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. svörin og hv. þingmönnum þátttökuna í umræðunni. En ég verð að segja að svör hæstv. viðskrh. ollu mér ákveðnum vonbrigðum því að í báðum tilvikum er svarið við spurningu minni nei, þ.e. svörin voru þau að samkeppnisráð er ekki tilbúið til þess að setja slíkar reglur heldur vill það frekar styðjast við reglur sem koma héðan og þaðan frá reyndar virtum samtökum. Ég er ekki að segja annað. En ég tel að ástæða sé til þess að samkeppnisráð skoði þessar reglur og setji síðan eigin reglur sem yrðu þá gildandi fyrir það þjóðfélag sem við búum í.

Ljóst er að ákvæði samkeppnislaga sjálfra eru ekki fullnægjandi. Þau ákvæði eru mjög væg, enda er gert ráð fyrir því í lögunum að sett verði reglugerð í framhaldi af þeim. Svo virðist sem þær reglur sem eru þó til í þjóðfélaginu í dag, siðareglur bæði auglýsenda og kaupmanna, dugi ekki til því að af upptalningu á dæmum sem uppboðsmaður barna hefur vakið athygli á sem varða börn og auglýsingar, er ljóst að víða er pottur brotinn. Segja má að við höfum sýnt allt of mikið umburðarlyndi í þessum efnum. Ég á þar bæði við auglýsingar þar sem börn eru þátttakendur og auglýsingar sem sérstaklega er beint að börnum. Á hinum Norðurlöndunum er töluverð umræða í gangi um þessi mál og hvert stefni og menn sjá þess augljós merki að börn verði stöðugt vinsælli sem markhópur og að auglýsingum sé beint að þeim í sífellt ríkari mæli. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við reynum að spyrna við fótum áður en komið er í óefni, þ.e. taka á vandanum áður en hann verður of mikill og erfiður viðfagns. Því er nauðsynlegt að setja nánari ákvæði í reglugerð eins og heimild er fyrir í lögum um samkeppni.