Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 12:14:27 (6159)

2001-03-29 12:14:27# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála því að það hefði verið ákaflega gaman að geta rætt þetta mál ítarlegar og í raun og veru væru öll tilefni til að efna til myndarlegrar ráðstefnu þar sem menn hefðu tíma og tækifæri til þess að fara rækilega í gegnum þessi hnattvæðingarmál og stöðu Íslands í því efni. Mér fyndist t.d. tilvalið tilefni fyrir Alþingi og utanrrn. að standa sameiginlega fyrir einhverju slíku þar sem mönnum gæfist tími til að fara ítarlega yfir ýmsa þætti, skoða þetta frá báðum hliðum og leiða jafnvel fram sérfræðinga sem hafa verið að rannsaka ýmsa þætti þessara mála.

Að sjálfsögðu er það þannig að Ísland getur ekki eitt og sér stöðvað þær breytingar og þá meginstrauma sem eru í gangi í heiminum. En það er jafnsjálfsagt að við höfum skoðun á þeim hlutum og við höfum meðvitund um það sem er að gerast á okkar sjálfstæðu forsendum en fljótum ekki viljalaus með þeim straumi hvert sem hann er að fara. Það er þrátt fyrir allt þannig að ég held að við eigum val um ýmislegt í þessum efnum, þ.e. annars vegar hvernig við beitum rödd okkar þar sem þessi mál eru á dagskrá í alþjóðasamstarfi og auðvitað er alþjóðasamstarfið mikilvægt, enginn vafi er á því í sambandi við umhverfismál og margt fleira, og svo hitt og ekki síður eigum við gagnvart okkur sjálfum og því hvernig við stöndum að málum að hafa sjálfstraust til að bera til að fylgja þar fram sjálfstæðri stefnu. Þetta mál og margir þessir hlutir sem við ræðum, hvort heldur undir fyrirsögninni umhverfismál, hnattvæðing eða annað, hafa gjarnan á sér þessar tvær hliðar. Annars vegar þá sem snýr út á við að alþjóðlegu samstarfi og viðfangsefnum sem leysast þar en hins vegar því sem snýr að okkur sjálfum. Þar er auðvitað ástæða til að gleyma ekki síst umhverfismálunum því að þar er að mörgu að hyggja hér innan lands eins og kunnugt er.