Umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 13:44:03 (5044)

2001-02-28 13:44:03# 126. lþ. 78.92 fundur 336#B umfjöllun menntmn. um túlkun 53. gr. grunnskólalaga# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þegar ég upplifði það í gær hvernig meiri hluti menntmn. afgreiddi þessa mjög svo sakleysislegu tillögu okkar upplifði ég það sem hreinlega skort á stjórnvisku og mér finnst sá skortur lýsa út úr þessari afgreiðslu. Í staðinn fyrir að taka þetta mál friðsamlega til umræðu í nefndinni í þessum litla hópi vildi nefndin frekar varpa þessu út á öldur ljósvakans. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi og gera þetta að því stórmáli sem mér sýnist að það sé nú orðið að. Ég verð að segja að það verður ekki skemmtilegt fyrir Sjálfstfl. þegar annar meiri hluti verður kominn til valda og vísar alltaf í þessa afgreiðslu þegar t.d. er beðið um minnisblað inn í nefnd. Ég hafði ekki upplifað það fyrr en í gær að slíku hafi verið hafnað þannig að þessi afgreiðsla var algjörlega með eindæmum.

Hæstv. forseti svaraði þessu bréfi rösklega. Hann hefur mikla reynslu í bréfaskriftum núna upp á síðkastið eins og alþjóð veit. Það fylgir ekki með hvort þessi afgreiðsla var lögð fyrir Hæstarétt en það verður sjálfsagt ekkert mál þegar þar að kemur ef þess kann að þurfa. En hitt er ljóst að þarna er verið að gera stórmál úr því sem við gátum afgreitt lýðræðislega með umræðum í nefnd.