Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 14:23:57 (6409)

2001-04-05 14:23:57# 126. lþ. 107.11 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var fróðleg ræða sem hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti áðan og um margt áhugaverð og um sumt er ég honum einlæglega sammála. Einkanlega hvað það varðar að --- eða a.m.k. ég skildi orð hans þannig að menn hafi ef til vill við samningu frv. ekki hugleitt sem skyldi hvað eigi að vera í svona lögum og hvað ekki, hversu langt eigi að ganga í því að skilgreina það tæknilega, hvernig viðskipti af þessum toga eiga að fara fram. Hv. þm. benti á ýmislegt í þeim efnum sem ég get tekið undir.

En um leið kom hv. þm. einmitt inn á kjarna málsins í andsvari sínu, að vitaskuld þurfum við ekki svona tryggingarkerfi, og þá er ég að tala um verðtrygginguna, í umhverfi sem allir hafa óbilandi trú og traust á. Það er einfaldlega þannig að engin þjóð hefur leyft eða heimilað, það má kannski frekar orða það þannig að skapast hafi hefð fyrir því að á jafnvíðtækum og víðfeðmum sviðum séu verðtryggingar heimilar.

Og af því ég er kominn aðeins inn á verðtrygginguna, sem ég ætlaði að gera að meginmáli í umræðunni, þá verð ég eiginlega að taka aðeins upp hanskann fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem er þó fullfær um það sjálfur en hann er ekki hér í salnum. Í ræðu sinni í morgun velti hann því aðeins upp hvers vegna tryggja þyrfti fjármagnið miklu meir en önnur verðmæti í viðskiptum. Hann fullyrti aldrei að banna ætti verðtryggingu. Hann velti því aðeins upp hvort það tryggingarkerfi sem felst í verðtryggingunni, sem felst að mínu viti einnig í ábyrgðarmannakerfinu og einnig í því að innborganir á skuldir ganga alltaf fyrst upp í kostnað og dráttarvexti en ekki höfuðstól eða vexti. Ég held að þetta séu allt saman hlutir sem gera það að verkum sem menn hafa á köflum leyft sér að kalla þetta kerfi almannatryggingkerfi fjármagnseigenda, og það sé þéttofnara og víðfeðmara en flest önnur almannatryggingakerfi sem við höfum.

Þannig skildi ég hv. þm. í morgun en ég skildi hann ekki þannig að hann væri að mæla á móti sparnaði og ég skildi hann ekki þannig að hann væri að mæla gegn verðtryggingu en var að velta þessu upp og óhjákvæmilega er þessum spurningum velt upp síðan í tengslum við það efnahagsumhverfi sem við lifum í og í tengslum við þá trú sem almenningur hefur á því efnahagskerfi sem við lifum í. Við veltum því fyrir okkur í þessu samhengi af hverju við hér á Íslandi þurfum að vera með víðfeðmara almannatryggingakerfi gagnvart fjármagnseigendum en aðrir. Svona skildi ég ræðu hv. þm. í morgun þó hann hafi kannski ekki tekið á öllum þessum tilteknu þáttum en þetta hafi samt verið kjarninn í því sem hann var að segja.

Ég vil einnig nefna, virðulegi forseti, að ýmislegt er í frv. sem ég held að sé af hinu góða. Eitt af því sem ég tel vera af hinu góða er að menn skuli semja sjálfir um vexti. Það held ég að sé mjög gott því að eitt af því slæma sem hér hefur verið er einmitt það að fyrir fram teknar ákvarðanir um vexti gera það að verkum að fólk hefur ekki haft verðskyn á því hvað peningar kosta. Ég er alveg sannfærður um að með því að færa þessar ákvarðanir til viðsemjenda sjálfra muni menn smám saman læra mun betur og átta sig betur á því að fjármagn er eins og önnur verðmæti, þau kosta eitthvað og menn greiða af þeim í samræmi við það. Það er miklu skynsamlegra og miklu betra og miklu betur til þess fallið að menn þroskist í þessu umhverfi að menn þurfi að bera ábyrgð sjálfir.

Ég held reyndar að verðtryggingin rugli menn örlítið í ríminu því að verðtryggingin gerir það að verkum að af slíkum lánum er tekinn út ákveðinn áhættufaktor. Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af verðlagsþróun þegar þeir lána féð vegna þess að þeir eru tryggðir fyrir því, þeir eru tryggðir fyrir ákveðinni verðlagsþróun. Það gerir það að verkum að það verður alltaf viðmiðið, viðmiðin verða verðtryggð lán, verðtryggð skuldabréf eða verðtryggt lánsfé. Ég held að það geri það að verkum að verðskyn manna á peninga verði kannski ekki eins og það þyrfti að vera. En þetta er þó skref í rétta átt og ég vil sérstaklega fagna því að þetta skuli vera í frv.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi það einnig áðan að þeir sem tóku til máls í þessari umræðu hefðu bara talað fyrir eyðslu en hann hefði aðeins talað fyrir sparnaði, og því miður hljómaði umræðan aðeins þannig fyrir þá sem á hlýddu. En ég held að ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal séum sammála um að þetta þurfi að vera sambland af hvoru tveggja því að ef enginn er sparnaðurinn og enginn er hagnaðurinn þá er úr litlu að moða að því er varðar að lána út fé. Ég held að um þetta séum við sammála. En ef enginn er sá sem þorir að taka þá áhættu að taka fé að láni til að fjárfesta þá verður lítið um framfarir. Þetta spilar því allt saman saman sína rullu. Ég held að það þjóni í sjálfu sér litlum sem engum tilgangi í umræðunni að fjalla um þetta á þeim nótum að menn séu ýmist bara a eða b. Til þess er efnahagslífið allt of flókið og það er allt of flókið til þess að hægt sé að skilgreina það á þennan hátt.

Það er mikið af því, virðulegi forseti, komið fram sem ég vildi ræða. En ég vildi þó beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh., sem leiðir umræðuna í dag af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna forfalla hæstv. viðskrh., hvort það komi til álita líkt og tíðkast í Danmörku --- það tíðkast reynda bara eftir því er ég best veit að því er varðar skuldir sveitarsjóðs og ríkissjóðs --- að innborganir vegna gjaldfallina lána, skulda eða gjalda gangi fyrst inn á höfuðstól og vexti í stað þess að fara inn á kostnað og dráttarvexti.

Ég er alveg sannfærður um að oft og tíðum þegar fólk hefur verið að reyna að rétta sig við og hefur verið að reyna að greiða inn á gjaldfallnar skuldir hvort sem þær stafa af gjöldum, sköttum eða lánsfé, þá gerir það mjög erfitt um vik að rétta sig við að menn gera sjaldan lítið annað en að greiða jafnvel inn á lögmannskostnað eða dráttarvexti. Ég er sannfærður um að ef við skoðuðum þann möguleika af mikilli alvöru og skoðuðum það þó sérstaklega að því er varðar sveitarsjóði og ríkissjóð að innborganir inn á slíkar skuldir mundu ganga fyrst inn á höfuðstól og vexti.