Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 12:25:31 (5129)

2001-03-01 12:25:31# 126. lþ. 80.6 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[12:25]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. hv. iðnn. um frv. til laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis. Í upphafi er rétt að hafa í huga bakgrunn þessa frv. Bakgrunnurinn er sá að yfirgnæfandi líkur eru á að olía muni finnast á landgrunninu við Færeyjar. Olía hefur fundist nærri Írlandsströndum hjá Hjaltlendingum og nokkur grunur leikur á að olíu kunni að vera að finna á íslensku landgrunni.

Meginmarkmið þessa frv. er að skapa skýran ramma, lagaramma, um leit, rannsókn og vinnslu og flutning kolvetnis eða jarðefnaeldsneytis sem kann að finnast á landgrunninu við Ísland. Það er mikilvægt með því að skerpa eignarrétt íslenska ríkisins, sem er eitt af markmiðum frv., á landgrunninu og jafnframt að skapa skýrar vinnureglur fyrir hugsanlega aðila er kunna að sækja eftir því að leita, rannsaka og jafnvel vinna olíu hér á íslensku landgrunni.

Með öðrum orðum, verið er að skapa þær leikreglur sem kunna þá að gilda um kolvetnisleit eða vinnslu ef slíkt kann að bera árangur hér. Það er mikilvægt, bæði fyrir réttarstöðu íslenska ríkisvaldsins og ekki síður fyrir þau fyrirtæki eða einstaklinga sem kunna að hefja slíka leit, rannsóknir eða vinnslu.

Nefndin fékk á sinn fund fjölmarga gesti og umsagnir og eru þeir tilgreindir í nefndarálitinu. Nefndin fór ítarlega yfir einstakar efnisgreinar og gerir þar nokkrar breytingar og ég mun í stuttu máli reyna að gera grein fyrir þeim.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að töluverð umræða varð um hugtakið ,,kolvetni`` og komu fram ábendingar um að sama hugtak væri notað í matvælaiðnaði, en kolvetni í þeirri merkingu sem hér er fjallað um í frv. eru af allt öðrum toga. Annars vegar er um að ræða þýðingu á kolvetnishugtakinu ,,carbohydrates`` eins og það er notað í matvælafræði og hins vegar ,,hydrocarbon`` eins og það er notað hvað varðar olíu, eða jarðefnaeldsneyti.

Nefndin fór ítarlega í þennan þátt og hafði m.a. samráð við Ingvar Árnason, sem er dósent í ólífrænni efnafræði við Háskóla Íslands. Prófessorinn, sem jafnframt má segja að sé sérfræðingur á þessu sviði gagnvart Íslenskri málstöð mælir með því að hugtakið ,,kolvetni`` verði notað og nefndin mælir með því og notaði það í sinni vinnslu.

Í annan stað er gerð sú breyting á nokkrum stöðum á frv. þar sem í upphaflegu frv. er vitnað til ýmissa annarra gildandi laga, svo sem laga um varnir gegn mengun sjávar, laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, vinnuverndarlaga, náttúruverndarlaga, laga um mat á umhverfisáhrifum og jafnvel fleiri, þá var það samdóma álit nefndarmanna að ekki væri eðlilegt að geta þess í frv. og lögum að önnur lög skuli gilda. Slíkt er talið sjálfsagt og eðlilegt og því óþarfi að geta þess í frv. og því lagt til að sá þáttur falli niður, þar sem er tekið fram að önnur lög skuli gilda.

Herra forseti. Þá var nokkuð rætt um það sem kemur fram í 15. tölul. 11. gr., þar sem fjallað er um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindarinnar, en þess má geta að frv. er þar sem við á í fullu samræmi við auðlindalöggjöf sem samþykkt hefur verið hér á Alþingi á síðustu missirum.

[12:30]

Í 15. tölul. 11. gr. er talað um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindarinnar. Það er skoðun nefndarmanna ef til útboðs kæmi og þegar kemur að gjaldtöku fyrir það, þá geti slík greiðsla verið innt af hendi með ýmsum hætti, ekki endilega beinum peningagreiðslum, og það verði þá samningsatriði hverju sinni, en grundvallaratriðið haldi sér engu að síður.

Í nefndinni var fjallað nokkuð um trúnað opinberra starfsmanna sem starfs síns vegna koma að hugsanlegum upplýsingum sem verða til við leit, rannsóknir eða vinnslu á kolvetni. Nú er ljóst að hér kann að vera um afskaplega mikilvæg iðnaðarleyndarmál að ræða og afskaplega verðmætar upplýsingar en Orkustofnun er ætlað að gegna mjög mikilvægu hlutverki varðandi upplýsingasöfnun. Nefndin vísar til þagnarskyldu opinberra starfsmanna og á þeim grundvelli eigi þessi ótti að vera ástæðulaus. En nefndin áréttar samt þessa þagnarskyldu opinberra starfsmanna.

Það liggur fyrir, herra forseti, að fyrir 16. nóv. árið 2004 þurfa Íslendingar að hafa kynnt til Sameinuðu þjóðanna vegna hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna kröfur sínar á landgrunninu kringum Hatton-Rockall svæðið, sem hefur verið til umræðu og umfjöllunar hér í nokkuð mörg ár, ekki síst eftir að Eyjólfur heitinn Konráð Jónsson tók það til umræðu á hv. Alþingi.

Ljóst er að Hatton-Rockall svæðið er afskaplega verðmætt svæði, ekki bara vegna gjöfulla fiskimiða heldur einnig vegna þess að þar kunna að finnast kolvetni á hafsbotni. Nefndin hvetur mjög til þess að landgrunnslýsingunni á þessu svæði verði hraðað mjög þannig að Íslendingar geti sett fram kröfur sínar fyrir þá dagsetningu sem gert er ráð fyrir vegna hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e. 16. nóv. 2004. Mér er kunnugt um að á vegum utanrrn. og annarra ráðuneyta er mikil vinna í gangi með það og engin ástæða til að ætla annað en að þær kröfur verði lagðar fram fyrir þá dagsetningu sem sett hefur verið.

Þá eru nokkur önnur atriði sem nefndin breytir orðalagi eða er með efnislegar breytingar. Í 1. gr. er t.d. hnykkt á því að ákvæði frv. eigi við sjávarbotn utan netlaga. Í rauninni skerpir nefndin á því með brtt. sinni við 1. málsl. 1. mgr. þannig að ekkert fari á milli mála að hér er átt við landgrunnið utan netlaga enda gilda ákvæði netlaga um svæðið innan þeirra.

Þá er gerð sú breyting á frv. að ráðuneytum umhverfismála og sjávarútvegsmála er ætlað að veita umsagnir þegar beiðni berst um heimild til þess að leita, vinna eða rannsaka kolvetni á landgrunni. Áður en slíkar heimildir eru veittar af iðnrn. eða iðnrh. leiti ráðuneytið til umhvrn. og sjútvrn. Er þá væntanlega gert ráð fyrir því að þau ráðuneyti leiti til sérfræðilegra undirstofnana sinna til þess að leggja mat á m.a. lífríki sem tengist þá sjávarútveginum og ekki síður á einstaka umhverfisþætti. Nefndin skerpir á þessu og setur þetta skýra ákvæði inn að leitað sé umsagnar umhvrn. og sjútvrn. áður en leyfi eru gefin út.

Herra forseti. Þá gerir nefndin þá breytingu á frv. að við 11. gr. er bætt ákvæði þess efnis að þar skuli tilgreina þær tryggingar sem nauðsynlegt er að lagðar verði fram vegna kostnaðar við frágang vinnslusvæða. Hugsunin á bak við þetta ákvæði er sú að ef einhver aðili hefur vinnslu og svo kemur í ljós að þar finnist ekki kolvetni eða jarðefnaeldsneyti er hættan sú eins og er þekkt svo sem frá ýmsum námum á landi að verktakar hlaupi frá og skilji eftir opin sár. Nefndin setur inn ákvæði þess efnis að lagðar verði fram skýrar tryggingar til þess að hægt sé að ganga með viðunandi hætti frá þeim stöðum sem kunna að verða fyrir einhverju raski.

Nefndin gerir þá breytingu enn fremur, herra forseti, að við V. kafla frv. verði bætt fyrirsögninni ,,Vinnuumhverfi og öryggisráðstafanir`` en nefndin leggur til að við þá fyrirsögn bætist ,,umhverfisvernd`` enda mikilvægt að hafa umhverfisþáttinn í huga en ekki einungis vinnuumhverfi og aðrar öryggisráðstafanir. Er sú viðbót nokkuð í þeim anda sem umræðan var í nefndinni.

Þá er, herra forseti, gerð örlítil breyting á 2. mgr. 28. gr. þar sem í rauninni er verið að fella niður ákvæði sem snerta skaðabætur og er það eiginlega gert með skírskotun til skaðabótalaga og í samræmi við það sem ég nefndi í upphafi, að það er eðlilegt að önnur gildandi lög eigi við eftir aðstæðum. Það er svo sjálfsagt að ekki þarf að taka það fram.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir nál. og helstu brtt. Undir nál. rita eftirtaldir hv. þm.: Guðjón Guðmundsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Pétur H. Blöndal, Svanfríður Jónasdóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, auk þess sem hér stendur. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason og Drífa Hjartardóttir voru fjarstödd við afgreiðslu málsins en hafa lýst sig sammála áliti þessu.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, herra forseti. Nefndin afgreiðir þetta einróma frá sér. Það kom fram í umræðum innan nefndarinnar og við vinnslu á þessu máli að líkur á því að kolvetni finnist hér á landgrunninu eru ekki ýkja miklar, þó kannski einhverjar, en markmið þessa frv. er engu að síður að ef til þess kemur, þá séu leikreglur tilbúnar, bæði hvað varðar stjórnsýslu og ekki síður þær leikreglur sem hugsanlegir vinnsluaðilar þurfa að fara eftir.