PCB-mengun í Reykjavík

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 18:00:23 (5099)

2001-02-28 18:00:23# 126. lþ. 79.17 fundur 469. mál: #A PCB-mengun í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Á þskj. 748 kemur fram svohljóðandi fyrirspurn mín til hæstv. umhvrh. um PCB-mengun:

1. Getur ráðherra upplýst um það hvort PCB-mengun sé enn að finna í Sundahöfn í Reykjavík --- og er þá auðvitað átt við hafnarsvæðið --- og þá í hvaða mæli?

2. Eru fleiri staðir í borginni þar sem fundist hefur PCB-mengun í jarðvegi?

3. Hafa mengunarkröfur í starfsleyfum fyrirtækja verið hertar frá því að Evrópusambandið setti mörk á leyfilega losun díoxína/furana frá mengandi fyrirtækjum?

4. Hefur slík tilskipun frá ESB verið samþykkt hér á landi og þá í hvaða formi?

Á fyrri þingum hafa farið fram umræður um PCB-mengun. Þannig bar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fram fyrirspurn til hæstv. þáv. heilbrrh. árið 1989 og á 122. löggjafarþingi 1997--98 bar hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um mælingar á mengun frá stóriðju og sorpbræðslu. Á sama þingi kom fram þáltill. um könnun á þrávirkum lífrænum efnum í lífríki Íslands.

Í Reykjavík hafa augu manna fyrst og fremst beinst að athafnasvæði við Sundahöfn þar sem spennaolía með PCB-innihaldi hefur mengað jarðveg. Við mælingar þar fyrir nokkrum árum var þetta staðfest. En styrkur PCB-efna þar reyndist vera undir hættumörkum miðað við þágildandi reglugerð. Sú reglugerð mun þó hafa tekið mið af töluvert hærri gildum en t.d. í Danmörku, Bandaríkjunum, Kanada og Hollandi og við umræður á Alþingi 1989 sagði ráðherra að til greina kæmi að setja sérstakar reglur um hámark PCB-efna í jarðvegi.

Þrávirk lífræn efni eru sérlega skaðleg því þau safnast fyrir í lífkeðjunni á löngum tíma og brotna ekki niður. Ein af mestu hættum sem mun í framtíðinni ógna lífríki norðurslóða, þar með talið manninum, er mengun af völdum þeirra. Í Morgunblaðinu í morgun var sagt frá því að ríkisstjórnin hefði á fundi sínum í gær samþykkt að leggja fram 1 millj. kr. til tveggja umhverfisverkefna á vegum Norðurskautsráðsins og verður hluta af því fé varið í verkefni sem lúta að hreinsun á PCB sem ógnar umhverfi á norðurskautssvæðinu verði ekkert að gert. Það er einnig og fyrir okkur ekki síður mikilvægt að PCB-mengun hér heima verði upprætt og vænti ég þess að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því.