Eftirlit með matvælum

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 15:21:53 (6120)

2001-03-28 15:21:53# 126. lþ. 101.10 fundur 579. mál: #A eftirlit með matvælum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Matvælastofnun Evrópu, The Food Safety Authority, sem staðsett verður í París, er ætlað að verða neytendum innan ESB öryggisventill. En eins og kunnugt er hafa nokkur alvarleg mál komið upp á undanförnum árum sem kalla á aukið eftirlit, aðhald og rannsóknir á matvælum. Samtök evrópskra lækna hafa bent á mikilvægi þess að slík stofnun búi yfir læknisfræðilegri þekkingu þar sem afleiðingar gallaðra matvæla, eitrana og sýkinga, séu heilbrigðisvandamál sem séu í verkahring lækna.

En ég vil spyrja hæstv. umhvrh.:

1. Munu Íslendingar koma að starfi Matvælastofnunar Evrópu samkvæmt EES-samningnum?

2. Er læknisfræðileg þekking nýtt í eftirliti með mat hér á landi?

3. Telur ráðherra að eftirlit með matvælum hér á landi sé nægilegt?