Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:23:10 (6577)

2001-04-06 15:23:10# 126. lþ. 108.23 fundur 597. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir, náttúrustofur o.fl.) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið. Komið hafa fram, m.a. í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, efasemdir um takmörkun á fjölda náttúrustofa, að takmarka hann við átta stofur. Þær eru sex í dag og hv. þm. taldi að það þyrfti ekki endilega að takmarka fjöldann heldur væri eðlilegra að skoða hlutverk starfseminnar og umfang hennar.

Ég tel að ekki sé æskilegt að stofna til of margra náttúrustofa á landinu. Ég tel að ef þær verði of margar þá verði þær síður burðugar og of litlar. Í dag eru þær meira eða minna einmenningsstofur með vissum undantekningum þó en ég tel að við eigum að reyna að hlúa vel að þeim stofum sem fyrir eru og ekki stofna til of margra þannig að þær verði óburðugri. Ég held að það yrði óhjákvæmilega afleiðingin, a.m.k. fyrst í stað. Þær sem fyrir eru þurfa að styrkja sig. Væntanlega bætum við tveimur við í framtíðinni. Bæði vantar stofu, ef við horfum á landið í heild, á Norðausturlandi og Suðausturlandi og ég tel að við þurfum að öðlast meiri reynslu og reyna að hlúa betur að þeim stofum sem fyrir eru áður en við stofnsetjum fleiri en átta stofur.

Það er mikilvægt að skapa starfsemi á landsbyggðinni og sérstaklega starfsemi sem lýtur að fræðistörfum þar sem koma að aðilar með mikla þekkingu sem geta veitt viðkomandi stofum og svæðum miklar upplýsingar á sínu sviði. Ég ítreka að ég tel ekki æskilegt að stofna til of margra stofa.

Ég vil líka drepa á það sem kom bæði fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að mikilvægt væri að sveitarfélögin stæðu saman að rekstri þessara stofa. Það hefur því miður ekki orðið. Flestar hafa verið með eitt eða tvö sveitarfélög á bak við sig en ekki fjölda sveitarfélaga eins og að var stefnt í upphafi. Menn lentu meira að segja í því á fyrri tíð að í einu kjördæmi var mjög erfitt að velja náttúrustofu staðsetningu vegna þess að menn toguðust á um hvar viðkomandi náttúrustofa ætti að vera niður sett. Menn báðu meira að segja umhvrn. að aðstoða í því togi. Þetta hefur því verið svolítið harðdrægt. Ég vona að þegar náttúrustofurnar fá meiri reynslu og hafa starfað í um árabil þá breytist þetta og fleiri sveitarfélög komi að hverri náttúrustofu. Hvort Samband ísl. sveitarfélaga beitir sér í því eða ekki get ég ekki sagt neitt til um en það er alveg ljóst að stofurnar verða sterkari ef fleiri sveitarfélög standa á bak við þær.

Ég vil einnig ítreka að lokum að ég tel mikilvægt að frv. nái fram að ganga vegna byggðasjónarmiða og þeirrar fræðimennsku sem stunduð verður á náttúrustofunum. Ég tel að stofurnar geti haft mjög mikil áhrif á umhverfisvernd á Íslandi með því að upplýsa almenning um byggðir landsins, umhverfismál og náttúrufar á viðkomandi svæði. Það á að skapa betri ramma fyrir stofurnar og menn sjá það á þeim gögnum sem liggja hér til grundvallar, gögnum frá fjmrn., að verði frv. að lögum er stefnt að því að auka fjármagn til hverrar stofu um 2 millj. Það er fé sem mun nýtast vel á hverri stofu, samtals þá um 12 millj. vegna þess að stofurnar eru sex.

Ég tel einnig mikilvægt að menn skilji á milli í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í dag er það þannig að umhvrh. skipar formann stjórnar en sveitarfélögin skipa hina tvo. Ég tel að það sé eðlilegra vegna þess að sveitarfélögin standa að þeirri starfsemi með styrk frá ríkinu. Það eiga að vera hreinar línur á ábyrgð og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til mun ráðherra ekki lengur skipa formann heldur mun sveitarstjórn skipa alla fulltrúana.