Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 21:05:08 (5912)

2001-03-19 21:05:08# 126. lþ. 95.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 126. lþ.

[21:05]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram hafa samtök sjómanna mótmælt harðlega því inngripi ríkisstjórnarinnar sem við ræðum í þessu frv. um frestun á verkfallsaðgerðum sjómanna.

Í greinargerð meiri hlutans segir eitthvað á þá leið að þessu sé frestað til að nálgast verðmæti upp á 1,5 milljarða, aðallega í loðnu og því sé frestað til 1. apríl nk. Hvað skyldi gerast 1. apríl eða þegar kemur fram í aprílmánuð? Jú, það næsta sem gerist er að það fer að fiskast úthafskarfi. Hvað ætla menn þá að gera? Ætla menn að bíða í þrjá daga eða fimm daga þangað til að gripið verður inn í eða tíu daga? Engar líkur eru til að þetta inngrip í kjaradeiluna liðki fyrir samningum. Það er frekar á hinn veginn að það verði til þess eins, og kom enda fram í samtölum við fulltrúa sjómanna, að þetta gæti frekar orðið til það draga kjarasamninga á langinn og hleypa meiri hörku í deiluna en orðin var.

Þegar úthafskarfanum lýkur kemur að norsk-íslensku síldinni. Síðan að humrinum og svona getum við haldið áfram. Það eru nefnilega alltaf einhver tímabil uppi í veiðum fiskimannanna og útgerðarinnar sem eru meira virði fyrir einhvern hluta flotans en annan. Það er afar vandfundinn sá tími á árinu að ekki séu einhver verðmæti sem frestast a.m.k. að veiða meðan verkfallsaðgerðir eiga sér stað. Það er eðli verkfalla að hafa áhrif á það að atvinnustarfsemi stöðvist og menn missa tekjur og báðir aðilar eiga að vera fyrir þrýstingi af þeim sökum og sem ætti þá frekar að leiða til að menn leysi deilur sínar.

Hins vegar er það alveg ljóst að samtök sjómanna eru eðlilega ekki að velja sér verkfallstíma eins og, ja, hvað eigum við að segja, á jólum? Nei, sennilega mundu þeir ekki byrja jólin í verkfalli. Svona er nú þessum málum háttað og auðvitað er ævinlega einhver þrýstingur uppi í kjaradeilum sjómanna vegna þess að það eru ævinlega einhver verðmæti sem a.m.k. bíða eða jafnvel fá að synda í sjónum. Loðnan er svolítið sérstök að þessu leyti að hún verður verðlítil og leggst á botninn og stór hluti af henni deyr og nýtist ekki sem verðmætisaukning.

Mér finnst hins vegar í þeirri stöðu sem er núna uppi ekki réttlætanlegt að grípa inn í þessa deilu. Viðræður við deiluaðila hafa ekki orðið til þess að ég hafi talið að þessi inngrip núna séu eðlileg. Frekar á hinn veginn að það sé mat mitt að inngrip í þessa deilu geti orðið til þess að samningar dragist á langinn og það komi meiri harka í deiluna.

Það er ævinlega þannig þegar gripið er inn í kjaradeilur að þá kemur nokkur stífni á eftir þegar gripið er inn í kjaradeilur með lögum. Það er reynsla sem ég tel mig þekkja nokkuð vel. Aldrei verður gripið svo inn í deilur að þær hafi ekki einhverjar afleiðingar á þau viðhorf samningamanna sem standa að deilunni.

Ég ætla ekkert að tefja málið með því að halda langa ræðu þó það væri vissulega gaman að rifja upp tuttugu ára sögu kjaradeilumála sjómanna og alveg ,,sérstök afrek`` LÍÚ í því sambandi, þ.e. afrek manna við það að komast aldrei að samningaborðinu öðruvísi en eiga það víst að sett verði lög á deilurnar. Ég tel að í deilum á undanförnum árum hafi hagsmunir útgerðarmanna oftast nær verið hafðir að leiðarljósi.

Ævinlega hefur vantað inn í þessar lausnir að menn gætu búið við eitthvað sem þeir hafa talið eðlilegt eins og í verðmyndunarmálunum og eins og í kvótabrasksmálunum og þar sem menn hafa talið að framtíð þeirra væri nokkuð trygg. Sú staða hefur einfaldlega ekki komið upp við lausn kjaradeilu á undanförnum árum vegna þess að það hefur ævinlega verið haft inni í viðskiptunum að það væru opnar leiðir til að blanda þessu saman, þessum viðskiptum bæði í verðmyndunarmálunum, í beinum viðskiptum og eins í sambandi við tilfærslur á kvótakerfinu.

Auðvitað má spyrja sig að því hvort t.d. stærstu útgerðaraðilar og fiskverkendur landsins séu minni þátttakendur í því sem menn geta kallað kvótabrask þegar þeir komast upp með það ár eftir ár að greiða 80 og 90 kr. fyrir þorskinn en aðrir sem selja á mörkuðum eru að selja fiskinn á 140--150 og upp í 200 kr. Hverjir eru þá í meiri kvótaþátttöku, þeir sem gera út á eigin skip og eigin aflaheimildir, selja síðan sjálfum sér á verði sem er langt fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist, eða þá hinir sem eru með lítinn kvóta og eru að leigja til sín kvótann á 90 kr. en eru svo að gera upp með kannski 70, 80 kr. til sinna manna?

Þetta er staða sem við höfum lent í í mörg ár og sú framtíð að eiga að búa við óvissu í þessum verðlagsmálum og óvissu í sambandi við kvótakerfið er algjörlega óásættanleg. Það getur varla orðið nokkur sátt í því sem menn hafa kallað að leita sátta í sjávarútvegsmálum um það að svona kerfi haldi áfram og verðlagningin og kvótakerfið sé nánast eitt og hið sama.