Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 12:09:08 (5396)

2001-03-08 12:09:08# 126. lþ. 85.4 fundur 146. mál: #A sveitarstjórnarlög# (einkafjármögnun og rekstrarleiga) frv., Flm. GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir afdráttarlausar yfirlýsingar hv. þm. um efni málsins. Það þarf ekki frekara vitnanna við í þeim efnum. Hann er sammála efni frv. Einasta álitamálið milli okkar er hvort Alþingi þurfi að koma að málinu eða hvort við eigum að treysta framkvæmdarvaldinu og fulltrúum sveitarfélaganna, bókhaldsnefnd og ráðuneytinu, til að leiða það til lykta. Það hefur hins vegar gengið illa eins og ég hef margsinnis getið um. Það hefur tekið fleiri mánuði og missiri. Haldnar hafa verið ráðstefnur um það mál og sitt sýnst hverjum. Við stöndum því enn í sömu sporum.

Ég get ekki látið hjá líða, herra forseti, vegna spurningarinnar um á hvaða vettvangi og hvenær hið háa Alþingi eigi að koma að málum. Stundum hefði það betur komið að málum en ekki. Við tókumst einmitt á um málefni sveitarfélaga, þ.e. fjármál þeirra, í haust í kjölfar niðurstöðu tekjustofnanefndar sem ég nefndi til sögunnar. Þar var mikill almennur vilji til að rétta við hlut sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu. Hins vegar ákvað ríkisstjórnin að taka aðeins á sig hluta af þeirri hækkun sem þar var ráðgerð á útsvarsheimildum til sveitarfélaga, 33% á yfirstandandi ári um síðustu áramót. Við þingmenn Samfylkingarinnar gerðum hins vegar brtt. við þetta og lögðum til að ríkissjóður lækkaði að öllu leyti tekjuskattsheimild sína, þ.e. til jafns við auknar útsvarsheimildir. Það var fellt á hinu háa Alþingi fyrir þremur mánuðum.

Ég heyrði það í fréttum í gær, herra forseti, að hæstv. forsrh. tók upp þessa tillögu okkar Samfylkingarmanna og gerði að sinni á blaðamannafundi í gær. Hann ætlar að leggja til að þessi 0,33% lækkun á tekjuskatti nái fram að ganga um næstu áramót. Betra er seint en aldrei. Í þessu tilfelli þakka ég sérstaklega fyrir að hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihlutinn hlýddi á skynsamlegar raddir stjórnarandstöðunnar. Betur væri að oftar væri það gert.