Byggðakvóti

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:06:59 (5765)

2001-03-14 18:06:59# 126. lþ. 89.11 fundur 499. mál: #A byggðakvóti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst skipta máli hvenær sú ágæta nefnd sem fjallar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða skilar af sér. Mér finnst, herra forseti, að hæstv. ráðherra sem fer með byggðamál geti ekki vikið sér undan þessu máli með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir hér. Ráðstöfunin á kvótanum er eitt stærsta byggðamálið, eitt stærsta málið fyrir byggðirnar í landinu eins og nú stendur. Og þar sem öll teikn eru á lofti um að nefndin um endurskoðun á stjórn fiskveiða muni ekki skila af sér í bráð, þá ætlar hæstv. ráðherra þar af leiðandi, eftir því sem hæstv. ráðherra sagði, ekkert að aðhafast í málinu. Ég tel að þetta sé alveg óþolandi svar gagnvart þeirri alvarlegu stöðu og því alvarlega máli sem hér er verið að fjalla um.