Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. mars 2001, kl. 15:30:28 (6197)

2001-03-29 15:30:28# 126. lþ. 102.1 fundur 435#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi þau pólitísku tíðindi frá Bandaríkjunum, að ríkisstjórn Bush hyggist gefa Kyoto-bókunina upp á bátinn og bara einfaldlega hafna því að ganga til samstarfs eða halda áfram samstarfi á þeim grunni, þá hefði ég gjarnan viljað sjá miklu harðari viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda og mér finnst að menn eigi að finna til ábyrgðar sinnar og sameiginlegrar ábyrgðar varðandi framtíðarhorfur mannkyns og heimsins. En kannski má segja að ekki sé mjög hægt um vik þar sem Ísland er eitt örfárra ríkja sem ekki hafði einu sinni svo mikið sem undirritað bókunina, hvað þá staðfest hana. En menn geta svo sem haft einhverja sjálfstæða skoðun á málinu eftir sem áður.

Varðandi Írak og í samræmi við það sem hæstv. ráðherra sagði að Íslendingar styddu eindregið frumkvæði Norðmanna, þá finnst mér tímabært að Alþingi Íslendinga taki þá af skarið fyrir sitt leyti og lýsi því yfir að það vilji að menn beiti sér fyrir endurskoðun á þeirri framkvæmd. Það er búið að biðja um afgreiðslu á tillögu sem gengur í þá átt einum sjö sinnum á Alþingi Íslendinga á jafnmörgum árum eða svo til og hefur ekki tekist enn þá, en ég hlýt að leyfa mér að lýsa yfir ákveðinni bjartsýni og trú á að nú væri hægt að sameinast um að a.m.k. einhverja örlitla vísbendingu í þá veru þó ekki væri meira. Og vegna þess að málið hefur verið á dagskrá Alþingis finnst mér að þingið ætti sóma síns vegna þó ekki kæmi annað til að binda einhvern endahnút á þetta mál þannig að það endi ekki afvelta ef svo vel vill til að einmitt það fari að gerast sem tillagan hefur alla tíð gengið út frá. Það hefur einmitt verið að endurskoða framkvæmdina og aldrei falið í sér að ekki væri áfram ástæða til að viðhalda vopnasölubanni eða öðrum slíkum aðgerðum.

Varðandi ályktanir eða fordæmingu á framgöngu Ísraela í málefnum Palestínumanna, þá geta menn auðvitað sagt sem svo að það flytji ekki fjöll þó að litla Ísland geri ályktun eða láti í sér heyra í þeim efnum, en við eigum samt að gera það og við eigum að gera það einarðlegea í krafti þeirrar sannfæringar okkar að þarna sé ámælisverð framganga á ferð og ég hvet því til þess að íslensk stjórnvöld fjalli um það mál.