Þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis

Fimmtudaginn 08. mars 2001, kl. 14:07:42 (5420)

2001-03-08 14:07:42# 126. lþ. 85.9 fundur 198. mál: #A þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 208 um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis. Það kann kannski einhverjum að koma það spánskt fyrir sjónir að það sem snýr að málefni innan veggja hins háa Alþingis skuli vera borið fram á þennan hátt. En málavextir eru þeir að í mars árið 2000 sendi ég hæstv. forsn. svohljóðandi bréf:

,,Virðulega forsætisnefnd.

Það hefur vakið athygli mína þá í sjónvarpi birtast fréttamyndir af störfum erlendra þjóðþinga hve bakgrunnur þeirra er í forsetastól sitja er litríkur og áberandi. Að öllu jöfnu er þar áberandi þjóðfáni þess þings er mynd á skjánum birtist frá í bakgrunni eða til hliðar við forsetastól.

Horfandi á hinn faststillta, litlausa myndramma sjónvarps frá Alþingi væru mikil blæbrigði og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól. Það yrði hinu háa Alþingi til sóma, sem og þjóðfána vorum til vegs og virðingar.

Vænti ég þess að hæstvirt forsætisnefnd taki vel á máli þessu.``

Herra forseti. Af viðtölum mínum við forsn., að undanskildum forseta þingsins, hefur þetta mál fengið mjög jákvæðar undirtektir hjá hæstv. forsetum þingsins, öðrum en hæstv. forseta Halldóri Blöndal, sem ég hef ekki átt viðræður við um þetta mál.

Ég tel hins vegar með ólíkindum og mjög sérstakt að allar götur frá 1944 þegar þjóðfáni vor var ákveðinn skuli aldrei hafa verið léð máls á því eða að ekki skuli hafa verið tekin ákvörðun um að þjóðfáninni væri innan dyra í Alþingishúsinu. Mjög hefur verið deilt um það hvort skjaldarmerki ætti að vera utan á húsinu, við þekkjum þá sögu. En að þjóðfáninn skuli vera innan dyra kann ég ekki sögu um en það eru kannski einhverjir hér inni mér eldri og reyndari sem hafa eitthvað fram að færa í því efni.

Það sem vekur líka athygli mína þegar þetta mál ber á góma að sífellt fjölgar þeim gestum sem koma í Alþingishúsið. Ég get nefnt sem dæmi að 1997 voru þeir um 4.000, 1998 tæplega 4.400 og 1999 um 4.800 og enn fjölgaði þeim árið 2000 þó ég hafi þær tölur ekki fyrir framan mig. Fjöldi erlendra gesta og Íslendinga sem koma hingað skiptist til helminga eða nærri því.

Eins og ég kom að í þessu bréfi sem ég fékk formlega ekki svar við, þá leiddi það til þess að ég flutti þessa þáltill. til að fá umræðu og til að fá þá málið afgreitt á Alþingi hvort menn væru mér sammála eða ekki. En það er nú svo að lög um þjóðfánann hafa verið þannig sett og úr garði gerð að hinn fallegi þjóðfáni Íslendinga hefur verið ofverndaður. Þó hefur lögum nokkuð verið breytt á þann veg að nú má nota fánann á varning og vörumerki þannig að þeim ákvæðum hefur verið breytt mjög til rýmkunar sem er ekki óeðlilegt þegar til þess er litið hvernig umhverfið er í kringum okkur t.d. ef litið er til annarra Norðurlanda. Danir hafa t.d. tekið mjög upp þann sið að nota fánann til þess að auðkenna útflutningsvöru sína.

Málið snýst hins vegar fyrst og fremst um það að hér mér á hægri hönd yrði íslenski þjóðfáninn hafður á lóðréttri fánastöng og ég teldi að það væri mjög af hinu góða.

Ég sé í sjálfu sér ekki mikla ástæðu til að orðlengja þetta mál meira, herra forseti, svo augljóst sem það er, en ætla þó aðeins að vitna til þáltill., ég gríp hér niður í texta, en þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga.

Við setningu Alþingis, 126. löggjafarþings, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, m.a. í ávarpi sínu að það væri sér gleðiefni hve hinum erlendu þjóðhöfðingjum sem hefðu heimsótt landið á sl. fjórum árum hefði þótt mikilsvert að heimsækja með formlegum hætti elsta þjóðþing veraldar.``

Það hafa menn orðið áskynja um og er rétt. Ég segi einnig í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Í tengslum við heimsóknir þjóðhöfðingja hingað til lands hafa birst fréttamyndir í sjónvarpi frá viðkomandi landi og þingi þar sem að öllu jöfnu er áberandi þjóðfáni landsins við forsæti eða ræðustól.

Með lögum nr. 67/1998, um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga, voru heimildir til að nýta þjóðfánann rýmkaðar. Var það m.a. gert til að aflétta ofverndun íslenska þjóðfánans og stuðla að því að gera hann sýnilegri.

Alla daga þá Alþingi starfar eru beinar útsendingar sjónvarps frá þingsal og verður ekki annað sagt en að mikil blæbrigði yrðu á sjónvarpsmynd og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól.``

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel að það væri vel við hæfi að þjóðfáni Íslendinga skipi veglegan sess í þingsal Alþingis. Það yrði hinu háa Alþingi til sóma sem og þjóðfána vorum til vegs og virðingar.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.