Staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 01. mars 2001, kl. 14:04:18 (5142)

2001-03-01 14:04:18# 126. lþ. 80.94 fundur 346#B staða almenningsþjónustu á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda er tilefni þessarar umræðu póstþjónustan í Skagafirði og að hluta til í Húnaþingi.

Menn sjá það auðvitað í Skagafirði að það er tiltölulega stutt síðan byggt var myndarlega yfir póstþjónustuna á þessum tveimur stöðum, í Varmahlíð og á Hofsósi, og er því sárt að sjá þeim stöðvum lokað og störfin hverfa. Póstur og sími studdu hvor annan sem þjónustufyrirtæki til skamms tíma og það er líka miklu tamara á tungu að segja Póstur og sími en Póstur og kaupfélag eða Póstur og banki, svo dæmi séu tekin. Hins vegar er á það að líta að slíkt fyrirkomulag er staðreynd og verður staðreynd í Skagafirði í dag og síðan innan tíðar í hluta Húnaþings einnig eða á Skagaströnd.

Það er ekki annað að gera en sjá hvernig þetta reynist, láta þjónustuna reyna sig, en það hefur verið boðað af hæstv. samgrh. að verið sé að auka þjónustuna og bæta hana. Að því er stefnt og því skulum við sjá hvernig það muni ganga. Aðalmálið er að sjálfsögðu að þjónustan sé eins vel af hendi leyst eða betur en gert hefur verið. Umsvif póstþjónustu hafa breyst og ný tækni minnkað hlut almennra póstsamgangna. Tekjur eru því litlar á útstöðvum Póstsins. Það er auðvitað sárt að sjá á eftir störfunum en ég er viss um að enginn vill vera í starfi sem ekki er þörf fyrir.

Þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér hafa tekið þátt í umræðunni hafa áform um verulegan flutning starfa út á land. Hæstv. samgrh. hefur boðað þá fyrirætlan að flytja 50--60 störf út á land og þar á meðal á vegum Íslandspósts. Ég treysti þeim til að búa þar í haginn fyrir þau störf sem þörf er fyrir og eru betur komin á landsbyggðinni. Það hlýtur að vera allra hagur.