Átak í lífrænni ræktun

Miðvikudaginn 04. apríl 2001, kl. 14:33:14 (6330)

2001-04-04 14:33:14# 126. lþ. 106.4 fundur 580. mál: #A átak í lífrænni ræktun# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Þetta er skemmtileg umræða og titringur í liðinu eins og sagt er. Ég vil fyrst og fremst segja að ég vona að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir geri hvorki eitt eða neitt við mig. Ég þarf í sjálfu sér ekkert af hennar úrræðum að læra. Hins vegar þyrfti hv. þm. kannski að átta sig á því að íslenskur landbúnaður er nær því að vera lífrænn á mörgum sviðum. Við getum vart gengið lengra. Sauðfjárbúskapurinn er að stórum hluta við það að vera lífrænn. Þarf lítið að gera til að svo sé alfarið. Þar er frábær búskapur og afurðir sem heillar neytendur víða um lönd. Ég hygg að hið sama sé að segja um mjólkina.

Ég hef tekið þátt í því að opna lífræna miðstöð á Hvanneyri. Ég hef sagt frá því án þess að eyru þingmanna nemi, t.d. hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að ég er núna að vinna að því í ráðuneyti mínu að framlög til búnaðarmála falli sérstaklega til stuðnings við bændur í lífrænni ræktun. Þetta sagði ég í ræðu minni en menn kjósa að heyra ekki.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er fyrrv. landbrh. Í hans tíð varð ekki minni samþjöppun en í tíð annarra ráðherra. Ég hygg að kjúklingabúskapur og svínabúskapur hafi á þeim tíma gengið mjög saman og færst á færri hendur eins og reyndar hefur gerst síðar. Hv. þm. ber þar auðvitað sína ábyrgð.

Ég vil taka það fram að ég horfi á lífrænan landbúnað sem ákveðið tækifæri. Hann getur þó aldrei orðið stórfelldur vegna þess hversu góðan vistvænan landbúnað, skulum við kalla það, við eigum og hversu íslenskir neytendur eru heillaðir af þeim vörum. Þeir eru ekki að spyrja eftir lífrænum vörum nema þá tiltölulega lítill hópur. Þeim markaði þurfum við að fylgja eftir og við þurfum að stækka þær framleiðslueiningar. Að því er unnið í mínu ráðuneyti í góðri samvinnu við Bændasamtök Íslands. Þessi verkefni eru öll í gangi.

Ég vil síðan þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir þessa umræðu. Ég hygg að við höfum á mörgum sviðum svipaðar skoðanir um þetta. Það er mikilvægt að við höldum vöku okkar og brýnum vopnin öðru hverju.