Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:25:06 (5963)

2001-03-26 16:25:06# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frá árinu 1998 og til þessa dags hefur viðskiptahallinn vaxið ár frá ári. Viðskiptahallinn var árin 1998 og 1999 tæp 7% af þjóðartekjum en hrökk upp í um 10% á síðasta ári og horfur eru á að hann verði svipaður á því ári sem nú er nýhafið.

Herra forseti. Þetta er afleiðing rangra áherslna í peningamálum. Enda segir svo í umsögn Þjóðhagsstofnunar, sem hér hefur verið vitnað til, með leyfi hæstv. forseta:

,,Gífurleg útlánaaukning, slaki í hagstjórn, einkum 1998 og 1999, og almennar launahækkanir umfram launabreytingar í helstu viðskiptalöndum hafa viðhaldið uppgangi og eftirspurn í efnahagslífinu. Andlagið er hins vegar mikill viðskiptahalli og erlend lántaka bankakerfisins. Svona mikill halli fær ekki staðist til lengdar og gerir efnahagslífið viðkvæmara fyrir breytingum í ytri aðstæðum.``

Það er því fyllilega ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af viðskiptahallanum og ástæða til að ekki séu um hann höfð nein léttúðug orð hér á þingi.

Herra forseti. Á meðan ríkisstjórnin varði allri orku sinni í að hlutafélagavæða ríkisstofnanir og einkavæða, til sölu hlutabréfa, að heimila bönkunum að auka hlutafé sitt og valda þar með spennu í peningamálum og með því að heimila lífeyrissjóðum að flytja aukið fjármagn úr landi, lækka skatta á dýra bíla o.s.frv., meðan öll orkan fór í þetta, þá var því ekki sinnt að styrkja innviði atvinnulífsins í landinu. Atvinnulífið og innviðir þess guldu þessarar áherslu ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ekki verður ráðið við viðskiptahallann öðruvísi en að beita allri orku, öllum kröftum í að styrkja atvinnulífið á landinu, styrkja útflutningnsgreinarnar. Stemma þessa miklu byggðaröskun sem veldur þjóðarbúinu miklum blóðtökum, bæði í fjármagni og tapi á nýtingu á auðlindum.

Herra forseti. Snúum okkur að því að styrkja atvinnulífið en hættum að halda að það sé fólgið í verðbréfaviðskiptum.