Þjóðhagsstofnun

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 10:49:10 (6145)

2001-03-29 10:49:10# 126. lþ. 102.91 fundur 436#B Þjóðhagsstofnun# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[10:49]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það skiptir ákaflega miklu máli í þessari umræðu að það komi fram hver afstaða hins stjórnarflokksins er. Hver er afstaða Framsfl. til þessarar háttsemi forustu Sjálfstfl. og ríkisstjórnarinnar gagnvart Þjóðhagsstofnun og starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar? Hér erum við að deila á þau vinnubrögð sem höfð hafa verið í frammi.

Það er rétt að rifja það upp sökum orða sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lét falla hér að í fyrra var þetta reifað í tengslum við ársfund Seðlabankans. Þá varð það að niðurstöðu milli hæstv. forsrh. og þjóðhagstofustjóra að sett yrði niður nefnd til þess að skerpa starfs- og verkaskiptingu þriggja stofnana sem vinna á skyldum sviðum. Það átti að setja niður nefnd undir forsæti ráðuneytisstjóra hæstv. forsrh. Hvað hefur þessi nefnd haldið marga fundi? Hún hefur ekki haldið neinn fund. Hér er um algert gerræði og geðþótta\-ákvörðun hæstv. forsrh. að ræða. Það hefur ekki verið haldinn neinn fundur í þessari nefnd sem þjóðhagstofustjóri taldi að sjálfsögðu að mundi véla um framtíð sinnar stofnunar. Þetta er harðlega ámælisvert, herra forseti.

Það er auðvitað ekki vansalaust að starfsmenn stofnunarinnar skuli bæði vera kallaðir af hæstv. forsrh. kaffihúsakarlar og fá að vita um afdrif stofnunarinnar í gegnum fjölmiðla. Það er þetta sem verið er að átelja hér, herra forseti.

Mér finnst líka að það sem skiptir máli hérna séu þau vinnubrögð sem við erum að verða vitni að æ ofan í æ. Mér finnst að það gangi ekki að forusta ríkisstjórnarinnar skuli með þessum hætti skapa andrúmsloft þar sem opinberir starfsmenn þora ekki lengur að hafa skoðanir af ótta við að lenda undir hrammi ríkisstjórnarinnar. Mottóið er einfaldlega að verða þetta: Hafa skal það sem forsrh. vill en leggja stofnanirnar ella niður.