Dómstólar

Þriðjudaginn 03. apríl 2001, kl. 17:00:25 (6282)

2001-04-03 17:00:25# 126. lþ. 104.27 fundur 415. mál: #A dómstólar# (skipun hæstaréttardómara) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið fagna þessu frv. Mér þykja þær breytingar sem hér eru lagðar til líklegar til að styrkja þingræðið til muna, sama þingræði og hæstv. dómsmrh. varði talsverðum tíma í að ræða. Í öðru lagi mun það styrkja dóminn og dómendur, auka breiddina að baki tilnefningu þeirra og gera þá óumdeildari en ella í þessum mikilvægu störfum sínum.

Ég vil líka rifja upp, af því að það hefur ekki borið á góma í þessari umræðu, að það er ekki algerlega nýtt af nálinni að Alþingi komi að því að skipa í mikilsverð embætti sem gert er að starfa sjálfstætt. Ég nefni þar til sögunnar umboðsmann Alþingis sem er einfaldlega valinn af hinu háa Alþingi og ekki síður ríkisendurskoðanda sem nýtur sjálfstæðis í öllum sínum störfum. Hann er einnig valinn á hinu háa Alþingi, raunar af forsn. þingsins. Við höfum auðvitað hliðstæður í þessum efnum. Því er afskaplega undarlegt að heyra hæstv. dómsmrh. ræða þetta frv. undir þeim formerkjum að aðkoma Alþingis mundi skapa réttaróvissu og jafnvel gera það að verkum að Hæstiréttur væri óstarfhæfur um lengri eða skemmri tíma. Ég átta mig ekki á því hvert hæstv. ráðherra var að fara í þeim efnum. Væntanlega mun hann skýra það betur á öðrum vettvangi fyrr eða síðar.

Kjarni málsins er sá að hér er verið að treysta þann sem skipaður er. Aukinn meiri hluti á hinu háa Alþingi mun auðvitað gera það að verkum að þröng flokkspólitísk sjónarmið munu ekki ráða ríkjum. Það mun ekki ráða úrslitum hvað ríkisstjórnin á hverjum tíma heitir eða hver skipar embætti forsrh. ellegar dómsmrh. Það hefur auðvitað verið þannig að það skiptir mestu þegar kemur að skipan hæstaréttardómara. Það er einfaldlega þannig. Menn þurfa ekki annað en horfa á samsetningu dómsins og bakgrunn þeirra sem þar eru í flokkspólitískum skilningi. Þar virðast flestir flokkar eiga ,,sinn fulltrúa`` en flokkur hæstv. núv. dómsmrh. á langstærstan hlut þar að máli, enda hefur flokkurinn farið með stjórn dómsmála langlengst á lýðveldistímanum af öllum öðrum flokkum. Þetta er hinn kaldi veruleiki og því finnst mér býsna djarflega mælt hjá hæstv. ráðherra að hann hafi áhyggjur af því að með atbeina Alþingis, með því að 3/4 hlutar Alþingis komi að staðfestingu tillögu forsrh. hverju sinni á skipan hæstaréttardómara, sé verið að blanda pólitík í málið. Hér eru náttúrlega höfð endaskipti á hlutunum, herra forseti, og með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli láta sér þetta um munn fara.

Ég ætla hins vegar ekki að elta ólar við ræðu hæstv. ráðherra. Hún skýrir sig sjálf svo langt sem hún nær. Meginatriðið er að við flutningsmenn frv. viljum styrkja dóminn. Það er ekki vanþörf á því og því að hann geti lifað sjálfstæðu lífi. Við viljum að dómendur verði valdir á sem breiðustum grunni og njóti eins víðfeðms trausts og kostur er. Sú aðferð sem hér er lögð til tryggir mun betur en fyrirkomulagið sem við höfum búið við nú um langt árabil. Það kann vel að vera að á þessu þurfi að gera lítilvægar lagfæringar eða breytingar. Ég trúi ekki öðru en flutningsmenn séu til viðræðu um það. Kjarni málsins er aftur á móti skýr og ljós. Hér erum við að styrkja Hæstarétt og dómendur.