Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:17:17 (6533)

2001-04-06 12:17:17# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að ég móðgi ekki hæstv. forsrh. Mér fannst hann svo ærlegur áðan að það vantaði ekki nema eitt í þessa upptalningu en það hefði að sjálfsögðu útilokað þann náttúrufræðing sem hér stendur og það er auðvitað lögfræðipróf frá Háskóla Íslands.

Það kom líka fram í máli hæstv. forsrh. að hann er giska vel kunnugur því hvernig jafnaðarmenn hugsa, ekki bara í Svíþjóð heldur líka í Bretlandi og helstu rök hans í málefnalegri umræðu við mig eru þau að jafnaðarmenn í Svíþjóð fara aðra leið. Guð láti gott á vita. Ég vona að ég geti þá í framhaldinu líka bent hæstv. forsrh. á ýmislegt annað sem þeir eru að gera sem hæstv. forsrh. mætti taka upp eftir þeim.

Ég er hins vegar ósammála honum um að Gordon Brown sé að fara einhverja millileið með þessari peningastefnunefnd hjá Englandsbanka. Ég held miklu frekar að hann hafi gert sér grein fyrir því að þarna er um að ræða flókið og viðamikið mál. Menn þurfa mikla greiningargetu til þess að geta brotið sig að niðurstöðu og ég held þess vegna að hann hafi verið að tryggja það að þarna safnaðist mikið atgervi til þess að geta ráðið til lykta þessum flóknu ákvörðunum.