Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 15:05:42 (5582)

2001-03-13 15:05:42# 126. lþ. 87.5 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar var vakningarræða Sovét-Íslands sem marga dreymdi um í eina tíð. Þannig ræður hefur hv. þm. oft flutt hér í þingsölum og finnst mörgum gaman af. Það er auðvitað virðingarvert að menn skuli halda svo stíft í gömlu kenninguna, að menn hafi lært hana en engu gleymt og ekkert nýtt lært.

Málið er einfaldlega að þetta ríkisáhrifakerfi, sem hv. þm. telur kjölfestuna í hverju landi, gekk sinn veg í Sovét. Þar ráku menn svona kerfi og þar er ein rjúkandi rúst eftir þá hálfu öld sem það kerfi var við lýði. Þeir sem ráku svokallað sósíalískt kerfi eða blandað kerfi, aðeins mildara kerfi, hafa frá því þetta gerðist í Sovét reynt að nýta markaðstengdari aðferðir til að byggja upp kerfi frjálsræðis og dreifðrar eignaraðildar --- við skulum orða það þannig --- sem skapar ábyrgð eigendanna í fyrirtækjunum, í þessu tilfelli banka. Það vantaði í Sovétkerfinu. Þar bar enginn ábyrgð á neinu. En út frá hugmyndum hv. þm. voru þeir þrjú hundruð milljónir en það er náttúrlega algjör misskilningur.

Ég ætla að spyrja hv. þm. hvort hann vilji í raun að ríkið reki öll hugsanleg fyrirtæki eins og gert var í Sovét hér um árið?